Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Manstu?

Manstu?

Hefurðu lesið nýjustu tölublöð Varðturnsins vandlega? Reyndu þá að svara eftirfarandi spurningum:

Hvers konar synd átti Jesús við í leiðbeiningunum sem hann gaf í Matteusi 18:15-17?

Hann átti við mál sem hlutaðeigandi einstaklingar geta útkljáð einslega. En syndin er samt nógu alvarleg til að það mætti víkja manni úr söfnuðinum ef ekki tekst að ná sáttum. Syndin gæti til dæmis falist í rógburði eða svikum. – w16.05, bls. 7.

Hvað geturðu gert til að hafa meira gagn af biblíulestri?

Þú getur gert eftirfarandi: Lestu með opnum huga og vertu vakandi fyrir því sem þú getur nýtt þér. Spyrðu þig spurninga eins og: Hvernig get ég notað þetta til að hjálpa öðrum? Notaðu líka tiltæk hjálpargögn til að glöggva þig betur á efninu. – w16.05, bls. 24-26.

Er rangt af kristnum mönnum að syrgja fyrst þeir trúa á upprisu?

Sorg eftir ástvinamissi getur rist djúpt í hjarta kristins manns og trúin á upprisu afmáir hana ekki. Abraham syrgði Söru þegar hún dó. (1. Mós. 23:2) Með tímanum mildast þó sorgin. – wp16.3, bls. 4.

Hverja tákna maðurinn með skriffærin og mennirnir sex með sleggjurnar sem minnst er á í 9. kafla Esekíels?

Við skiljum það svo að þeir tákni himneskar sveitir sem áttu þátt í að eyða Jerúsalem og munu einnig eiga þátt í eyðingunni í Harmagedón. Maðurinn með skriffærin táknar Jesú Krist en hann merkir þá sem eiga að komast lífs af. – w16.06, bls. 16-17.

Hvað hefur ógnað varðveislu Biblíunnar?

Hún hefur varðveist þrátt fyrir (1) skamman endingartíma efniviðarins sem hún var skrifuð á, svo sem papíruss og bókfells, (2) andstöðu stjórnmálamanna og trúarleiðtoga sem reyndu að eyða henni og (3) tilraunir sumra til að breyta boðskapnum. – wp16.4, bls. 4-7.

Hvernig geta þjónar Guðs einfaldað lífið?

Gerðu þér grein fyrir raunverulegum þörfum þínum og haltu óþörfum útgjöldum í lágmarki. Gerðu raunhæfa fjárhagsáætlun. Losaðu þig við hluti sem þú notar ekki og borgaðu niður skuldir. Minnkaðu við þig vinnuna og gerðu áætlun um hvernig þú getur aukið þjónustuna við Jehóva. – w16.07, bls. 10.

Hvað segir Biblían að sé verðmætara en gull og silfur?

Í Jobsbók 28:12, 15 kemur fram að viskan frá Guði sé betri en gull og silfur. Í leitinni að slíkri visku skaltu einsetja þér að vera auðmjúkur og viðhalda sterkri trú. – w16.08, bls. 18-19.

Er viðeigandi að bræður séu með skegg?

Í sumum menningarsamfélögum er talið boðlegt að vera með snyrtilegt skegg og það dregur ekki athyglina frá boðskapnum. Sumir af bræðrunum kjósa samt ef til vill að vera skegglausir. (1. Kor. 8:9) Í ýmsum menningarsamfélögum er skegg þó ekki talið viðeigandi fyrir þjóna Jehóva. – w16.09, bls. 21.

Af hverju getum við treyst að frásögn Biblíunnar af Davíð og Golíat sé sönn?

Samkvæmt Biblíunni á Golíat aðeins að hafa verið um 20 sentímetrum hærri en hæsti maður sem um getur á okkar tímum. Á fornri áletrun er minnst á ætt Davíðs, en það, ásamt orðum Jesú, staðfestir að hann hafi verið raunveruleg persóna. Landfræðilegar lýsingar Biblíunnar í þessari frásögn koma heim og saman við þekktar staðreyndir. – wp16.5, bls. 13.

Hver er munurinn á þekkingu, skilningi og visku?

Sá sem býr yfir þekkingu hefur viðað að sér upplýsingum og staðreyndum. Sá sem býr yfir skilningi áttar sig á hvernig staðreyndir tengjast innbyrðis. En sá sem býr yfir visku er fær um að beita þekkingu sinni og skilningi til góðs. – w16.10, bls. 18.