„Hann er bjargið, verk hans fullkomin og allir hans vegir réttlátir.“ – 5. MÓS. 32:4.

SÖNGVAR: 112, 89

1. Hvernig lét Abraham í ljós að hann treysti réttlætiskennd Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

„MUN dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“ (1. Mós. 18:25) Með þessari spurningu lét Abraham í ljós að hann treysti því að Jehóva myndi fella fullkominn dóm yfir Sódómu og Gómorru. Abraham var þess fullviss að Jehóva myndi aldrei reynast óréttlátur með því að „deyða hinn réttláta með hinum guðlausa“. Slíkt var óhugsandi fyrir Abraham. Um 400 árum síðar sagði Jehóva um sjálfan sig: „Hann er bjargið, verk hans fullkomin og allir hans vegir réttlátir. Hann er trúfastur Guð og svikalaus, réttlátur og hreinlyndur.“ – 5. Mós. 31:19; 32:4.

2. Hvers vegna má segja að Jehóva geti ekki verið óréttlátur?

2 Hvers vegna gat Abraham treyst því að dómar Jehóva séu alltaf réttlátir? Vegna þess að Jehóva er ímynd réttlætisins og gerir alltaf rétt. Hebresku orðin, sem víðast hvar eru þýdd „réttlæti“ og „réttur“, standa oft saman í Hebresku ritningunum. Í grundvallaratriðum er enginn munur á því sem er rétt og réttlátt. Það er því rökrétt að þar sem Jehóva er hinn fullkomni mælikvarði á réttlæti meti hann hluti alltaf  rétt. Í orði hans kemur fram að ,hann hafi mætur á réttlæti og rétti‘. – Sálm. 33:5.

3. Nefndu dæmi um óréttlæti í heimi nútímans.

3 Heimurinn er gegnsýrður af óréttlæti og því er hughreystandi fyrir hjartahreint fólk að vita til þess að Jehóva er alltaf réttlátur. Stundum hafa menn verið beittir gífurlegu óréttlæti. Fólk hefur til dæmis verið ranglega sakfellt og fangelsað. Það var ekki fyrr en DNA-rannsóknir komu til skjalanna að mál sumra þeirra voru tekin upp aftur og þeir látnir lausir eftir að hafa setið í fangelsi áratugum saman fyrir glæp sem þeir höfðu ekki framið. Óréttlátir fangelsisdómar vekja vissulega reiði, en þjónum Guðs getur reynst annars konar óréttlæti enn þungbærara.

Í SÖFNUÐINUM

4. Hvað getur reynt á trú okkar?

4 Þjónar Guðs mega búast við því að verða fyrir einhverju óréttlæti af hálfu fólks utan kristna safnaðarins. En það getur reynt á trú okkar ef við tökum eftir einhverju sem okkur finnst óréttlátt innan safnaðarins eða verðum sjálf fyrir því. Hvernig bregstu við ef þér finnst þú hafa orðið fyrir óréttlæti í söfnuðinum eða samskiptum þínum við trúsystkini? Leyfirðu því að verða þér til hrösunar?

5. Af hverju ætti það ekki að koma á óvart ef þjónn Guðs verður var við óréttlæti í söfnuðinum eða verður fyrir því?

5 Við erum öll ófullkomin og okkur hættir til að syndga. Við gerum okkur því grein fyrir að sá möguleiki er fyrir hendi að við verðum annaðhvort sjálf fyrir óréttlæti eða beitum einhvern annan í söfnuðinum óréttlæti. (1. Jóh. 1:8) Slíkt óréttlæti er sjaldgæft en þegar það kemur upp ætti það ekki að koma trúföstum þjónum Guðs á óvart eða verða þeim til hrösunar. Það er ekki að ástæðulausu að Jehóva hefur gefið okkur hagnýt ráð í orði sínu til að hjálpa okkur að vera trúföst jafnvel þótt við verðum fyrir óréttlæti af hálfu trúsystkina. – Sálm. 55:13-15.

6, 7. Hvaða óréttlæti varð bróðir nokkur fyrir í söfnuðinum og hvað hjálpaði honum að taka rétt á málinu?

6 Tökum Willi Diehl sem dæmi. Frá árinu 1931 þjónaði hann trúfastlega á Betel í Bern í Sviss. Hann sótti Gíleaðskólann í New York í Bandaríkjunum með áttunda nemendahópi skólans árið 1946. Nokkru eftir að hann útskrifaðist var hann útnefndur farandhirðir í Sviss. Bróðir Diehl segir svo frá í ævisögu sinni: „Í maí árið 1949 upplýsti ég deildarskrifstofuna í Bern um að ég hefði í hyggju að kvænast.“ Hvaða svar fékk hann frá þeim? „Þú færð engin þjónustuverkefni önnur en að vera brautryðjandi.“ Bróðir Diehl útskýrði síðan: „Ég fékk ekki að flytja ræður ... Margir hættu að heilsa okkur og komu fram við okkur eins og okkur hefði verið vikið úr söfnuðinum.“

7 Hvernig brást bróðir Diehl við þessum aðstæðum? Hann sagði: „Við vissum þó að það væri ekki óbiblíulegt að giftast, þannig að við leituðum hælis hjá Jehóva í bæn og settum traust okkar á hann.“ Sú ranga sýn á hjónabandið, sem olli óréttlætinu, var að lokum leiðrétt og bróðir Diehl fékk þjónustuverkefni sín aftur. Honum var launuð hollustan við Jehóva. * Við ættum að spyrja  okkur: Hefði ég þetta sama hugarfar ef ég yrði beittur slíku óréttlæti? Myndi ég bíða þolinmóður eftir Jehóva eða hætti mér til að taka málin í eigin hendur? – Orðskv. 11:2; lestu Míka 7:7.

8. Hvers vegna gæti okkur skjátlast þegar við ályktum að við eða einhver annar hafi verið órétti beittur?

8 Þó að við ályktum að við eða einhver í söfnuðinum hafi verið órétti beittur gæti okkur skjátlast. Við gætum hafa misskilið eitthvað eða kannski þekkjum við ekki allar staðreyndir. En ef við erum Jehóva trúföst, treystum á hann og biðjum hann að hjálpa okkur kemur það í veg fyrir að við ,kennum honum um‘, hvort sem við höfum á réttu að standa eða ekki. – Lestu Orðskviðina 19:3.

9. Hvaða dæmi skoðum við í þessari grein og þeirri næstu?

9 Lítum á þrjú dæmi um óréttlæti sem átti sér stað meðal þjóna Jehóva á biblíutímanum. Í þessari grein ræðum við um Jósef, sonarsonarson Abrahams, og það sem hann varð fyrir af hálfu bræðra sinna. Í þeirri næstu skoðum við hvernig Jehóva tók á málum Akabs Ísraelskonungs og það sem gerðist hjá Pétri þegar hann var í Antíokkíu í Sýrlandi. Þegar við skoðum þessi dæmi skaltu reyna að koma auga á lærdóma sem hjálpa þér að halda einbeitingunni í trúnni og varðveita sambandið við Jehóva, sérstaklega þegar þér finnst þú hafa verið órétti beittur.

JÓSEF – FÓRNARLAMB ÓRÉTTLÆTIS

10, 11. (a) Hvaða óréttlæti varð Jósef fyrir? (b) Hvaða tækifæri fékk Jósef þegar hann var í fangelsi?

10 Jósef, dyggur þjónn Jehóva, var beittur óréttlæti af hendi ókunnugra. En það sem olli honum meiri sársauka var óréttlætið sem hann varð fyrir af hendi bræðra sinna. Jósef var enn unglingur þegar bræður hans rændu honum og seldu í hann þrælkun. Hann var síðan fluttur til Egyptalands gegn vilja sínum. (1. Mós. 37:23-28; 42:21) Eftir nokkurn tíma í þessu ókunna landi var hann ranglega sakaður um tilraun til nauðgunar og honum varpað í fangelsi án dóms og laga. (1. Mós. 39:17-20) Raunir hans sem þræll og fangi stóðu yfir í um 13 ár. Hvað getum við lært af Jósef sem hjálpar okkur ef við verðum fyrir óréttlæti af hendi trúsystkinis?

11 Jósef fékk tækifæri til að segja meðfanga sínum frá stöðunni sem hann var í. Sá var fyrrverandi byrlari konungs. Á meðan Jósef og byrlarinn voru saman í fangelsinu dreymdi byrlarann draum. Jósef var innblásið að ráða drauminn og útskýrði fyrir byrlaranum að hann myndi endurheimta stöðu sína við hirð faraós. Jósef notaði líka tækifærið til að útskýra hvernig komið var fyrir honum sjálfum. Við getum dregið verðmætan lærdóm af því sem Jósef sagði, en líka af því sem hann sagði ekki. – 1. Mós. 40:5-13.

12, 13. (a) Hvernig sjáum við af orðum Jósefs við byrlarann að hann sætti sig ekki einfaldlega við óréttlætið? (b) Hvað nefndi Jósef ekki við byrlarann að því er virðist?

12 Lestu 1. Mósebók 40:14, 15Taktu eftir að Jósef segir að sér hafi verið „rænt“. Það fer ekki á milli mála að hann var fórnarlamb óréttlætis. Hann tók það líka skýrt fram að hann væri saklaus af þeim glæpum sem hann var fangelsaður fyrir. Á þeim forsendum bað hann byrlarann að nefna mál sitt við faraó. Hvert var markmiðið? Hann vildi að faraó ,hjálpaði sér úr þessu húsi‘.

 13 Sætti Jósef sig einfaldlega við aðstæður sínar án þess að reyna að gera nokkuð í málinu? Greinilega ekki. Hann vissi vel að hann hafði verið beittur miklu óréttlæti. Hann sagði byrlaranum hvernig málum var háttað í von um að hann gæti hjálpað sér. En taktu eftir að það er ekkert í Biblíunni sem bendir til þess að Jósef hafi nokkurn tíma sagt nokkrum frá því að það voru bræður hans sem rændu honum – ekki einu sinni faraó. Þegar bræður hans komu til Egyptalands og sættir tókust milli þeirra og Jósefs tók faraó vel á móti þeim og bauð þeim að setjast að í Egyptalandi og njóta ,þess besta sem Egyptaland hafði upp á að bjóða‘. – 1. Mós. 45:16-20.

Neikvætt tal getur verið eins og olía á eld. (Sjá 14. grein.)

14. Hvað hjálpar okkur að forðast neikvætt tal, jafnvel þótt við verðum fyrir óréttlæti í söfnuðinum?

14 Þegar þjónn Guðs telur sig hafa orðið fyrir óréttlæti verður hann að varast að breiða út skaðlegt slúður. Að sjálfsögðu er viðeigandi að leita aðstoðar öldunganna og láta þá vita ef einhver í söfnuðinum hefur gert sig sekan um alvarlega synd. (3. Mós. 5:1) Ef ekki er um alvarlega synd að ræða er hins vegar oft hægt að leysa ágreining án þess að blanda öðrum í málið, þar með talið öldungunum. (Lestu Matteus 5:23, 24; 18:15.) Sýnum trúfesti og tökum á slíkum málum í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þegar öllu er á botninn hvolft gætum við í sumum tilfellum áttað okkur á að við vorum ekki beitt neinu óréttlæti. Þá getum við verið þakklát fyrir að hafa ekki gert illt verra með því að bera út óhróður um trúsystkini. Munum að það er aldrei til bóta að segja eitthvað særandi, hvort sem við höfum rétt fyrir okkur eða ekki. Hollusta við Jehóva og trúsystkini okkar aftrar okkur frá því að gera slík mistök. Sálmaritarinn orti að ,sá sem  gengur í flekkleysi beri ekki út róg með tungu sinni, geri náunga sínum ekki illt og leiði ekki skömm yfir nágranna sinn‘. – Sálm. 15:2, 3; Jak. 3:5.

MUNUM EFTIR MIKILVÆGUSTU VINÁTTUBÖNDUNUM SEM VIÐ EIGUM

15. Hvernig var samband Jósefs við Jehóva honum til blessunar?

15 Við getum dregið annan mikilvægan lærdóm af Jósef. Á þeim 13 árum, sem hann sætti óréttlæti, sýndi hann að hann sá málin frá sjónarhóli Jehóva. (1. Mós. 45:5-8) Hann kenndi Jehóva aldrei um erfiðleika sína. Þó að hann gleymdi ekki ranglætinu sem hann varð fyrir leyfði hann því ekki að gera sig bitran. Og það sem mestu máli skipti var að hann leyfði ekki ófullkomleika og rangri breytni annarra að gera sig viðskila við Jehóva. Trúfesti Jósefs gaf honum tækifæri til að sjá hönd Jehóva að verki þegar hann tók á óréttlætinu og blessaði Jósef og fjölskyldu hans.

16. Hvers vegna ættum við að nálægja okkur Jehóva ef við verðum fyrir óréttlæti í söfnuðinum?

16 Að sama skapi verðum við að standa vörð um samband okkar við Jehóva og hlúa að því. Við ættum aldrei að leyfa ófullkomleika trúsystkina að gera okkur viðskila við Guð sem við elskum og tilbiðjum. (Rómv. 8:38, 39) Við skulum þess í stað líkja eftir Jósef ef við verðum fyrir óréttlæti af hálfu trúsystkinis, nálægja okkur Jehóva enn meira og leitast við að tileinka okkur viðhorf hans. Þegar við höfum gert allt sem við getum til að leysa málið í samræmi við meginreglur Biblíunnar þurfum við að leggja það í hendur Jehóva, fullviss um að hann leiðrétti það með sínum hætti þegar hann telur tímabært.

TREYSTUM Á ,DÓMARA ALLRAR JARÐARINNAR‘

17. Hvernig getum við sýnt að við treystum á ,dómara allrar jarðarinnar‘?

17 Meðan við búum í þessu heimskerfi megum við búast við að verða órétti beitt. Stundum gætum við eða einhver sem við þekkjum jafnvel orðið fyrir einhverju sem okkur finnst óréttlátt í söfnuðinum eða orðið vitni að því. Látum það ekki verða okkur til hrösunar. (Sálm. 119:165) Sem trúfastir þjónar Guðs reiðum við okkur á hann og biðjum hann að hjálpa okkur. Við viðurkennum líka að sennilega þekkjum við ekki allar hliðar málsins. Við vitum vel að við gætum hafa misskilið eitthvað vegna ófullkomleika okkar. Eins og við lærðum af fordæmi Jósefs er viturlegt að tala ekki illa um aðra, enda gerir það bara illt verra. Síðast en ekki síst skulum við vera staðráðin í að vera Jehóva trú og bíða þolinmóð eftir að hann leiðrétti málið í stað þess að taka það í okkar eigin hendur. Þá höfum við velþóknun Jehóva og blessun, rétt eins og Jósef. Já, við megum vera þess fullviss að Jehóva, „dómari allrar jarðarinnar,“ geri alltaf það sem er rétt því að ,allir vegir hans eru réttlátir‘. – 1. Mós. 18:25; 5. Mós. 32:4.

18. Hvað skoðum við í næstu grein?

18 Í næstu grein skoðum við tvö dæmi til viðbótar um óréttlæti sem átti sér stað meðal þjóna Jehóva á biblíutímanum. Þessi dæmi undirstrika hvernig auðmýkt og vilji til að fyrirgefa hjálpar okkur að líkja eftir réttlæti Jehóva.

^ gr. 7 Sjá ævisögu Willis Diehls, „Jehovah Is My God, in Whom I Will Trust,“ í Varðturninum á ensku 1. nóvember 1991.