Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað hverfur þegar ríki Guðs kemur?

Hvað hverfur þegar ríki Guðs kemur?

„Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ – 1. JÓH. 2:17.

SÖNGVAR: 134, 24

1, 2. (a) Að hvaða leyti má líkja núverandi heimsskipan við dauðadæmdan glæpamann? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hver verða viðbrögðin þegar þessum illa heimi verður eytt?

„DAUÐUR MAÐUR Á FERÐ!“ er kallað um leið og hættulegur glæpamaður er leiddur út úr fangaklefanum og járnhurðin skellur á eftir honum. Hvers vegna kalla fangaverðirnir þetta? Maðurinn virðist frekar hraustur og ekki er að sjá að neinn sjúkdómur sé í þann mund að draga hann til dauða. En verðirnir eru að leiða hann á aftökustað. Þessi dæmdi glæpamaður er svo gott sem dauður. *

2 Núverandi heimsskipan er að vissu leyti eins og fangi á dauðadeild. Þessi illi heimur er löngu dæmdur og stutt þangað til dóminum verður fullnægt. „Heimurinn fyrirferst,“ segir í Biblíunni. (1. Jóh. 2:17) Á því leikur enginn vafi. Það er þó munur á endalokum þessa heims og aftöku fangans. Sumir gætu mótmælt aftöku fangans, véfengt réttmæti dómsins eða jafnvel vonast til að aftökunni yrði frestað á síðustu stundu. Um heiminn gildir öðru máli.  Það var Drottinn alheims sem felldi dóm yfir honum og dómurinn er fullkomlega réttlátur. (5. Mós. 32:4) Dóminum verður ekki frestað og enginn á eftir að efast um réttmæti hans. Eftir að honum er fullnægt eiga allar hugsandi verur í alheimi eftir að vera hjartanlega sammála um að réttlætinu hafi verið fullnægt. Léttirinn verður ólýsanlegur!

3. Hvað fernt hverfur þegar ríki Guðs kemur?

3 En hver er „heimurinn“ sem á að ,fyrirfarast‘? Stór hluti þess sem fólk almennt telur eðlilegan hluta tilverunnar hverfur. Eru það slæm tíðindi? Þvert á móti. Það er reyndar mikilvægur þáttur í ,fagnaðarerindinu um ríkið‘. (Matt. 24:14) Við skulum nú ræða um það sem hverfur þegar ríki Guðs kemur. Við lítum á fernt: vonda menn, spilltar stofnanir, vond og siðlaus verk og þjakandi aðstæður. Við skoðum í hverju tilfelli (1) hvaða áhrif þessir þættir tilverunnar hafa á okkur núna, (2) hvað Jehóva ætlar að gera í málinu og (3) það góða sem kemur í staðinn.

VONDIR MENN

4. Hvaða áhrif hafa vondir menn á okkur núna?

4 Hvaða áhrif hafa vondir menn á okkur núna? Páli postula var innblásið að skrifa: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.“ Síðan sagði hann: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (2. Tím. 3:1-5, 13) Hefurðu séð þessi spádómlegu orð rætast? Mörg okkar hafa orðið fyrir barðinu á ofbeldismönnum, kynþáttahöturum og glæpamönnum. Sumir þeirra fara ekki einu sinni leynt með mannvonsku sína en aðrir sigla undir fölsku flaggi og þykjast vera réttlátir. Og þessir vondu menn hafa sín áhrif á okkur þó að við verðum ekki sjálf fyrir barðinu á þeim. Við verðum hreinlega döpur þegar við fréttum af vonskuverkum þeirra, hvernig þeir níðast á börnum, öldruðum og öðrum sem geta ekki borið hönd yfir höfuð sér. Hegðun þeirra virðist ómannleg, dýrsleg og jafnvel djöfulleg. (Jak. 3:15) Til allrar hamingju veitir orð Jehóva okkur von.

5. (a) Hvaða tækifæri hafa vondir menn enn þá? (b) Hvað verður um vonda menn sem vilja ekki breyta sér?

5 Hvað ætlar Jehóva að gera? Jehóva gefur vondum mönnum tækifæri núna til að breyta sér. (Jes. 55:7) Sem einstaklingar hafa þeir ekki fengið endanlegan dóm. Það er heimsskipanin sem er dæmd. En hvað um þá sem vilja ekki breyta sér, sem halda áfram að styðja þessa heimsskipan allt fram að þrengingunni miklu? Jehóva hefur lofað að losa jörðina við vonda menn í eitt skipti fyrir öll. (Lestu Sálm 37:10.) Þeir halda kannski að þeir geti umflúið þennan dóm. Margir hafa lært að fara leynt með það sem þeir gera og í þessum heimi virðast þeir oft komast undan réttvísinni og afleiðingum gerða sinna. (Job. 21:7, 9) Í Biblíunni segir hins vegar: „Augu Guðs hvíla á vegferð mannsins, hann horfir á hvert hans spor, ekkert það myrkur er til eða niðdimma þar sem illvirkinn geti falist.“ (Job. 34:21, 22) Enginn getur falið sig fyrir Jehóva Guði. Enginn getur villt um fyrir honum og ekkert myrkur er svo svart að hann sjái ekki í gegnum það. Eftir Harmagedón getum við litið í kringum okkur án þess að sjá nokkurn illan eða óguðlegan mann. Þeir eru horfnir – að eilífu! – Sálm. 37:12-15.

6. Hverjir verða eftir þegar vondir menn hverfa og hvers vegna eru það gleðitíðindi?

 6 Hverjir verða eftir þegar vondir menn hverfa? Jehóva gefur þetta hlýlega loforð: „Hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ Síðar í sama sálmi segir: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ (Sálm. 37:11, 29) Hverjir eru „hinir hógværu“ og ,réttlátu‘? Hinir hógværu eru þeir sem þiggja kennslu og handleiðslu Jehóva. Hinir réttlátu eru þeir sem hafa yndi af að gera rétt í augum Jehóva Guðs. Í núverandi heimi eru margfalt fleiri vondir menn en réttlátir. Í nýja heiminum verða hógværir og réttlátir hvorki í minnihluta né meirihluta heldur verða þeir eina fólkið á jörð. Með þess konar íbúum verður jörðin hrein paradís.

SPILLTAR STOFNANIR

7. Hvaða áhrif hafa spilltar stofnanir á okkur núna?

7 Hvaða áhrif hafa spilltar stofnanir á okkur núna? Margt af því illa, sem á sér stað í heiminum, er ekki einstaklingum að kenna heldur stofnunum. Hugsaðu þér til dæmis trúarstofnanirnar sem blekkja milljónir manna. Þær draga upp ranga mynd af Guði, halda því fram að Biblíunni sé ekki treystandi og segja ósatt um framtíð jarðar og mannkyns, og er þá fátt eitt nefnt. Eða hvað um ríkisstjórnir sem kynda undir stríði og ofbeldi gegn öðrum þjóðarbrotum, kúga fátæka og varnarlausa og þrífast á mútum og mismunun? Hvað um gráðug fyrirtæki sem menga umhverfið, þurrausa náttúruauðlindir og notfæra sér trúgirni neytenda til að fáeinir geti auðgast á kostnað fátækra? Spilltar stofnanir bera augljóslega mikla ábyrgð á þeirri eymd sem ríkir í heiminum.

8. Hvað segir Biblían að verði um stofnanir sem margir álíta traustar og varanlegar?

8 Hvað ætlar Jehóva að gera? Þrengingin mikla hefst með því að stjórnmálaöflin ráðast gegn öllum falstrúarstofnunum en í Biblíunni er þeim líkt við vændiskonu sem er kölluð Babýlon hin mikla. (Opinb. 17:1, 2, 16; 18:1-4) Þessum trúarstofnunum verður gereytt. En hvað um allar aðrar spilltar stofnanir? Mönnum finnst þær svo traustar og varanlegar að í Biblíunni er þeim líkt við eyjar og fjöll. (Lestu Opinberunarbókina 6:14.) Í framhaldinu kemur fram að allar ríkisstjórnir og stofnanir tengdar þeim líði undir lok. Þrengingin mikla nær hámarki þegar öllum ríkisstjórnum þessa gamla heims verður útrýmt ásamt öllum sem standa með þeim gegn ríki Guðs. (Jer. 25:31-33) Eftir það verða alls engar spilltar stofnanir til.

9. Hvers vegna getum við treyst að það ríki gott skipulag á nýju jörðinni?

9 Hvað kemur í staðinn fyrir spilltar stofnanir? Verða einhverjar stofnanir á jörð eftir Harmagedón? Í Biblíunni segir: „Eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.“ (2. Pét. 3:13) Gamli himinninn og gamla jörðin tákna spilltar ríkisstjórnir og mannlegt samfélag sem þær ríkja yfir. Hvort tveggja hverfur. Hvað kemur í staðinn? Með ,nýjum himni og nýrri jörð‘ er átt við nýja stjórn sem ríkir yfir nýju samfélagi manna. Ríki Jehóva Guðs í höndum Jesú Krists mun endurspegla fullkomlega eiginleika Guðs en hann hefur góða reglu á öllu. (1. Kor. 14:33) Allt verður vel  skipulagt á ,nýju jörðinni‘. Umsjónin verður í höndum góðra manna. (Sálm. 45:17) Þeir starfa undir stjórn Krists og 144.000 meðstjórnenda hans. Hugsaðu þér þann tíma þegar allar spilltar stofnanir verða horfnar af sjónarsviðinu og ein samheldin stjórn tekin við völdum – stjórn sem verður aldrei spillingu að bráð.

VOND OG SIÐLAUS VERK

10. Hvaða vondu og siðlausu verk eru algeng þar sem þú býrð og hvaða áhrif hafa þau á þig og þína?

10 Hvernig hafa vond og siðlaus verk áhrif á okkur núna? Við búum í heimi sem er fullur af vondum verkum. Siðleysi, óheiðarleiki og gróft ofbeldi virðist gegnsýra núverandi heimsskipan og foreldrar eiga oft erfitt með að vernda börnin gegn slíkum áhrifum. Skemmtanaiðnaðurinn virðist verða æ leiknari í að slá töfraljóma á alls konar siðspillingu og skopast að lögum Jehóva um rétt og rangt. (Jes. 5:20) Sannkristnir menn berjast gegn þessum áhrifum. Þeir þurfa að leggja sig alla fram til að vera Jehóva trúir í heimi sem gerir lítið úr lögum hans.

11. Hvað lærum við af dómi Jehóva yfir Sódómu og Gómorru?

11 Hvað ætlar Jehóva að gera í málinu? Lítum á hvernig hann tók á siðspillingunni sem var útbreidd í Sódómu og Gómorru. (Lestu 2. Pétursbréf 2:6-8.) Lot var réttlátur maður og það var kvalræði fyrir hann og fjölskyldu hans að horfa upp á siðspillinguna sem var allt í kringum þau. Þegar Jehóva gereyddi allt svæðið var hann ekki bara að binda enda á spillinguna þar. Hann gerði þetta einnig „til viðvörunar þeim er síðar lifðu óguðlega“. Jehóva bindur líka enda á siðspillingu nútímans þegar hann fullnægir dómi sínum yfir núverandi heimsskipan, rétt eins og hann batt enda á öll siðlaus verk manna forðum daga.

12. Hvað hlakkarðu til að gera eftir að þessi gamla heimsskipan er liðin undir lok?

12 Hvað kemur í staðinn fyrir vond og siðlaus verk? Í paradís á jörð verða allir önnum kafnir við góð verk. Hugsaðu þér hve spennandi það verður að breyta jörðinni í paradís eða að byggja hús handa sjálfum okkur og ástvinum okkar. Hugsaðu þér hvernig það verður að taka á móti milljónum manna sem rísa upp frá dauðum og fræða þá um Jehóva og allt sem hann hefur gert fyrir mennina. (Jes. 65:21, 22; Post. 24:15) Við verðum öll ötul til góðra verka sem stuðla að gleði okkar og verða Jehóva til lofs.

ÞJAKANDI AÐSTÆÐUR

13. Hvaða þjakandi aðstæður hafa skapast á jörð vegna uppreisnar Satans, Adams og Evu?

13 Hvaða þjakandi aðstæður blasa við okkur núna? Vondir menn, spilltar stofnanir og vond og siðlaus verk stuðla í sameiningu að ömurlegum lífsskilyrðum hér á jörð. Allir finna með einhverjum hætti fyrir afleiðingum stríðsátaka, fátæktar og kynþáttafordóma. Sjúkdómar og dauði snerta alla menn. Og allt er þetta bein afleiðing af uppreisn þriggja óguðlegra einstaklinga gegn Jehóva – þeirra Satans, Adams og Evu. Ekkert okkar getur nú sem stendur umflúið skaðann sem þessi uppreisn olli.

14. Hvað ætlar Jehóva að gera til að útrýma þjakandi aðstæðum? Nefndu dæmi.

14 Hvað ætlar Jehóva að gera í málinu? Tökum stríðsátök sem dæmi. Jehóva  lofar að binda enda á þau í eitt skipti fyrir öll. (Lestu Sálm 46:9, 10.) Hvað um sjúkdóma? Hann útrýmir þeim. (Jes. 33:24) En hvað verður um dauðann? Jehóva afmáir hann að eilífu. (Jes. 25:8) Hann upprætir fátækt. (Sálm. 72:12-16) Eins fer fyrir öllum þeim aðstæðum sem gera lífið ömurlegt nú á dögum. Jehóva gerir meira að segja að engu skaðleg áhrif Satans og illu andanna sem gegnsýra allt nú á tímum. – Ef. 2:2.

Ímyndaðu þér heiminn án stríðsátaka, sjúkdóma og dauða. (Sjá 15. grein.)

15. Hvað hverfur fyrir fullt og allt eftir Harmagedón?

15 Geturðu ímyndað þér heiminn án stríðsátaka, sjúkdóma og dauða? Hugsaðu þér – hvorki landher, sjóher né lofther. Engin vopn og engin minnismerki um fallna hermenn. Engin sjúkrahús, engir læknar, hjúkrunarfræðingar né sjúkratryggingar, engin líkhús, útfararstofur eða kirkjugarðar. Og þar sem glæpir verða liðin tíð verður engin þörf fyrir öryggisgæslu, þjófavarnarkerfi né lögreglu og kannski ekki heldur fyrir lása og lykla. Hvílíkur léttir að losna við áhyggjurnar af öllu þessu.

16, 17. (a) Hvernig á fólki eftir að líða eftir Harmagedón? Lýstu með dæmi. (b) Hvað getum við gert til að lifa áfram þegar gamli heimurinn er horfinn?

16 Hvernig verður tilveran þegar þetta ömurlega ástand er úr sögunni? Það er ekki auðvelt að gera sér það í hugarlund. Við höfum búið svo lengi í þessum illa heimi að við áttum okkur kannski ekki á öllu álaginu sem fylgir svona ástandi. Það er ekki ósvipað og að búa nálægt fjölfarinni lestarstöð. Líklega hættir maður fljótlega að taka eftir hávaðanum. Og þeir sem búa rétt hjá sorphaugi hætta sennilega að taka eftir lyktinni. En hugsaðu þér hvílíkur léttir það verður að losna undan öllu álaginu.

17 Hvað kemur í staðinn fyrir álagið sem við finnum fyrir núna? Svarið er að finna í Sálmi 37:11. Þar segir að fólk ,njóti unaðsemdar af þeim mikla friði‘. (Biblían 1859) Hlýnar þér ekki um hjartarætur að lesa þessi orð? Það eru þessi skilyrði sem Jehóva vill að þú búir við. Leggðu þig því allan fram um að varðveita náið samband við Jehóva Guð og söfnuð hans á síðustu dögum þessa illa heims. Varðveittu vonina, hugsaðu oft um hana, haltu henni lifandi í huga þér og hjarta – og vertu iðinn að segja öðrum frá henni. (1. Tím. 4:15, 16; 1. Pét. 3:15) Þá geturðu verið öruggur um að þú farist ekki með þessum dauðadæmda heimi heldur lifir og njótir lífsins – að eilífu.

^ gr. 1 Hér er lýst venju sem tíðkaðist sums staðar í bandarískum fangelsum á árum áður.