Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Febrúar 2016

 ÚR SÖGUSAFNINU

Milljónir þekktu þennan hátalarabíl

Milljónir þekktu þennan hátalarabíl

„Það er aðeins einn hátalarabíll í þjónustu Drottins í Brasilíu en milljónir manna þekkja hann, ,hátalarabíl Varðturnsins‘.“ – Nathaniel A. Yuille árið 1938.

BOÐUN Guðsríkis átti frekar erfitt uppdráttar í Brasilíu snemma á fjórða áratug síðustu aldar. En árið 1935 skrifuðu brautryðjendurnir Nathaniel og Maud Yuille bréf til Josephs F. Rutherfords sem fór þá með forystuna í boðuninni. Þau buðu sig fram til þjónustu og sögðust vera „fús til að fara hvert sem er“.

Nathaniel var þá 62 ára byggingarverkfræðingur og kominn á eftirlaun. Hann hafði verið þjónustustjóri í einum söfnuði Votta Jehóva í San Francisco í Kaliforníu. Þar hafði hann skipulagt boðunina og notað hljómflutningstæki til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Reynsla hans og fúsleiki kom að góðum notum í nýja verkefninu hans sem deildarþjónn yfir gríðarstóru svæði með mörgum málhópum – Brasilíu.

Nathaniel og Maud komu til Brasilíu árið 1936 ásamt Antonio P. Andrade, brautryðjandafélaga þeirra sem túlkaði fyrir þau. Þau tóku með sér verðmætan varning, 35 grammófóna og hátalarabíl. Á þeim tíma voru aðeins 60 boðberar í Brasilíu, fimmta stærsta landi heims að flatarmáli. En þessi nýstárlegu hljómflutningstæki hjálpuðu þeim að ná til milljóna manna á fáeinum árum.

Mánuði eftir að Yuille-hjónin komu skipulagði deildarskrifstofan fyrsta mótið í Brasilíu, en það var haldið í São Paulo. Líklega var Maud við stýrið þegar hátalarabíllinn var tekinn í notkun til að auglýsa opinbera fyrirlesturinn en á hann mættu 110 manns. Mótið gaf boðberum aukinn kraft og hvatti þá til að taka meiri þátt í boðuninni.  Þeir lærðu að boða trúna með því að nota rit og boðunarspjöld auk hljómplatna á ensku, pólsku, spænsku, ungversku, þýsku og síðar meir á portúgölsku.

Hátalarabíllinn var notaður til að boða milljónum manna fagnaðarerindið í Brasilíu.

Þrjú mót, sem haldin voru í São Paulo, Rio de Janeiro og Curitiba árið 1937, voru góð innspýting í boðunina. Þeir sem sótt höfðu mótið notuðu hátalarabílinn í boðuninni hús úr húsi. José Maglovsky, sem var ungur maður á þeim tíma, skrifaði síðar: „Við settum ritin okkar á stand og svo var boðskapurinn spilaður úr hátalarabílnum. Við töluðum síðan við fólkið sem kom út til að sjá hvað væri um að vera.“

Skírnir fóru fram í fljótum og ám rétt hjá vinsælum baðstöðum. Hvílíkt tækifæri til að boða fagnaðarerindið með hjálp hátalarabílsins! Skírnarræða bróður Rutherfords þrumaði úr hátölurunum. Forvitið fólk safnaðist að bílnum og hlustaði á ræðuna sem var þýdd yfir á portúgölsku. Eftir það voru skírnþegar skírðir á meðan spilaðir voru ríkissöngvar á pólsku. Bræður og systur sungu með á hinum ýmsu tungumálum. „Þetta minnti á hvítasunnuna þegar hver og einn heyrði sitt eigið tungumál,“ sagði í árbókinni 1938.

Eftir mótin voru spilaðar biblíutengdar ræður úr hátalarabílnum á hverjum sunnudegi, sama hvernig viðraði. Þær náðu til fólks í almenningsgörðum, íbúðahverfum og verksmiðjum í miðborg São Paulo og nærliggjandi bæjum. Mánaðarleg dagskrá var flutt úr hátalarabílnum fyrir 3.000 manna samfélag holdsveikra sem var um 100 kílómetrum norðvestur af São Paulo. Með tímanum myndaðist blómlegur söfnuður á staðnum. Þrátt fyrir alvarleg veikindi sín fengu boðberarnir þar leyfi til að heimsækja annað samfélag holdsveikra til að segja frá hughreystandi boðskap Biblíunnar.

Síðla árs 1938 fengu boðberar loks hljómplötur með ræðum á portúgölsku. Á allrasálnamessu var hátalarabílnum ekið á milli kirkjugarða og spilaðar voru ræðurnar „Hvar eru hinir dánu?“, „Jehóva“ og „Auðæfi“ fyrir rúmlega 40.000 manns sem syrgðu látna ástvini.

Hneyksluðum prestum gramdist það að biblíusannindi voru boðuð af slíkum krafti og þrýstu oft á yfirvöld að þagga niður í hátalarabílnum. Maud minntist þess að eitt sinn hafi prestur æst upp múg og fengið hann til að þrengja að hátalarabílnum. Borgarstjórinn og lögregluþjónar mættu á staðinn en þeir hlustuðu á alla dagskrána. Þegar borgarstjórinn fór var hann með rit frá okkur í hendi og það varð ekkert upphlaup þann daginn. Þrátt fyrir slíkt mótlæti var sagt í greinargerð frá Brasilíu í árbókinni 1940 að árið 1939 hefði verið „besti tíminn til að þjóna alvöldum Guði og kunngera nafn hans“.

„Hátalarabíll Varðturnsins“ markaði sannarlega þáttaskil í boðuninni í Brasilíu þegar hann kom til landsins. Hann gegndi lykilhlutverki í því að koma boðskapnum um ríki Guðs til milljóna manna. Þó að þessi frægi bíll hafi verið seldur árið 1941 hefur gífurlegur fjöldi votta Jehóva haldið áfram að boða einlægu fólki fagnaðarerindið í Brasilíu, þessu gríðarstóra landi. – Úr sögusafninu í Brasilíu.