„HÆTTU að tala við mig,“ æpti Araceli, yngri systir mín. „Ég vil ekki heyra neitt meira um trú þína. Mér býður við þessu. Ég hata þig!“ Núna er ég orðin 91 árs. Ég man þó enn hve sárt það var að heyra þessi orð. En í Prédikaranum 7:8 segir: „Betri er endir máls en upphaf,“ og það reyndust orð að sönnu í okkar tilfelli. – Felisa.

Felisa: Ég ólst upp á fábrotnu heimili í fjölskyldu trúrækinna kaþólikka. Reyndar var það svo að 13 ættingjar okkar voru prestar eða unnu fyrir kirkjuna með öðrum hætti. Frændi minn í móðurætt, prestur sem kenndi í kaþólskum skóla, var meira að segja tekinn í tölu blessaðra af Jóhannesi Páli páfa öðrum. Faðir minn var járnsmiður og móðir mín vann á ökrunum. Ég var elst átta barna.

Spænska borgarastyrjöldin braust út þegar ég var 12 ára. Eftir að henni lauk var faðir minn hnepptur í fangelsi. Frjálslyndar hugmyndir hans féllu ekki í kramið hjá einræðisstjórninni. Móðir mín átti í miklu basli við að brauðfæða fjölskylduna og því stakk vinkona hennar upp á að hún sendi yngri systur mínar þrjár, Araceli, Lauri og Ramoni, í klaustur í Bilbao á Spáni. Þar myndu þær að minnsta kosti ekki svelta.

Araceli: Við vorum ekki nema 14, 12 og 10 ára gamlar á þeim tíma og okkur fannst mjög erfitt að vera aðskildar frá fjölskyldunni. Í Bilbao vorum við látnar þrífa. Eftir tvö ár þar vorum við fluttar í stórt klaustur í Saragossa þar sem hugsað var um aldraða. Okkar verkefni var að þrífa eldhúsið, en það var mikil erfiðisvinna fyrir ungar táningsstúlkur.

Felisa: Þegar systur mínar fóru til Saragossa ákváðu móðir mín og bróðir hennar, sem var presturinn á staðnum, að senda mig í sama klaustur. Þannig vildu þau koma í veg fyrir að ég kynntist strák sem var hrifinn af mér. Þar sem ég var  mjög trúuð líkaði mér vel við tilhugsunina að fara í klaustur um tíma. Ég var vön að sækja messu á hverjum degi og það hafði jafnvel hvarflað að mér að gerast trúboði eins og frændi minn sem var munkur í Afríku.

Til vinstri: Klaustrið í Saragossa á Spáni; Til hægri: Nácar-Colunga-þýðing Biblíunnar.

Nunnurnar gerðu ekkert til að hvetja mig til að þjóna Guði erlendis og mér leið eins og fanga í klaustrinu. Eftir ár ákvað ég því að snúa aftur heim til að annast móðurbróður minn, prestinn. Auk þess að sinna heimilisstörfum þuldi ég bænir með honum á hverju kvöldi. Ég hafði líka gaman af því að raða blómunum í kirkjunni og skreyta líkneskin af Maríu mey og „dýrlingunum“.

Araceli: Um svipað leyti breyttist líf okkar í klaustrinu. Eftir að ég hafði unnið fyrstu klausturheit mín ákváðu nunnurnar að aðskilja okkur systurnar. Ramoni var áfram í Saragossa, Lauri fór til Valencia og ég var send til Madrídar þar sem ég vann klausturheit í annað sinn. Klaustrið í Madríd hýsti námsmenn, aldraða og aðra gesti og því fylgdi gífurleg vinna. Ég starfaði á sjúkradeild klaustursins.

Satt að segja bjóst ég við að nunnulífið yrði meira gefandi. Ég hafði hlakkað til að lesa og skilja Biblíuna. En enginn talaði um Guð eða Jesú og við notuðum ekki einu sinni Biblíuna. Það eina sem ég gerði var að læra smá latínu, lesa um ævi „dýrlinganna“ og tilbiðja Maríu mey. Allt annað snerist um erfiðisvinnu.

Ég fór að finna fyrir kvíða og ákvað að leita til abbadísarinnar. Ég sagði henni að það væri ekki rökrétt að ég ynni hörðum höndum til að aðrir gætu lifað í vellystingum á meðan fjölskylda mín þyrfti á mér að halda. Hún lokaði mig inni í klefa í þeirri von að ég skipti um skoðun og hætti við að yfirgefa klaustrið.

Nunnurnar hleyptu mér þrisvar út úr klefanum í þeim eina tilgangi að vita hvort ég vildi enn þá yfirgefa klaustrið. Þar sem þær sáu hve ákveðin ég var sögðu þær mér að skrifa á blað: „Ég er á förum af því að ég kýs frekar að þjóna Satan en Guði.“ Þessi krafa fékk mikið á mig. Ég gat ekki hugsað mér að skrifa þessi orð þó að ég vildi ólm komast úr klaustrinu. Að lokum bað ég um að fá að tala við skriftaprest og sagði honum hvað hafði gerst. Hann fékk leyfi biskupsins til að senda mig aftur til klaustursins í Saragossa. Eftir fáeina mánuði þar fékk ég leyfi til að fara. Stuttu síðar yfirgáfu einnig Lauri og Ramoni klaustrið.

„BÖNNUГ BÓK AÐGREINIR OKKUR

Felisa

Felisa: Með tímanum giftist ég og fluttist til Kantabríu. Ég hélt áfram að sækja messur reglulega.  Sunnudag nokkurn heyrði ég tilkynningu úr prédikunarstólnum sem gerði mér bilt við. Presturinn hrópaði reiður: „Sjáið þessa bók!“ og benti á bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Hann hélt áfram: „Ef einhver hefur gefið ykkur svona bók skuluð þið annaðhvort láta mig hafa hana eða fleygja henni!“

Ég átti ekki þessa bók en ég vildi endilega eignast hana. Fáeinum dögum síðar bönkuðu tveir vottar upp á hjá mér og buðu mér „bönnuðu“ bókina. Ég las hana sama kvöld, og þegar konurnar komu aftur þáði ég boð þeirra um biblíunámskeið.

„Bannaða“ bókin

Mig langaði alltaf til að þóknast Guði. Nú, þegar ég hafði kynnst Jehóva, fór ég að elska hann innilega og ég vildi segja öllum frá honum. Ég skírðist árið 1973. Þó að ég hafi ekki fengið mörg tækifæri til að segja fjölskyldunni frá sannleikanum gerði ég allt sem ég gat til þess. Eins og ég útskýrði í upphafi voru þau verulega mótfallin trú minni, sérstaklega Araceli systir.

Araceli: Ég var orðin bitur vegna þeirrar slæmu reynslu sem ég hafði fengið í klaustrinu. En ég hélt áfram að sækja sunnudagsmessur og þuldi daglega bænirnar mínar. Ég hafði enn þá brennandi löngun til að skilja Biblíuna og ég bað Guð að hjálpa mér. En þegar Felisa systir talaði við mig um hina nýfundnu trú sína var hún svo áköf að mér fannst þetta vera algerir öfgar. Ég var mjög ósammála henni.

Araceli

Eftir nokkur ár sneri ég aftur til Madrídar til að vinna og gifti mig nokkru síðar. Með tímanum varð ég afar tortryggin. Ég tók eftir því að fólk, sem sótti messur reglulega, fór ekki eftir því sem guðspjöllin kenna og því hætti ég að fara í kirkju. Ég trúði ekki lengur á „dýrlinga“, syndajátningu né helvíti og losaði mig jafnvel við öll líkneskin mín. Ég vissi ekki hvort ég væri á réttri braut. Ég var vonsvikin en bað samt Guð ítrekað: „Mig langar að kynnast þér. Hjálpaðu mér!“ Ég man að vottar Jehóva bönkuðu oft upp á hjá mér en ég opnaði aldrei fyrir þeim. Ég treysti engum trúarbrögðum.

 Lauri systir hafði flust til Frakklands en Ramoni bjó enn á Spáni. Snemma á níunda áratugnum byrjuðu þær að kynna sér Biblíuna með vottunum. Ég var viss um að þær hefðu verið afvegaleiddar líkt og Felisa. Seinna kynntist ég nágrannakonu, Angelines, sem varð náin vinkona mín en hún var einnig vottur Jehóva. Angelines og eiginmaður hennar buðu mér oftsinnis biblíunámskeið. Þau áttuðu sig á að innst inni þráði ég sannleika Biblíunnar þó að það liti ekki þannig út á yfirborðinu. Að lokum sagði ég þeim: „Allt í lagi. Ég skal þiggja biblíunámskeið en aðeins með því skilyrði að ég fái að nota mína eigin biblíu,“ og átti þá við Nácar-Colunga-þýðinguna.

BIBLÍAN SAMEINAR OKKUR AÐ LOKUM

Felisa: Þegar ég skírðist árið 1973 voru um það bil 70 vottar í Santander, höfuðborg Kantabríufylkis á Spáni. Starfssvæðið okkar var risastórt. Við ferðuðumst því með rútu og síðar meir á bíl til að boða trúna um fylkið allt. Við fórum milli bæja og þorpa þar til við höfðum heimsótt þau öll, en þau voru nokkur hundruð talsins.

Á liðnum árum hef ég fengið að halda mörg biblíunámskeið og 11 nemendur mínir létu skírast. Flestir þeirra voru kaþólikkar. Þar sem ég hafði sjálf eitt sinn verið ákafur kaþólikki vissi ég að ég þyrfti að sýna þeim þolinmæði og skilning. Ég gerði mér grein fyrir að þau þyrftu sinn tíma til að sleppa takinu á rótgrónum trúarskoðunum og að Biblían og heilagur andi Jehóva þyrfti að ná til hjartna þeirra til að þau gætu áttað sig á sannleikanum. (Hebr. 4:12) Bienvenido, eiginmaður minn sem hafði verið lögregluþjónn, skírðist árið 1979 og móðir mín fór að kynna sér Biblíuna með vottunum stuttu áður en hún lést.

Araceli: Ég var mjög tortryggin þegar ég byrjaði að kynna mér Biblíuna með vottunum. En eftir því sem vikurnar liðu tók ég eftir að ég var ekki lengur bitur. Það sem hafði mest áhrif á mig var að vottarnir fóru eftir því sem þeir kenndu. Trúin tók að vaxa og tortryggnin fjaraði út. Ég varð mun glaðari en áður. Sumar nágrannakonur mínar sögðu jafnvel við mig: „Araceli, haltu áfram á veginum sem þú hefur fundið.“

Ég man eftir að hafa beðið: „Takk, Jehóva, fyrir að hafa ekki gefist upp á mér og fyrir að hafa gefið mér svona mörg tækifæri til að finna það sem ég leitaði að, sannleika Biblíunnar.“ Ég bað Felisu systur að fyrirgefa mér þau særandi orð sem ég hafði sagt við hana. Þaðan í frá nutum við þess að ræða saman um biblíuleg mál í stað þess að rífast. Ég skírðist árið 1989, þá 61 árs.

Felisa: Ég er nú orðin 91 árs gömul ekkja og hef ekki lengur sama þrótt og áður. En ég les í Biblíunni á hverjum degi, sæki samkomur þegar heilsan leyfir og tek þátt í boðuninni eftir bestu getu.

Araceli: Ég hef gaman af að segja öllum prestum og nunnum, sem ég hitti í boðuninni, frá Jehóva, kannski af því að ég var sjálf nunna. Ég hef gefið þeim fjölda rita og átt nokkur áhugaverð samtöl. Ég man eftir einum presti sem sagði við mig eftir að ég hafði heimsótt hann nokkrum sinnum: „Araceli, ég er hjartanlega sammála þér, en hvað get ég gert núna á mínum aldri? Hvað myndu sóknarbörnin og fjölskyldan segja?“ Ég svaraði: „Og hvað myndi Guð segja?“ Hann kinkaði kolli dapurlega en á þeim tíma hafði hann ekki kjark til að halda áfram að leita að sannleikanum.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar eiginmaður minn sagði í fyrsta sinn að hann vildi koma með mér á samkomu. Þó að hann hafi verið kominn yfir áttrætt missti hann aldrei af samkomu þaðan í frá. Hann kynnti sér Biblíuna með vottunum og gerðist óskírður boðberi, og ég á góðar minningar af okkur saman í boðuninni. Hann lést tveim mánuðum áður en hann ætlaði að skírast.

Felisa: Ein mesta ánægjan í lífi mínu var að sjá yngri systur mínar þrjár, sem voru í fyrstu mjög mótfallnar trú minni, verða andlegar systur mínar. Við höfum haft ómælda ánægju af því að vera saman og tala um okkar ástkæra Guð, Jehóva, og orð hans. Loksins erum við sameinaðar sem andlegar systur. *

^ gr. 29 Araceli er núna 87 ára, Felisa 91 og Ramoni 83 og þær halda áfram að þjóna Jehóva dyggilega. Lauri lést árið 1990, trúföst Jehóva.