Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hinn réttláti gleðst yfir Drottni“

„Hinn réttláti gleðst yfir Drottni“

DIANA er á níræðisaldri. Maðurinn hennar greindist með alzheimers-sjúkdóminn og var nokkur ár á hjúkrunarheimili áður en hann lést. Hún missti einnig syni sína tvo og þurfti auk þess að berjast við brjóstakrabbamein. En þegar trúsystkini Diönu sjá hana á samkomu eða í boðuninni er hún alltaf glöð.

John var farandhirðir í rúmlega 43 ár. Hann hafði mikla ánægju af starfi sínu og gat ekki óskað sér neins betra. Hann þurfti hins vegar að hætta í farandstarfinu til að annast veikan ættingja. Þegar bræður og systur hitta John á mótum finnst þeim hann ekki hafa breyst neitt. Hann ljómar enn af gleði.

Hvernig geta Diana og John verið glöð? Hvernig getur sá sem þjáist á líkama eða sál verið glaður? Og hvernig er hægt að halda í gleðina þegar maður missir þjónustuverkefni sem er manni kært? Biblían gefur okkur innsýn í það en hún segir: „Hinn réttláti gleðst yfir Drottni.“ (Sálm. 64:11) Við getum skilið það betur ef við áttum okkur á því hvað veitir varanlega gleði og hvað ekki.

STUNDLEG GLEÐI

Þú ert eflaust sammála því að sumt í lífinu veiti nánast alltaf gleði. Hugsaðu þér til dæmis ástfangið par sem er að giftast. Eða einhvern sem er að eignast sitt fyrsta barn eða fá verkefni innan safnaðarins. Slíkt veitir réttilega gleði því að það kemur frá Jehóva. Hann er höfundur hjónabandsins, gerði mönnum kleift að fjölga sér og felur okkur verkefni fyrir milligöngu safnaðarins. – 1. Mós. 2:18, 22; Sálm. 127:3; 1. Tím. 3:1.

Því miður endist gleðin þó ekki alltaf. Maki getur orðið ótrúr eða hann dáið. (Esek. 24:18; Hós. 3:1) Sum börn óhlýðnast foreldrum sínum og Jehóva, og þeim er jafnvel vikið úr söfnuðinum. Synir Samúels voru Jehóva ótrúir og ákvarðanir Davíðs höfðu skelfilegar afleiðingar, bæði fyrir hann og fjölskyldu hans. (1. Sam. 8:1-3; 2. Sam. 12:11) Erfiðleikar sem þessir veita enga gleði  heldur hafa þeir aðeins sorg og þjáningar í för með sér.

Þjónustuverkefni í söfnuðinum geta einnig tekið enda, ef til vill vegna heilsubrests, fjölskylduábyrgðar eða breytinga innan safnaðarins. Margir sem hafa þurft að takast á við slíkar breytingar segjast sakna ánægjunnar sem verkefnið veitti þeim.

Það er því ljóst að þess konar gleði er ekki alltaf varanleg. En er til gleði sem varir, jafnvel þótt áföll dynji yfir? Það hlýtur að vera því að Samúel, Davíð og fleiri misstu ekki gleðina að öllu leyti þrátt fyrir erfiðleika.

VARANLEG GLEÐI

Jesús vissi hvað sönn gleði er. Áður en hann kom til jarðar var hann við góðar aðstæður á himni og hafði ánægju af að vinna við hlið Jehóva, föður síns, öllum stundum. (Orðskv. 8:30) Þegar hann var hér á jörð þurfti hann þó að þola mikla erfiðleika. En hann hafði samt yndi af því að gera vilja föður síns. (Jóh. 4:34) Síðustu stundir hans hér á jörð voru afar kvalafullar. Hélt hann gleði sinni þá? Við lesum: „Hann leið með þolinmæði ... af því að hann vissi hvaða gleði beið hans.“ (Hebr. 12:2) Við getum því lært margt af því sem Jesús sagði um sanna gleði. Lítum á tvennt.

Eitt sinn sendi Jesús út 70 lærisveina til að boða trúna. Þegar þeir sneru aftur voru þeir glaðir yfir því að hafa gert máttarverk, meira að segja rekið út illa anda. Þá sagði Jesús við þá: „Gleðjist ... ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“ (Lúk. 10:1-9, 17, 20) Já, velþóknun Jehóva skipti mun meira máli en nokkurt þjónustuverkefni. Hann myndi minnast þessara trúföstu lærisveina – það var tilefni til sannrar gleði.

Við annað tækifæri ávarpaði Jesús stóran hóp fólks. Kona nokkur af gyðingaættum lét þá í ljós að móðir Jesú hlyti að vera yfir sig ánægð með þennan framúrskarandi kennara. En Jesús leiðrétti hana og sagði: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita  það.“ (Lúk. 11:27, 28) Það veitir vissulega mikla gleði að vera stoltur af börnunum sínum. Við höfum þó enn ríkari ástæðu til að gleðjast – við hlýðum Jehóva og eignumst þannig gott samband við hann.

Það veitir djúpstæða gleði að vita að við höfum velþóknun Jehóva. Jafnvel erfiðleikar ræna okkur ekki þeirri gleði þó að þeir séu ekki ánægjulegir í sjálfu sér. Það veitir okkur reyndar enn meiri gleði að vera trúföst í prófraunum. (Rómv. 5:3-5) Auk þess gefur Jehóva þeim heilagan anda sem treysta honum, og gleði er hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22) Það hjálpar okkur að skilja Sálm 64:11: „Hinn réttláti gleðst yfir Drottni.“

Hvað hjálpaði John að varðveita gleði?

Þetta leiðir í ljós hvers vegna Diana og John, sem minnst var á í byrjun greinar, gátu varðveitt gleðina í erfiðum aðstæðum. Diana segir: „Ég hef notið verndar hjá Jehóva eins og barn hjá foreldri.“ Hvernig veit hún að hún hefur velþóknun Guðs? „Mér finnst hann hafa hjálpað mér að halda ötul áfram í boðuninni með bros á vör.“ John var áfram duglegur að boða trúna eftir að hann hætti í farandstarfinu. Hann segir: „Ég byrjaði að kenna í Þjónustuþjálfunarskólanum árið 1998 og síðan þá hef ég notað meiri tíma í sjálfsnám en nokkru sinni fyrr. Við hjónin höfum alltaf reynt að þjóna Jehóva í eins ríkum mæli og við getum. Það hugarfar hefur auðveldað okkur að takast á við breytingar. Við sjáum ekki eftir neinu.“

Fjöldi annarra hefur fundið fyrir sannleiksgildi orðanna í Sálmi 64:11. Tökum sem dæmi hjón sem voru á Betel í Bandaríkjunum í meira en 30 ár en var síðan falið að vera sérbrautryðjendur. Þau segja: „Það er eðlilegt að verða sorgmæddur þegar maður missir eitthvað sem manni þykir vænt um.“ En þau bæta við: „Maður getur ekki syrgt endalaust.“ Þau byrjuðu að starfa með söfnuðinum um leið og þau gátu. Þau segja líka: „Við báðum markvissra bæna og það var mjög hvetjandi og ánægjulegt að sjá hvernig þeim var svarað. Stuttu eftir að við komum gerðust fleiri í söfnuðinum brautryðjendur og við urðum þeirrar gleði aðnjótandi að tveir biblíunemendur okkar tóku góðum framförum í trúnni.“

„FAGNIÐ ÆVINLEGA“

Það verður að viðurkennast að það er ekki alltaf auðvelt að vera glaður og stundum líður okkur illa eða við verðum leið. En innblásin orð Jehóva í Sálmi 64:11 veita okkur huggun. Jafnvel þegar við erum niðurdregin getum við ,glaðst yfir Drottni‘ ef við sýnum trúfesti og reynumst ,réttlát‘. Við getum líka hlakkað til þess tíma þegar loforð Jehóva um „nýjan himin og nýja jörð“ rætist. Þá mun ófullkomleikinn hverfa að fullu. Allir þjónar Guðs munu ,gleðjast og fagna ævinlega‘ yfir öllu sem hann skapar. – Jes. 65:17, 18.

Hugsaðu þér hvað það felur í sér. Við verðum við fullkomna heilsu og vöknum hress á hverjum degi. Slæmar minningar munu ekki lengur trufla okkur, sama hvaða erfiðleika við höfum gengið í gegnum. Jehóva fullvissar okkur um að ,hins fyrra verði ekki minnst framar og það skuli engum í hug koma‘. Við munum taka á móti látnum ástvinum okkar í upprisunni. Milljónir manna munu gleðjast eins og foreldrar 12 ára stúlku sem Jesús reisti upp. Menn verða „frá sér numdir af undrun“. (Mark. 5:42) Að lokum verða allir á jörðinni ,réttlátir‘ í orðsins fyllstu merkingu og ,gleðjast yfir Drottni‘ um alla eilífð.