Hvað átti Páll postuli við þegar hann sagði að andasmurðir kristnir menn fengju hver og einn „tryggingu“ og „innsigli“ frá Guði? – 2. Kor. 1:21, 22.

Innsiglishring var þrýst í leir eða innsiglislakk til að staðfesta skjal.

Trygging: Gríska orðið, sem er þýtt ,trygging‘ í 2. Korintubréfi 1:22, er „fagorð notað í viðskipta- og lagamáli“ að sögn heimildarrits. Það merkir „fyrsta afborgun, fyrsta greiðsla, innborgun eða veð sem gengur upp í kaupverðið og er greitt fyrir fram. Það tryggir þar með lagalega kröfu til viðkomandi hlutar eða fullgildir samning.“ Í 2. Korintubréfi 5:1-5 kemur fram að fullnaðargreiðslan til hinna andasmurðu, launin sem þeir fá, sé að hluta til fólgin í því að þeir íklæðist óforgengilegum himneskum líkama. Hún felur einnig í sér að þeir verða ódauðlegir. – 1. Kor. 15:48-54.

Í nútímagrísku er skylt orð notað um trúlofunarhring. Það er viðeigandi líkingamál þegar talað er um þá sem mynda táknræna eiginkonu Krists. – 2. Kor. 11:2; Opinb. 21:2, 9.

Innsigli: Áður fyrr var innsigli notað sem ígildi undirskriftar til að sanna eignarrétt, staðfesta áreiðanleika eða láta í ljós samþykki. Hinir andasmurðu eru merktir „innsigli“ heilags anda í táknrænum skilningi til merkis um að þeir séu eign Guðs. (Ef. 1:13, 14) Þetta innsigli verður þó ekki endanlegt fyrr en einhvern tíma áður en hinn andasmurði deyr trúfastur eða einhvern tíma áður en þrengingin mikla brýst út. – Ef. 4:30; Opinb. 7:2-4.