Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guð hefur velþóknun á þeim sem eru trúfastir

Guð hefur velþóknun á þeim sem eru trúfastir

„Breytið ... eftir þeim sem trúa og eru stöðuglynd og erfa það sem Guð hefur heitið.“ – HEBR. 6:12.

SÖNGVAR: 86, 54

1, 2. Hvernig reyndi á trú Jefta og dóttur hans?

UNGA konan hefur beðið kvíðafull. Þegar hún sér pabba sinn koma heilan á húfi úr stríðinu hleypur hún á móti honum og fagnar einstökum sigri hans. Hvílíkur léttir! En í staðinn fyrir að syngja og dansa með dóttur sinni rífur hann klæði sín og hrópar: „Æ, dóttir mín, nú hryggirðu mig sárlega.“ Það sem hann segir í framhaldinu á eftir að breyta lífi hennar til frambúðar og gera að engu vonir hennar og drauma um eðlilegt líf. En hún svarar honum hiklaust og hvetur hann til að halda loforðið sem hann gaf Jehóva. Falleg orð hennar bera vitni um sterka trú. Hún treystir því að hvað sem Jehóva biður um sé það henni fyrir bestu. (Dóm. 11:34-37) Faðirinn er yfir sig stoltur af dótturinni. Hann veit að það gleður Jehóva að hún skuli vera svona fús til að styðja ákvörðun hans.

2 Jefta og guðhrædd dóttir hans leggja traust sitt á Jehóva. Þau vita að það er alltaf best að fylgja leiðbeiningum hans,  jafnvel þótt það geti verið erfitt. Þau eru sannfærð um að það sé þess virði að færa hvaða fórn sem er til að hljóta velþóknun hans.

3. Af hverju getur verið gott fyrir okkur að skoða fordæmi Jefta og dóttur hans?

3 Það er ekki alltaf auðvelt að vera trúr Jehóva. Við vitum að við þurfum að ,berjast fyrir trúnni‘. (Júd. 3) Til að hjálpa okkur í þeirri baráttu skulum við skoða hvaða áskoranir Jefta og dóttir hans þurftu að takast á við. Hvernig tókst þeim að vera trúföst?

AÐ VERA TRÚFÖST ÞRÁTT FYRIR ÁHRIF HEIMSINS

4, 5. (a) Hvað sagði Jehóva Ísraelsmönnum að gera þegar þeir færu inn í fyrirheitna landið? (b) Hvaða afleiðingar hafði óhlýðni Ísraelsmanna fyrir þá eins og kemur fram í Sálmi 106?

4 Á hverjum degi voru Jefta og dóttir hans líklega minnt á þær hrikalegu afleiðingar sem það hafði fyrir Ísraelsmenn að vera ótrúir Jehóva. Nálega 300 árum áður hafði forfeðrum þeirra verið fyrirskipað að útrýma öllum heiðnum íbúum fyrirheitna landsins. (5. Mós. 7:1-4) Þeir hlýddu ekki og það hafði þær afleiðingar að margir þeirra tóku upp syndsamlegt líferni Kanverja. Þeir fóru að dýrka falsguði og ánetjuðust alls konar kynferðislegu siðleysi. – Lestu Sálm 106:34-39.

5 Uppreisn þeirra kallaði yfir þá vanþóknun Jehóva og hann hætti að vernda þá. (Dóm. 2:1-3, 11-15; Sálm. 106:40-43) Það hefur ekki verið auðvelt fyrir guðhræddar fjölskyldur að vera trúar Jehóva á þessum erfiðu tímum. Í Biblíunni kemur samt fram að til hafi verið trúfastir menn og konur eins og Jefta, og dóttir hans, og þau Elkana, Hanna og Samúel. Öll voru þau staðráðin í að hljóta velþóknun Guðs. – 1. Sam. 1:20-28; 2:26.

6. Hvaða áhrif hefur heimurinn og hvað þurfum við að gera?

6 Við búum í heimi þar sem fólk hugsar og hegðar sér ekki ósvipað og Kanverjar. Hjá mörgum virðist lífið snúast um kynlíf, ofbeldi og peninga. Jehóva hefur varað okkur við slíku því að hann vill vernda okkur fyrir slæmum áhrifum heimsins, rétt eins og Ísraelsmenn. Ætlum við að læra af mistökum þeirra? (1. Kor. 10:6-11) Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að uppræta hjá okkur hvern einasta snefil af hugsunarhætti heimsins. (Rómv. 12:2) Höfum við gert okkar ýtrasta til þess?

AÐ VERA TRÚFÖST ÞRÁTT FYRIR VONBRIGÐI

7. (a) Hvað mátti Jefta þola af hendi þjóðar sinnar? (b) Hvernig brást Jefta við?

7 Óhlýðni Ísraelsmanna á dögum Jefta leiddi til þess að þeir urðu þrælar Filistea og Ammóníta. (Dóm. 10:7, 8) En prófraunir Jefta voru ekki aðeins óvinaþjóðunum að kenna heldur líka bræðrum hans og leiðtogum Ísraels. Hálfbræður hans hröktu hann burt sökum öfundar og haturs. Þannig neituðu þeir honum um arf sem hann átti rétt á þar sem hann var elstur þeirra. (Dóm. 11:1-3) Jefta lét framkomu þeirra ekki hafa áhrif á sig. Hann var ekki bitur og hefnigjarn þegar öldungar þjóðarinnar komu til að biðja hann hjálpar heldur varð við beiðni þeirra. (Dóm. 11:4-11) Hvað varð til þess að hann brást við eins og andlegur maður?

8, 9. (a) Hvaða meginreglur í Móselögunum hafa trúlega mótað hugarfar Jefta? (b) Hvað skipti Jefta mestu máli?

8 Jefta var stríðsmaður en hann þekkti líka sögu Ísraelsmanna vel. Hann vissi  hvernig Jehóva hafði komið fram við þjóð sína og það gaf honum skýra mynd af því hvað væri rétt og rangt í augum hans. (Dóm. 11:12-27) Meginreglur Guðs í Móselögunum mótuðu hugarfar og hjartalag Jefta. Hann vissi að það var ekki þóknanlegt Jehóva að vera langrækinn heldur áttu þjónar hans að elska hver annan. Lögmálið kenndi líka að það væri skylda að sinna þeim sem þörfnuðust hjálpar, jafnvel ,andstæðingi‘ manns. – Lestu 2. Mósebók 23:5; 3. Mósebók 19:17, 18.

9 Fordæmi trúfastra þjóna Jehóva hafði sennilega mikil áhrif á Jefta. Þar má nefna Jósef sem sýndi bræðrum sínum miskunn, jafnvel þó að þeir hafi ,lagt hatur á hann‘. (1. Mós. 37:4; 45:4, 5) Að hugleiða verk slíkra manna hjálpaði Jefta án efa að taka ákvarðanir sem Jehóva hafði velþóknun á. Framkoma bræðra hans særði hann örugglega djúpt en hann hætti samt ekki að þjóna Jehóva og berjast fyrir þjóð hans. (Dóm. 11:9) Það skipti hann meira máli að verja nafn Jehóva en að berjast fyrir rétti sínum. Hann var staðráðinn í að vera Jehóva trúr og það var honum sjálfum og öðrum til góðs. – Hebr. 11:32, 33.

10. Hvernig geta meginreglur Guðs hjálpað okkur?

10 Ætlum við að draga lærdóm af Jefta? Vera má að trúsystkini hafi valdið okkur vonbrigðum eða komið illa fram við okkur. Ef sú er raunin ættum við ekki að hætta að þjóna Jehóva heldur halda áfram að mæta á samkomur og taka þátt í safnaðarlífinu. Við ættum að líkja eftir Jefta og láta meginreglur Guðs leiða okkur í lífinu og hjálpa okkur að takast á við erfiðleika. Þannig getum við haft jákvæð áhrif á aðra. – Rómv. 12:20, 21; Kól. 3:13.

FÓRNFÝSI BER VITNI UM TRÚ

11, 12. Hvaða loforð gaf Jefta og hvað fólst í því?

11 Jefta vissi að hann þyrfti á hjálp Guðs að halda til að frelsa Ísrael undan oki Ammóníta. Hann bað Jehóva um að veita sér sigur og lofaði þá að færa honum „sem brennifórn“ fyrstu manneskjuna sem kæmi út úr húsi hans þegar hann sneri aftur úr bardaganum. (Dóm. 11:30, 31) Hvers konar fórn var hann að tala um?

12 Mannafórnir eru viðurstyggilegar í augum Jehóva. Það er því augljóst að Jefta ætlaði ekki að færa bókstaflega mannafórn. (5. Mós. 18:9, 10) Í Móselögunum var kveðið á um brennifórnir en það voru fórnir sem voru færðar Jehóva í heild sinni. Jefta átti því greinilega við að hann myndi helga umrædda manneskju því að þjóna Jehóva við tjaldbúðina það sem eftir var ævinnar. Jehóva samþykkti þessa skilmála og blessaði Jefta svo að hann vann mikinn sigur og óvinirnir lutu í lægra haldi fyrir honum. (Dóm. 11:32, 33) En hver yrði þessi manneskja sem Jefta myndi færa Guði „sem brennifórn“?

13, 14. Hvað má læra um Jefta af Dómarabókinni 11:35?

13 Manstu eftir atburðinum sem er lýst í byrjun greinarinnar? Þegar Jefta snýr aftur úr bardaganum er það enginn annar en dóttir hans sem kemur á móti honum – einkabarnið hans. Núna reynir á trúfestina. Heldur hann loforð sitt og gefur Jehóva dóttur sína svo að hún geti þjónað honum við tjaldbúðina það sem eftir er?

14 Enn og aftur hljóta það að hafa verið meginreglur Guðs sem leiðbeindu honum svo að hann tók rétta ákvörðun. Kannski mundi hann eftir því sem stendur í 2. Mósebók 23:19 þar sem þjónar Jehóva eru hvattir til að gefa honum  sitt besta. Í Móselögunum segir líka að mönnum sé skylt að halda gefin heit. Þar stendur: „Nú vinnur maður Drottni heit ... skal hann ekki hvika frá loforði sínu, hann skal í einu og öllu standa við það sem hann sagði.“ (4. Mós. 30:3) Rétt eins og Hanna, sem var sennilega samtíðarkona hans, þurfti hann að halda heit sitt vitandi hvað það þýddi fyrir framtíð hans og dótturinnar. Hann átti engin önnur börn svo að dóttirin var eina vonin um að hann eignaðist afkomendur sem myndu erfa landareign hans og viðhalda nafni hans. (Dóm. 11:34) Samt sem áður segir Jefta samkvæmt Dómarabókinni 11:35: „Ég hef lokið upp munni mínum við Drottin og ég get ekki tekið heit mitt aftur.“ Jehóva blessaði hann fyrir trúfesti hans og mikla fórnfýsi. Hefðir þú gert það sama og Jefta?

15. Hvaða heit hafa mörg okkar gefið og hvernig getum við verið trúföst?

15 Þegar við vígðum Jehóva líf okkar hétum við því að gera vilja hans í einu og öllu, án skilyrða. Við vissum að til að halda loforð okkar þyrftum við að vera fórnfús. En það reynir sérstaklega á okkur þegar við erum beðin um að gera eitthvað sem við erum ekki hrifin af fyrst í stað. Við sýnum að við erum trúföst þegar við færum slíkar fórnir í þjónustunni við Guð þótt það kosti okkur að fara út fyrir þægindarammann. Fórnirnar geta verið sársaukafullar en blessun Jehóva meira en bætir það upp. (Mal. 3:10) En hvernig brást dóttir Jefta við þegar hún heyrði hverju hann hafði heitið?

Hvernig getum við sýnt trú eins og Jefta og dóttir hans? (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvernig brást dóttir Jefta við loforði föður síns? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

16 Það hefur varla verið auðvelt fyrir dóttur Jefta að hugsa um afleiðingarnar af heitinu sem faðir hennar gaf. Þetta var ólíkt heitinu sem Hanna gaf þegar hún lofaði að gefa Samúel, son sinn, til að þjóna sem nasírei við tjaldbúðina. (1. Sam. 1:11) Nasírei mátti gifta sig og eignast börn. En dóttir Jefta  þurfti að neita sér um þessa ánægju því að hún átti að vera „brennifórn“ sem var færð í heild sinni. (Dóm. 11:37-40) Þar sem hún var dóttir sigursæls höfðingja og leiðtoga í Ísrael hefði hún getað átt í vændum að giftast besta mannkostinum í landinu. En í staðinn átti hún að verða lítilmótleg þjónustustúlka við tjaldbúðina. Hvernig brást hún við? Hún sagði: „Faðir minn, ef þú hefur lokið upp munni þínum við Drottin, gerðu þá við mig eins og munnur þinn hefur lofað.“ (Dóm. 11:36) Þannig sýndi hún að hún tók tilbeiðsluna á Jehóva fram yfir allt annað. Hún fórnaði því að eignast mann og börn, sem er eðlileg þrá ungrar konu, til að geta stutt sanna tilbeiðslu. Hvernig getum við líkt eftir fórnfýsi hennar?

17. (a) Hvernig getum við líkt eftir trú Jefta og dóttur hans? (b) Hvernig hvetur Hebreabréfið 6:10-12 þig til að vera fórnfús?

17 Mörg þúsund ungir vottar, bæði bræður og systur, neita sér um að ganga í hjónaband eða eignast börn – að minnsta kosti um sinn – til að þjóna Jehóva sem best þau geta. Þeir sem eru komnir af besta aldri fórna því stundum líka að geta verið með börnum sínum og barnabörnum. Þeir gera það til að geta tekið þátt í byggingarframkvæmdum á vegum safnaðarins eða til að sækja Skólann fyrir boðbera Guðsríkis og starfa á stöðum þar sem vantar fleiri boðbera. Enn aðrir haga málum þannig að þeir geti tekið þátt í boðunarátaki í kringum minningarhátíðina. Við gleðjum Jehóva með því að þjóna honum af heilum hug og hann gleymir aldrei verki okkar og kærleikanum sem við sýnum honum. (Lestu Hebreabréfið 6:10-12.) Hvað um þig? Gætir þú fært fórnir til að þjóna Jehóva enn betur?

HVAÐ HÖFUM VIÐ LÆRT?

18, 19. Hvað höfum við lært af Jefta og dóttur hans og hvernig getum við líkt eftir þeim?

18 Jefta þurfti að takast á við margar áskoranir í lífinu en hann hafði vilja Jehóva að leiðarljósi þegar hann tók ákvarðanir. Hann lét heiminn ekki hafa áhrif á sig. Hann var trúfastur þrátt fyrir þau vonbrigði sem aðrir ollu honum. Fórnirnar, sem bæði hann og dóttir hans færðu af fúsu geði, urðu þeim til blessunar því að Jehóva notaði þau til að efla hreina tilbeiðslu. Jefta og dóttir hans fylgdu meginreglum Jehóva þegar aðrir hættu að gera vilja hans.

19 Biblían hvetur okkur: „Breytið ... eftir þeim sem trúa og eru stöðuglynd og erfa það sem Guð hefur heitið.“ (Hebr. 6:12) Við skulum líkja eftir Jefta og dóttur hans og lifa í samræmi við þann óhagganlega sannleika sem líf þeirra ber vitni um: Guð hefur velþóknun á þeim sem eru trúfastir.