Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Febrúar 2016

Jehóva kallaði hann vin sinn

Jehóva kallaði hann vin sinn

„Þú, Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hef útvalið, niðji Abrahams, vinar míns.“ – JES. 41:8.

SÖNGVAR: 91, 22

1, 2. (a) Hvernig vitum við að við mennirnir getum orðið vinir Guðs? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?

VIÐ þörfnumst ástar frá vöggu til grafar. Mennirnir þrá ást og þarfnast hennar – og ekki aðeins rómantískrar ástar. Við höfum sterka þörf fyrir að tengjast öðrum og njóta vináttu þeirra. En það er til kærleikur sem við þörfnumst meira en nokkurs annars. Það er kærleikur Jehóva. Margir eiga erfitt með að ímynda sér að við mennirnir getum eignast ástríkt og náið vináttusamband við alvaldan og ósýnilegan Guð á himnum. Erum við líka efins um það? Alls ekki.

2 Af Biblíunni má sjá að ófullkomnir menn hafa orðið vinir Guðs. Það er þess virði að lesa sér til um þá því að varla er hægt að hugsa sér háleitara markmið en að verða vinur Guðs. Abraham er þekkt dæmi um mann sem var kallaður vinur Guðs. (Lestu Jakobsbréfið 2:23.) Hvernig eignaðist Abraham svona náin tengsl við Jehóva? Það var ekki síst trú hans að þakka. Í Biblíunni er hann reyndar kallaður „faðir allra  þeirra sem trúa“. (Rómv. 4:11) Við skulum því kanna hvernig trú Abrahams varð til þess að hann eignaðist náið vináttusamband við Guð. Og öll getum við spurt okkur hvernig við getum líkt eftir trú hans og styrkt vináttuna við Jehóva.

HVERNIG VARÐ ABRAHAM VINUR JEHÓVA?

3, 4. (a) Lýstu þeirri miklu trúarraun sem Abraham varð fyrir. (b) Hvers vegna var Abraham fús til að fórna Ísak?

3 Sjáðu fyrir þér aldraðan mann ganga þungum skrefum upp fjallshlíð. Þetta er líklega erfiðasta ferðin sem hann hefur farið á ævinni. En það er ekki aldurinn sem gerir að verkum að hún reynir svona á hann. Abraham er enn þróttmikill þótt hann sé líklega um 125 ára. [1] Á eftir honum gengur ungur maður, kannski um 25 ára gamall. Þetta er Ísak, sonur hans, og hann ber eldivið á bakinu. Abraham heldur á hnífi og glóðarkeri. Jehóva hefur beðið hann um að fórna syni sínum! – 1. Mós. 22:1-8.

4 Þetta var sennilega mesta trúarraunin sem Abraham varð fyrir á lífsleiðinni. Til eru þeir sem segja að það hafi verið grimmilegt af Guði að fara fram á annað eins við Abraham, og sumir láta í veðri vaka að Abraham hafi hlýtt í blindni og ekki elskað son sinn. En þeir hafa hvorki trú né skilja hvernig trúin virkar. (1. Kor. 2:14-16) Abraham hlýddi ekki Guði í blindni. Hann hlýddi vegna þess að hann hafði sanna trú. Hann með augum trúarinnar að Jehóva, faðirinn á himnum, biður trúa þjóna sína aldrei um neitt sem er þeim til varanlegs tjóns. Abraham vissi að Jehóva myndi blessa hann og hjartfólginn son hans ef hann hlýddi. Á hverju byggði hann trú sína? Hann byggði hana á þekkingu og reynslu.

5. Hvernig ætli Abraham hafi kynnst Jehóva og hvaða áhrif hafði það á hann?

5 Þekking. Abraham kynntist Jehóva jafnvel þótt skurðgoðadýrkun væri útbreidd í borginni Úr í Kaldeu þar sem hann bjó. Hvernig gerðist það þegar haft er í huga að Tera, faðir hans, var skurðgoðadýrkandi? (Jós. 24:2) Biblían segir það ekki beinlínis. Hins vegar kemur fram að Abraham hafi verið afkomandi Sems í níunda ættlið, en Sem var einn af sonum Nóa og mikill trúmaður. Abraham var um 150 ára þegar Sem dó. Við vitum ekki með vissu hvort það var Sem sem fræddi Abraham um Jehóva. Hins vegar er nokkuð víst að Sem hefur sagt afkomendum sínum frá því sem hann vissi um Jehóva. Og einhvern veginn náði þessi þekking til Abrahams og snerti hjarta hans. Hann fór að elska Guð og þekkingin hjálpaði honum að byggja upp trú.

6, 7. Hvað styrkti trú Abrahams?

6 Reynsla. Hvernig öðlaðist Abraham reynslu sem styrkti trú hans á Jehóva? Sagt hefur verið að hugsanir séu undanfari tilfinninga og tilfinningar undanfari verka. Vitneskja Abrahams um Jehóva vakti með honum djúpstæða lotningu og einlæga virðingu fyrir ,hinum hæsta Guði, skapara himins og jarðar‘. (1. Mós. 14:22) Í Biblíunni er þessi tilfinning kölluð ,guðhræðsla‘ og hún er nauðsynleg til að eignast náið trúnaðar- og vináttusamband við Guð. (Hebr. 5:7, Biblían 1981; Sálm. 25:14) Það var slík guðhræðsla sem var Abraham hvöt til að gera það sem hann gerði.

7 Guð sagði Abraham og Söru að yfirgefa borgina Úr og flytjast til fjarlægs lands. Þau áttu að búa það sem eftir var ævinnar í tjöldum þótt þau væru engin unglömb lengur. Hlýðni Abrahams gaf Jehóva tækifæri til að blessa hann og  vernda. Tökum dæmi: Sara var fögur kona og Abraham óttaðist að hún yrði tekin frá honum og hann drepinn. Ótti hans átti við rök að styðjast en hann missti samt ekki sjónar á því að hann ætti að hlýða Jehóva. Oftar en einu sinni skarst Jehóva í leikinn og vann meira að segja kraftaverk til að vernda þau Abraham og Söru. (1. Mós. 12:10-20; 20:2-7, 10-12, 17, 18) Það sem Abraham upplifði styrkti trú hans.

8. Hvernig getum við öðlast þekkingu og reynslu sem eflir trúna og vináttuna við Jehóva?

8 Getum við orðið nánir vinir Jehóva? Já. Þekkingin og reynslan, sem til þarf, er auðfengin. Abraham hafði ekki nema brot af þeim þekkingarsjóði sem við höfum núna aðgang að í Biblíunni. (Dan. 12:4; Rómv. 11:33) Biblían hefur að geyma ótalmargt sem getur auðgað þekkingu okkar á „skapara himins og jarðar“ svo að við getum virt hann og elskað. Þessar tilfinningar hvetja okkur til að hlýða Guði. Þá öflum við okkur reynslu vegna þess að við sjáum hvaða áhrif það hefur að hlýða honum. Við komumst að raun um að ráð hans vernda okkur og að hann blessar okkur og styrkir. Við uppgötvum að við hljótum frið, gleði og lífsfyllingu með því að þjóna honum af heilum hug. (Sálm. 34:9; Orðskv. 10:22) Með vaxandi þekkingu og reynslu eflum við trúna og vináttuna við Jehóva.

HVERNIG HLÚÐI ABRAHAM AÐ VINÁTTUNNI VIÐ GUÐ?

9, 10. (a) Hvað þarf að gera til að styrkja vináttubönd? (b) Hvernig sjáum við að vináttan við Jehóva var Abraham mjög kær?

9 Vinátta getur verið ákaflega verðmæt. (Lestu Orðskviðina 17:17.) Vinátta er hins vegar ekki eins og dauður hlutur sem við kaupum og safnar svo ryki uppi í hillu. Vinátta líkist frekar fallegu blómi sem þarf að vökva og annast til að það vaxi og dafni. Abraham hlúði að vináttunni við Jehóva af því að hún var honum kær. Hvernig gerði hann það?

10 Abraham hugsaði aldrei sem svo að hann gæti lifað á fornri frægð ef svo má að orði komast, heldur lagði sig fram um að vera hlýðinn og guðhræddur alla ævi. Hann leitaði leiðsagnar Jehóva í smáu sem stóru þegar hann fór til Kanaanslands ásamt fjölmennri fjölskyldu og vinnufólki. Þegar hann var 99 ára sagði Jehóva honum að umskera alla karlmenn á heimilinu. Þetta var ári áður en Ísak fæddist. Maldaði Abraham í móinn eða reyndi að komast hjá því að fylgja fyrirmælum Jehóva? Nei, hann treysti honum og hlýddi „á þeim sama degi“. – 1. Mós. 17:10-14, 23.

11. Hvers vegna hafði Abraham áhyggjur af eyðingu Sódómu og Gómorru og hvernig hjálpaði Jehóva honum?

11 Abraham vandi sig á að hlýða Jehóva, jafnvel í því smáa. Þess vegna var  vinátta þeirra alltaf sterk. Hann var ófeiminn að opna hjarta sitt fyrir Jehóva og bað hann um að hjálpa sér þegar erfiðar spurningar sóttu á hann. Þegar hann komst að raun um að Jehóva ætlaði að eyða borgunum Sódómu og Gómorru hafði hann til dæmis áhyggjur af því að réttlátir myndu farast með ranglátum. Kannski var hann hræddur um Lot, bróðurson sinn, og fjölskyldu hans en þau bjuggu þá í Sódómu. Hann treysti þó Jehóva, ,dómara allrar jarðarinnar‘, og tjáði honum áhyggjur sínar af mikilli auðmýkt. Jehóva sýndi Abraham fram á að hann væri miskunnsamur. Hann benti honum þolinmóður á að hann sæi hvað byggi í hjörtum manna og verndaði réttláta þegar hann fullnægði dómi. – 1. Mós. 18:22-33.

12, 13. (a) Hvernig hjálpaði öll þekking og reynsla Abrahams honum á örlagastund? (b) Hvað sýnir að Abraham treysti Jehóva?

12 Ljóst er að öll þekking og reynsla Abrahams gerði honum kleift að viðhalda nánu vináttusambandi við Jehóva. Þegar erfiðasta prófraun ævinnar varð síðan á vegi hans – þegar Jehóva bað hann að fórna Ísak, syni sínum – vissi hann hvers konar vin hann átti á himnum. Við skulum því grípa aftur niður í frásöguna þar sem þessi trúi þjónn Guðs gengur þungum skrefum upp fjallshlíðina í Móríalandi. Trúði hann að Jehóva væri allt í einu orðinn harður og miskunnarlaus? Nei, það hvarflaði ekki einu sinni að honum. Hvernig vitum við það?

13 Abraham sagði við sveinana sem voru með þeim í för: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ (1. Mós. 22:5) Hvað átti Abraham við? Var hann að ljúga því að þjónum sínum að Ísak kæmi með honum aftur þó að hann vissi að hann myndi fórna honum? Nei. Við fáum innsýn í það í Biblíunni hvað Abraham var að hugsa. (Lestu Hebreabréfið 11:19.) Hann „hugði að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja [Ísak] upp frá dauðum“. Hann trúði á upprisu. Hann vissi að Jehóva hafði gert honum og Söru kleift að eignast son á efri æviárum. (Hebr. 11:11, 12, 18) Hann gerði sér ljóst að Jehóva væri ekkert um megn. Hann treysti því að hvað sem gerðist þennan örlagaríka dag myndi hann endurheimta ástkæran son sinn þannig að öll fyrirheit Jehóva rættust. Það er engin furða að Abraham skuli vera kallaður „faðir allra þeirra sem trúa“.

14. Hvað finnst þér erfitt sem Jehóva biður þig að gera og hvernig getur Abraham verið þér til hvatningar?

14 Hvað um okkur? Jehóva fer auðvitað ekki fram á að við fórnum börnum okkar. Hins vegar biður hann okkur um að hlýða sér jafnvel þó að okkur finnist það erfitt eða við skiljum ekki  ástæðurnar fyrir því. Dettur þér eitthvað í hug sem Guð biður þig um að gera en þú átt ekki auðvelt með? Sumum finnst erfitt að boða trúna. Þeir eru kannski feimnir og treysta sér varla til að tala við ókunnuga til að flytja þeim fagnaðarerindið. Öðrum finnst það heilmikil þrekraun að skera sig úr fjöldanum, ef til vill í skólanum eða á vinnustað. (2. Mós. 23:2; 1. Þess. 2:2) Líður þér stundum eins og Abraham, eins og þú sért að ganga með erfiðismunum upp fjallshlíðina og fram undan sé óviðráðanlegt verkefni? Hugsaðu þá um trú og hugrekki Abrahams. Ef við hugleiðum fordæmi trúfastra þjóna Guðs getur það vakið með okkur löngun til að líkja eftir þeim og styrkja sambandið við Jehóva, vin okkar. – Hebr. 12:1, 2.

VINÁTTA SEM ER TIL BLESSUNAR

15. Hvernig getum við verið viss um að Abraham sá aldrei eftir því að hafa hlýtt Jehóva og verið honum trúr?

15 Heldurðu að Abraham hafi einhvern tíma séð eftir því að hafa hlýtt Jehóva og verið honum trúr? Sjáðu hvernig ævilokum hans er lýst í Biblíunni: „Þá gaf Abraham upp andann. Hann dó í hárri elli, gamall og saddur lífdaga.“ (1. Mós. 25:8) Hann var 175 ára þegar kraftarnir þrutu. En hann gat litið til baka yfir farinn veg og verið ánægður með langa og farsæla ævi. Vináttusambandið við Jehóva Guð hafði alltaf verið honum mikilvægast. En þegar sagt er að Abraham hafi verið „gamall og saddur lífdaga“ skulum við ekki halda að hann hafi verið orðinn leiður á lífinu og ekki langað til að lifa í framtíðinni.

16. Hvaða gleði fær Abraham að upplifa í paradís?

16 Í Biblíunni segir um Abraham: „Hann vænti þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og reisti.“ (Hebr. 11:10) Hann trúði að einn góðan veðurdag myndi hann fá að sjá þessa borg, sem táknar ríki Guðs, fara með völd yfir jörðinni. Og það fær hann! Geturðu ímyndað þér hvernig það verður fyrir Abraham að búa í paradís á jörð og halda áfram að rækta vináttuna við Jehóva? Hugsaðu þér hve snortinn hann verður þegar hann uppgötvar að hann hjálpaði ótal þjónum Jehóva í aldanna rás með trú sinni. Í paradís kemst hann meira að segja að raun um að fórnin á Móríafjalli var tákn um aðra og meiri fórn. (Hebr. 11:19) Hann uppgötvar líka að sársaukinn, sem nísti hjarta hans þegar hann bjó sig undir að fórna Ísak, auðveldaði milljónum trúfastra manna að skynja sársauka Jehóva þegar hann færði son sinn, Jesú Krist, að lausnarfórn. (Jóh. 3:16) Það sem Abraham gerði hefur hjálpað okkur öllum að hafa enn meiri mætur á lausnarfórninni, mesta kærleiksverki í sögu mannkyns.

17. Hvað ætlar þú að gera og um hvað er rætt í næstu grein?

17 Við skulum öll vera ákveðin í að líkja eftir trú Abrahams. Við finnum æ betur hvernig Jehóva blessar okkur og verndar þegar við höldum áfram að kynnast honum og hann sér hlýðni okkar. (Lestu Hebreabréfið 6:10-12.) Megi Jehóva vera vinur okkar að eilífu. Í greininni á eftir lesum við um þrjá trúfasta þjóna Jehóva í viðbót sem urðu nánir vinir hans.

^ [1] (3. grein.) Hann og eiginkona hans hétu upphaflega Abram og Saraí en í þessari grein notum við nöfnin Abraham og Sara sem Jehóva gaf þeim síðar.