Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dæmum ekki eftir útlitinu

Dæmum ekki eftir útlitinu

„Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm.“ – JÓH. 7:24.

SÖNGVAR: 142, 123

1. Hverju spáði Jesaja um Jesú og af hverju er það hughreystandi?

SPÁDÓMUR Jesaja um Jesú Krist yljar okkur um hjartarætur og veitir okkur von. Hann sagði fyrir að Jesús myndi ,ekki dæma eftir því sem augu hans sæju og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyrðu‘. Jesaja bætti við: „Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu.“ (Jes. 11:3, 4) Af hverju er þetta hughreystandi? Af því að við búum í heimi þar sem hlutdrægni og fordómar eru allsráðandi. Við þurfum á hinum réttláta dómara að halda sem dæmir okkur aldrei eftir útlitinu.

2. Hvað sagði Jesús okkur að gera og hvað ræðum við í þessari grein?

2 Við myndum okkur skoðanir á fólki á hverjum degi. En við erum ófullkomin og getum því ekki dæmt fullkomlega eins og Jesús. Við eigum það til að láta það sem augu okkar sjá hafa áhrif á skoðanir okkar. En þegar Jesús var á jörð sagði hann: „Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm.“ (Jóh. 7:24) Jesús vill greinilega að við líkjum eftir sér og dæmum ekki fólk eftir útlitinu. Í þessari grein ræðum við þrennt sem getur oft haft áhrif á skoðanir okkar, það er að segja kynþátt og þjóðerni, fjárhag og aldur. Við skoðum líka hvernig við getum hlýtt fyrirmælum Jesú á hverju sviði fyrir sig.

 DÆMUM EKKI EFTIR KYNÞÆTTI EÐA ÞJÓÐERNI

3, 4. (a) Hvaða atburðir urðu til þess að viðhorf Péturs postula til heiðingja breyttist? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað hjálpaði Jehóva Pétri að skilja?

3 Ímyndaðu þér hvað Pétur postuli hefur hugsað þegar hann var beðinn að fara til Sesareu að heimsækja heiðingjann Kornelíus. (Post. 10:17-29) Pétur ólst upp við það viðhorf að heiðnir menn væru óhreinir. En nýlegir atburðir urðu til þess að hugarfar hans breyttist. Hann hafði til dæmis fengið sýn frá Guði. (Post. 10:9-16) Hvað sá hann? Eitthvað líkt dúki var látið síga niður fyrir framan hann með óhreinum dýrum. Rödd af himni skipaði: „Slátra nú, Pétur, og et!“ Pétur harðneitaði því þrisvar sinnum. Í hvert skipti sem hann neitaði sagði röddin: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt sem Guð hefur lýst hreint!“ Þegar sýninni lauk skildi Pétur hvorki upp né niður hvað röddin var að reyna að segja honum. En þá komu sendiboðar Kornelíusar. Pétur fylgdi þeim heim til Kornelíusar eftir að hafa fengið bendingu heilags anda.

4 Ef Pétur hefði dæmt aðeins eftir útlitinu hefði hann aldrei farið heim til Kornelíusar. Gyðingar stigu hreinlega ekki fæti inn á heimili heiðinna manna. Hvað varð þá til þess að Pétur gerði það, hann sem hafði haft svo mikla fordóma? Sýnin og leiðsögn heilags anda hafði mikil áhrif á hann. Eftir að Pétur hafði hlustað á Kornelíus var honum innblásið að segja: „Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Post. 10:34, 35) Þessi nýi skilningur var spennandi fyrir Pétur og hann átti eftir að snerta alla kristna menn. Hvernig þá?

5. (a) Hvað vill Jehóva að allir kristnir menn skilji? (b) Hvað gæti blundað í okkur þó að við þekkjum sannleikann?

5 Jehóva notaði Pétur til að hjálpa öllum kristnum mönnum að skilja að hann fer ekki í manngreinarálit. Í augum Jehóva skiptir kynþáttur, þjóðerni, þjóðflokkur og tungumál engu máli. Við njótum velþóknunar hans svo framarlega sem við óttumst hann og gerum það sem er rétt. (Gal. 3:26-28; Opinb. 7:9, 10) Þú ert eflaust sammála því. En hvað ef þú ólst upp í landi eða fjölskyldu þar sem fordómar voru algengir? Getur verið að innst inni blundi einhverjir fordómar, jafnvel þótt þú teljir þig vera óhlutdrægan? Meira að segja Pétur hafði enn fordóma þótt hann hefði áður leitt öðrum fyrir sjónir að Jehóva fer ekki í manngreinarálit. (Gal. 2:11-14) Hvernig getum við hlýtt fyrirmælum Jesú og hætt að dæma eftir útlitinu?

6. (a) Hvað getur hjálpað okkur að uppræta fordóma úr hjörtum okkar? (b) Hvað leiddi skýrsla bróðurins í ljós?

6 Við þurfum að líta í eigin barm og íhuga vandlega með hliðsjón af orði Guðs hvort við séum haldin einhverjum fordómum. (Sálm. 119:105) Við gætum líka spurt traustan vin hvort hann hafi tekið eftir einhverjum fordómum hjá okkur því að oft komum við ekki auga á þá sjálf. (Gal. 2:11, 14) Það getur verið að fordómar okkar séu svo rótgrónir að við tökum ekki eftir þeim. Tökum sem dæmi bróður nokkurn í ábyrgðarstöðu innan safnaðarins. Hann sendi deildarskrifstofunni skýrslu um dugleg hjón sem þjóna Jehóva í fullu  starfi. Eiginmaðurinn tilheyrir þjóðernisminnihluta sem er oft litið niður á. Svo virðist sem bróðirinn í ábyrgðarstöðunni hafi ekki gert sér grein fyrir að hann sjálfur væri með fordóma. Í skýrslunni hafði hann margt gott um eiginmanninn að segja. En hann bætti við: „Hann sýnir með líferni sínu og mannasiðum að þótt fólk sé [af þessu þjóðerni] þýðir það ekki endilega að það sé skítugt og lifi vesælu lífi eins og er dæmigert hjá mörgum [af því þjóðerni].“ Hvað lærum við af þessu? Sama hvaða hlutverk við höfum innan safnaðarins verðum við að líta í eigin barm og vera fús til að þiggja hjálp þannig að við getum komið auga á hvern einasta snefil af fordómum í hjörtum okkar. Hvað annað getum við gert?

7. Hvernig getum við sýnt að það sé rúmgott í hjörtum okkar?

7 Ef við látum verða rúmgott í hjörtum okkar víkja fordómar fyrir kærleika. (2. Kor. 6:11-13) Ertu vanur að eiga aðeins náinn félagsskap við fólk af eigin kynþætti, þjóðerni, þjóðflokki eða málhópi? Reyndu þá að breyta út af vananum. Hvernig væri að bjóða fólki af öðrum uppruna með þér í boðunina? Þú gætir líka boðið þeim í heimsókn, hvort sem það er matarboð eða eitthvað annað. (Post. 16:14, 15) Þannig fyllirðu hjarta þitt af svo miklum kærleika að það verður ekkert pláss fyrir fordóma. Skoðum nú annað svið þar sem okkur hættir til að dæma eftir útlitinu.

DÆMUM EKKI EFTIR FJÁRHAG

8. Hvernig getur fjárhagur fólks haft áhrif á viðhorf okkar til þess, samkvæmt því sem segir í 3. Mósebók 19:15?

8 Fjárhagur er annar þáttur sem getur haft áhrif á það hvernig við lítum á fólk. Í 3. Mósebók 19:15 segir: „Þú mátt hvorki mismuna hinum fátæka né vera vilhallur hinum ríka. Þú skalt dæma náunga þinn af réttlæti.“ (NW) En hvernig getur fjárhagur fólks haft áhrif á það hvernig við lítum á það?

9. Hvaða sorglegu staðreynd skrifaði Salómon og hvað lærum við af henni?

9 Heilagur andi knúði Salómon til að skrifa sorglega staðreynd um ófullkomna menn. Í Orðskviðunum 14:20 segir: „Fátæklingurinn verður jafnvel hvimleiður jafningja sínum en auðmaðurinn eignast fjölda vina.“ Hvað lærum við af þessum orðskviði? Ef við gætum okkar ekki förum við kannski að sækjast eftir vináttu efnaðra trúsystkina en sneiðum hjá þeim sem eru fátækari. Af hverju er svona hættulegt að meta aðra eftir efnislegum eigum þeirra?

10. Við hvaða vandamáli varaði Jakob?

10 Ef við dæmdum aðra eftir efnislegum eigum þeirra gætum við ýtt undir stéttaskiptingu í söfnuðinum. Þetta vandamál kom upp í sumum söfnuðum á fyrstu öld og lærisveinninn Jakob varaði kristna menn við því. (Lestu Jakobsbréfið 2:1-4.) Við þurfum að vera vel á verði svo að slíkur hugsunarháttur hafi ekki áhrif á söfnuðinn nú á dögum. Hvernig getum við forðast að dæma fólk eftir því sem það á?

11. Hafa efnislegar eigur áhrif á samband fólks við Jehóva? Skýrðu svarið.

11 Við þurfum að líta trúsystkini okkar sömu augum og Jehóva. Við erum ekki dýrmæt í augum hans vegna þess að við erum rík eða fátæk. Samband okkar við Jehóva hefur ekkert með það að gera hve mikið við eigum. Jesús sagði vissulega að ,torvelt yrði auðmanni  inn að ganga í himnaríki‘. En hann sagði ekki að það yrði ómögulegt. (Matt. 19:23) Jesús sagði líka: „Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.“ (Lúk. 6:20) Það þýðir þó ekki að allt fátækt fólk hafi hlustað á Jesú og hlotið sérstaka blessun. Margt fátækt fólk gaf boðskap hans engan gaum. Staðreyndin er sú að við getum ekki dæmt um það hve sterkt samband fólk á við Jehóva út frá efnislegum eigum þess.

12. Hvaða segir Biblían bæði ríkum og fátækum?

12 Meðal þjóna Jehóva eru bræður og systur sem eru rík og önnur sem eru fátæk. En þau elska Jehóva og þjóna honum af heilu hjarta. Biblían hvetur þau sem eru rík til að „treysta Guði“ en ekki „fallvöltum auði“. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.) Hún varar jafnframt alla þjóna Guðs, bæði ríka og fátæka, við því að elska peninga. (1. Tím. 6:9, 10) Þegar við lítum trúsystkini okkar sömu augum og Jehóva freistumst við ekki til að dæma þau eftir því sem þau eiga eða eiga ekki. En hvað með aldur fólks? Er í lagi að dæma fólk eftir því hvað það er gamalt? Lítum á málið.

DÆMUM EKKI EFTIR ALDRI

13. Hvað lærum við af Biblíunni varðandi það að sýna virðingu þeim sem eldri eru?

13 Í Biblíunni kemur oft fram að við eigum að sýna virðingu þeim sem eldri eru. Í 3. Mósebók 19:32 segir: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og virða öldunga. Þú skalt sýna Guði þínum lotningu.“ Í Orðskviðunum 16:31 kemur einnig fram að ,gráar hærur séu heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana‘. Auk þess sagði Páll Tímóteusi að ávíta ekki aldraðan mann harðlega heldur koma fram við hann eins og föður. (1. Tím. 5:1, 2) Tímóteus átti að sýna eldri bræðrum umhyggju og virðingu þó svo að hann hefði ákveðið vald yfir þeim.

14. Hvenær er viðeigandi að leiðrétta einhvern sem er eldri en við?

14 En á þetta alltaf við? Ættum við til dæmis að líta fram hjá því ef einhver sem er eldri en við syndgar af ásettu ráði eða hvetur til einhvers sem Jehóva mislíkar? Jehóva dæmir ekki eftir útlitinu og hann lokar ekki augunum fyrir synd af ásettu ráði bara af því að sá sem drýgði hana er kominn á efri ár. Tökum eftir því sem segir í Jesaja 65:20: „Syndarinn verður bölvaður, jafnvel þótt hann sé hundrað ára.“ (NW) Svipuð meginregla kemur fram í sýn Esekíels. (Esek. 9:5-7) Það skiptir sem sagt mestu máli að við sýnum virðingu Hinum aldna, Jehóva Guði. (Dan. 7:9, 10, 13, 14) Ef við gerum það erum við ekki hrædd við að leiðrétta þann sem þarf á því að halda, sama hversu gamall hann er. – Gal. 6:1.

Berð þú virðingu fyrir yngri bræðrum? (Sjá 15. grein.)

15. Hvað lærum við af Páli postula um það að sýna yngri bræðrum virðingu?

15 Hvað með yngri bræður í söfnuðinum? Hvernig líturðu á þá? Páll postuli skrifaði hinum unga Tímóteusi: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.“ (1. Tím. 4:12) Tímóteus var ef til vill um þrítugt þegar Páll skrifaði þetta. En Páll hafði falið honum mikla ábyrgð. Óháð því hvers vegna Páll gaf þessar leiðbeiningar eru skilaboðin skýr. Við megum ekki dæma yngri bræður eftir aldri þeirra.  Höfum hugfast að Jesús var aðeins 33 ára þegar hann lauk þjónustu sinni hér á jörð.

16, 17. (a) Hvernig meta öldungar hvort bróðir sé hæfur til að vera útnefndur safnaðarþjónn eða öldungur? (b) Hvernig gætu eigin skoðanir og viðhorf samfélagsins stangast á við það sem Biblían segir?

16 Sums staðar í heiminum ber fólk litla virðingu fyrir yngri mönnum. Ef því er þannig farið þar sem þú býrð má vera að sumir öldungar hiki við að mæla með því að yngri bræður séu útnefndir safnaðarþjónar eða öldungar, jafnvel þótt þeir uppfylli hæfniskröfurnar. Allir öldungar ættu að hafa í huga að Biblían setur engin aldurstakmörk fyrir því hvenær bræður geta orðið safnaðarþjónar eða öldungar. (1. Tím. 3:1-10, 12, 13; Tít. 1:5-9) Ef öldungur setur reglu byggða á mælikvarða samfélagsins breytir hann ekki í samræmi við Biblíuna. Öldungar ættu ekki að dæma yngri bræður eftir eigin skoðunum eða viðmiðum samfélagsins heldur meta þá eftir mælikvarða Guðs. – 2. Tím. 3:16, 17.

17 Þegar mælikvarða Biblíunnar er ekki fylgt getur það haldið aftur af hæfum bræðrum. Í einu landi var hæfum safnaðarþjóni falin mikil ábyrgð. Öldungar safnaðarins voru sammála um að bróðirinn uppfyllti hæfniskröfur Biblíunnar til öldunga en mæltu samt ekki með að hann yrði útnefndur. Nokkrir eldri öldungar sögðu að hann liti út fyrir að vera of ungur til að vera öldungur. Því miður var hann dæmdur eftir útlitinu og fyrir vikið var hann ekki útnefndur. Þetta er aðeins eitt dæmi en það virðist vera að sami hugsunarháttur sé algengur víða um heim. Það er ákaflega mikilvægt að við reiðum okkur á Biblíuna en ekki viðhorf samfélagsins eða eigin skoðanir. Það er eina leiðin til að hlýða Jesú og dæma ekki eftir útlitinu.

DÆMUM RÉTTLÁTA DÓMA

18, 19. Hvað þurfum við að gera til að líta aðra sömu augum og Jehóva?

18 Þó að við séum ófullkomin getum við lært að líta aðra sömu augum og Jehóva, án allra fordóma. (Post. 10:34, 35) En við verðum stöðugt að leggja okkur fram um að fara eftir leiðbeiningunum í orði hans. Þannig tekst okkur æ betur að fylgja fyrirmælum Jesú og dæma ekki aðra eftir útlitinu. – Jóh. 7:24.

19 Konungur okkar, Jesús Kristur, mun bráðum dæma allt mannkynið. Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá eða eyru hans heyra heldur með réttvísi. (Jes. 11:3, 4) Það verður dásamlegur tími.