ÉG ÁTTAÐI mig fyrst á því að ég hefði eitthvað verðmætt að gefa þegar ég var 12 ára gamall. Á móti einu spurði bróðir mig hvort ég vildi taka þátt í boðuninni. Þótt ég hefði aldrei boðað trúna áður svaraði ég því játandi. Við fórum saman á svæðið og hann gaf mér nokkra bæklinga um ríki Guðs. „Þú ferð til fólksins þarna megin við götuna og ég fer hérna megin,“ sagði hann. Taugaóstyrkur fór ég í hús eftir hús og mér til undrunar hafði ég fljótlega klárað alla bæklingana. Marga langaði greinilega í það sem ég hafði að gefa.

Ég fæddist árið 1923 í Chatham í Kent á Englandi og ólst upp í heimi fullum af vonsviknu fólki. Loforðið um að stríðið mikla myndi bæta heiminn rættist ekki. Foreldrar mínir voru líka vonsviknir út í presta baptistakirkjunnar, sem virtist aðallega vera umhugað um eigin frama. Móðir mín fór að sækja „kennslustundir“ eða samkomur hjá Alþjóðasamtökum biblíunemenda þegar ég var um níu ára. Fólkið, sem kom þar saman, hafði tekið sér nafnið Vottar Jehóva. Ein systranna þar veitti okkur börnunum kennslu byggða á Biblíunni og bókinni Harpa Guðs. Mér líkaði það sem ég lærði.

ÉG LÆRI AF ELDRI BRÆÐRUM

Ég naut þess þegar ég var unglingur að segja fólki frá voninni sem er að finna í orði Guðs. Þótt ég hafi oft farið einn hús úr húsi lærði ég líka af því að starfa með öðrum. Eitt sinn var ég að hjóla með eldri bróður á svæði þar sem við ætluðum að boða trúna. Við hjóluðum fram hjá presti og ég sagði: „Þarna var hafur á ferð.“ Bróðirinn stoppaði og bað mig um að setjast með sér á trjábol. Hann sagði: „Hver gaf þér vald til að dæma um hver sé hafur? Við skulum bara vera ánægðir með að flytja fólki fagnaðarerindið og láta Jehóva um að dæma.“ Ég lærði mikið um gleðina sem fylgir því að gefa á mínum yngri árum. – Matt. 25:31-33; Post. 20:35.

Stundum þurfum við að vera þolinmóð til að geta gefið með gleði, en það lærði ég af öðrum eldri bróður. Konunni hans líkaði ekki við Votta Jehóva. Eitt sinn bauð hann mér heim til sín í smá hressingu. Konan hans var svo reið yfir að hann hafði verið að boða trúna að hún fór að henda í okkur tepökkum. Í stað þess að ávíta hana setti hann rólegur tepakkana aftur á sinn stað. Mörgum árum síðar var honum launuð þolinmæðin þegar konan hans lét skírast sem vottur Jehóva.

 Löngun mín til að veita fólki von um framtíðina varð sífellt sterkari og í mars 1940 létum við móðir mín skírast í Dover. Bretland hafði lýst yfir stríði á hendur Þýskalandi í september 1939, en þá var ég 16 ára. Í júní 1940 horfði ég frá útidyrunum á þúsundir hermanna aka fram hjá húsinu okkar í vörubílum. Þeir höfðu lifað af orrustuna um Dunkerque en orðið fyrir miklu áfalli. Ég sá engan vonarglampa í augum þeirra og ég þráði að segja þeim frá ríki Guðs. Seinna um árið hófust sprengjuárásir á Bretland og á hverju kvöldi sá ég flugsveitir Þjóðverja fljúga yfir svæðið. Við heyrðum hvína í sprengjunum þegar þær féllu og óttinn magnaðist. Þegar við fórum út næsta morgun gátum við séð heilu hverfin í rúst. Ég áttaði mig betur og betur á því að ríki Guðs væri eina von mín fyrir framtíðina.

LÍFIÐ FER AÐ SNÚAST UM AÐ GEFA

Það var eiginlega árið 1941 sem lífið fór að snúast um það sem hefur gert mig svo hamingjusaman. Ég vann sem nemi í skipasmíðum hjá slippnum í Chatham, en það var eftirsóknarverð staða sem fylgdu mikil fríðindi. Þjónar Jehóva höfðu lengi vel vitað að kristnir menn eiga ekki að taka þátt í stríði þjóða í milli. Það var um 1941 sem okkur varð ljóst að við ættum ekki heldur að vinna við hergagnaiðnað. (Jóh. 18:36) Þar sem smíðaðir voru kafbátar í slippnum ákvað ég að hætta í vinnunni og byrja að þjóna Jehóva í fullu starfi. Fyrsta verkefnið mitt var í Cirencester, fögrum litlum bæ á Cotswoldssvæðinu.

Þegar ég varð 18 ára var ég sendur í fangelsi í níu mánuði vegna þess að ég neitaði að gegna herþjónustu. Það var hræðileg tilfinning þegar dyrunum að klefanum var lokað og læst í fyrsta sinn og ég sat einn eftir. En fljótlega fóru verðir og fangar að spyrja mig hvers vegna ég sæti inni og ég útskýrði glaður trú mína fyrir þeim.

Eftir að ég losnaði úr fangelsi var ég beðinn um að boða trúna með Leonard Smith * í ýmsum bæjum á heimasvæði okkar, Kent. Frá 1944 féllu yfir þúsund flugskeyti á Kent sem var einmitt á flugleiðinni frá yfirráðasvæði nasista í Evrópu til London. Þessar fljúgandi sprengjur voru kallaðar „doodlebugs“ (maurljón). Þetta vakti mikinn ótta meðal fólks því að ef maður heyrði hreyfilinn stöðvast, eins og við gerðum oft, var vitað mál að nokkrum sekúndum síðar félli flugskeytið til jarðar og spryngi. Við aðstoðuðum fimm manna fjölskyldu við biblíunám og stundum sátum við undir  stálborði sem var hannað til að vernda þau ef húsið skyldi hrynja. Með tímanum skírðust allir í fjölskyldunni.

ÉG BOÐA FAGNAÐARERINDIÐ Á ERLENDRI GRUND

Auglýsingaherferð fyrir mót á Írlandi stuttu eftir að ég hóf brautryðjandastarf.

Eftir stríðið starfaði ég sem brautryðjandi í tvö ár á sunnanverðu Írlandi. Við höfðum ekki áttað okkur á muninum á Írlandi og Englandi. Við fórum hús úr húsi í leit að húsnæði og sögðumst vera trúboðar og að við byðum blöðin okkar á götum úti. Hvílík vitleysa að gera það í svona kaþólsku landi! Þegar maður nokkur hótaði okkur ofbeldi lét ég lögreglumann vita, en hann svaraði: „Við hverju búist þið eiginlega?“ Við höfðum ekki gert okkur grein fyrir hve miklu valdi prestarnir bjuggu yfir. Þeir sáu til þess að fólk yrði rekið úr vinnunni ef það þæði bækurnar okkar og þeir komu því til leiðar að við misstum húsnæði okkar.

Okkur varð fljótt ljóst að þegar við komum á nýtt svæði var best að hjóla langt í burtu frá húsnæðinu okkar og boða trúna aðeins þeim sem höfðu ekki sama prest og þeir sem bjuggu nálægt okkur. Við enduðum síðan á að heimsækja fólkið í nágrenninu. Þrisvar í viku aðstoðuðum við ungan mann við biblíunám í Kilkenny þrátt fyrir hótanir frá ofbeldisfullum skríl. Ég naut þess svo mikið að kenna biblíusannindi að ég ákvað að sækja um kennslu fyrir trúboða í Biblíuskólanum Gíleað.

Seglskútan Sibia var trúboðsheimili okkar frá 1948 til 1953.

Eftir fimm mánaða nám í New York-ríki voru fjórir okkar sem útskrifuðust úr Gíleaðskólanum sendir til lítilla eyja í Karíbahafinu. Í nóvember 1948 lögðum við úr höfn frá New York-borg á 18 metra seglskútu sem hét Sibia. Mér fannst það spennandi því að ég hafði aldrei siglt áður. Einn okkar, Gust Maki, var reyndur skipstjóri. Hann kenndi okkur ýmis grundvallaratriði í sjómennsku eins og að hífa og lægja seglin, sigla eftir áttavita og sigla beitivind. Gust sigldi skútunni snilldarlega gegnum svæsin óveður þar til við náðum í höfn á Bahamaeyjum eftir 30 daga.

,KUNNGJÖRIÐ ÞAÐ Á EYJUM‘

Eftir að hafa boðað trúna í nokkra mánuði á smærri eyjum Bahamaeyja tókum við stefnuna á Hléborðaeyjar og Kulborðaeyjar, en þær teygja sig um 800 kílómetra frá Jómfrúreyjum við Púertó Ríkó, næstum alla leið til Trínidads. Um fimm ára skeið boðuðum við trúna aðallega á einangruðum eyjum þar sem engir vottar bjuggu. Stundum gátum við ekki sent eða tekið á móti pósti vikum saman. En hvílík gleði það var að boða orð Jehóva á þessum eyjum! – Jer. 31:10.

Trúboðarnir í áhöfn Sibiu (frá vinstri): Ron Parkin, Dick Ryde, Gust Maki og Stanley Carter.

Þegar við lögðumst við akkeri vakti koma okkar töluverða forvitni hjá heimamönnum og margir söfnuðust saman niðri á bryggju til að sjá hverjir við vorum. Sumir höfðu aldrei áður séð seglskútu eða hvítan mann. Eyjaskeggjar voru vingjarnlegt, trúað fólk sem þekkti Biblíuna vel. Þeir gáfu okkur oft ferskan fisk, lárperur og jarðhnetur. Það var ekki mikið pláss í litlu seglskútunni okkar til að sofa, elda og þvo þvott en við létum okkur það nægja.

Við rérum í land og heimsóttum fólk allan liðlangan daginn. Við sögðum því að flutt yrði ræða byggð á Biblíunni og við rökkur létum við svo gjalla í skipsbjöllunni. Það var dásamlegt að sjá íbúana þyrpast að. Olíulampar þeirra voru eins og glitrandi stjörnur á leið niður fjallshlíðarnar.  Stundum mættu um hundrað manns og þeir voru langt fram á kvöld að spyrja spurninga. Þeir höfðu yndi af að syngja svo að við vélrituðum texta nokkurra ríkissöngva og gáfum þeim. Við fjórmenningarnir sungum lögin sem best við gátum og þegar fólkið tók undir ómaði söngurinn fallega. Þetta voru yndislegir tímar!

Eftir námsstund gengu sumir biblíunemenda okkar með okkur til næstu fjölskyldu sem við ætluðum að heimsækja til að fá að vera með í þeirra biblíunámi líka. Eftir nokkrar vikur á einu svæði þurftum við að fara á annað. En oft báðum við þá sem sýndu mestan áhuga um að kenna öðrum biblíunemendum þar til við snerum aftur. Það var dásamlegt að sjá hve alvarlega sumir þeirra tóku þetta verkefni.

Nú eru margar þessara eyja orðnar vinsælir ferðamannastaðir en í þá daga voru þetta einangraðir staðir þar sem aðeins voru grænblá lón, sandstrendur og pálmatré. Yfirleitt sigldum við milli eyja að næturlagi. Höfrungar léku sér upp við bátinn og það eina sem við heyrðum var gjálfrið í sjónum þegar stafninn skar gárurnar. Tunglskinið glampaði á lygnum sjónum og myndaði silfurlitan borða sem teygði sig út að sjóndeildarhringnum.

Þegar við höfðum boðað trúna í fimm ár á eyjunum sigldum við til Púertó Ríkó til að skipta seglskútunni út fyrir vélknúinn bát. Þar hitti ég Maxine Boyd, fallega trúboðasystur sem ég varð ástfanginn af. Hún hafði verið ötull boðberi fagnaðarerindisins frá unga aldri. Hún hafði starfað sem trúboði í Dóminíska lýðveldinu þar til kaþólsk ríkisstjórnin vísaði henni úr landi árið 1950. Þar sem ég var skipverji gat ég aðeins fengið að vera í Púertó Ríkó í einn mánuð. Brátt myndi ég sigla aftur til eyjanna og vera í burtu í nokkur ár til viðbótar. Ég sagði því við sjálfan mig: „Ronald, ef þú vilt fá þessa stúlku verðurðu að gera eitthvað strax.“ Að þrem vikum liðnum bað ég hennar og eftir sex vikur vorum við gift. Við Maxine vorum beðin um að starfa sem trúboðar í Púertó Ríkó, þannig að ég lagði aldrei úr höfn á nýja bátnum.

Árið 1956 byrjuðum við að heimsækja söfnuði í farandstarfi. Mörg trúsystkina okkar voru fátæk en við höfðum yndi af að heimsækja þau. Í þorpinu Potala Pastillo voru tvær vottafjölskyldur sem áttu mörg börn, og ég var vanur að leika á flautu fyrir þau. Ég spurði Hildu, eina af litlu stúlkunum, hvort hún vildi boða trúna með okkur. Hún sagði: „Mig langar það en ég get það ekki. Ég á enga skó.“ Við gáfum henni skó og hún kom með okkur að boða trúna. Mörgum árum síðar, árið 1972, vorum við Maxine að heimsækja Betel í Brooklyn þegar systir, sem hafði nýverið útskrifast úr Gíleaðskólanum, kom til okkar. Hún átti að fara til Ekvador og var nú á leiðinni þangað. Hún sagði: „Þið þekkið mig ekki, er það? Ég er litla stúlkan frá Pastillo sem átti enga skó.“ Þetta var Hilda! Við grétum af gleði.

Árið 1960 vorum við beðin um að starfa á deildarskrifstofunni í Púertó Ríkó sem var í litlu tveggja hæða húsi í Santurce í San Juan. Í fyrstu unnum við Lennart Johnson mestalla vinnuna. Hann og konan hans voru fyrstu vottarnir í Dóminíska lýðveldinu og þau komu til Púertó Ríkó árið 1957. Seinna meir sá Maxine um að senda blöðin til þeirra sem voru með áskrift, en það voru meira en þúsund blöð á viku. Hún hafði ánægju af þessu starfi því að hún hugsaði til allra þeirra sem fengju andlega fæðu.

Ég hef unun af því að starfa á Betel því að þar fær maður að gefa mikið af sér. En það er ekki alltaf þrautalaust. Á fyrsta alþjóðamótinu í Púertó Ríkó árið 1967 fannst mér til dæmis ábyrgðin, sem ég hafði, yfirþyrmandi. Nathan Knorr, sem þá fór með forystuna í söfnuði Votta Jehóva, kom til Púertó Ríkó. Ég þurfti að sjá um að trúboðarnir, sem heimsóttu landið, kæmust ferða sinna og ég gerði það en hann hélt ranglega að ég hefði ekki gert það. Hann sagði að ég hefði valdið sér vonbrigðum og gaf mér beinskeytt ráð um að vera skipulagður. Ég vildi ekki þræta við hann en mér fannst ég ranglega dæmdur og var sár um nokkurn tíma. Næst þegar við Maxine hittum bróður Knorr bauð hann okkur engu að síður í mat inni á herberginu sínu.

 Þegar við bjuggum í Púertó Ríkó fórum við nokkrum sinnum til Englands til að heimsækja fjölskyldu mína. Faðir minn tók ekki við sannleikanum þegar við móðir mín gerðum það. En móðir mín bauð oft ræðumönnum frá Betel að gista á heimili okkar þegar þeir heimsóttu söfnuðinn. Faðir minn tók eftir hve auðmjúkir þessir umsjónarmenn á Betel voru, ólíkt prestunum sem hann hafði fengið andstyggð á mörgum árum áður. Árið 1962 skírðist hann loks sem vottur Jehóva.

Við Maxine í Púertó Ríkó stuttu eftir að við giftum okkur og á 50 ára brúðkaupsafmæli okkar árið 2003.

Maxine, elskuleg eiginkona mín, lést árið 2011. Ég hlakka mikið til að sjá hana aftur í upprisunni. Það er dásamleg tilhugsun! Á þeim 58 árum, sem við vorum saman, sáum við þjónum Jehóva í Púertó Ríkó fjölga úr 650 í 26.000. Árið 2013 sameinaðist deildarskrifstofan í Púertó Ríkó deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum og ég var beðinn að starfa í Wallkill í New York. Eftir að hafa búið í 60 ár á eyjunni fannst mér ég vera orðinn jafn mikill Púertó Ríkó-búi og coquí, vinsæli litli trjáfroskurinn í Púertó Ríkó sem syngur ko-kí, ko-kí þegar sólin gengur til viðar. En nú var tími til að sækja á önnur mið.

„GUÐ ELSKAR GLAÐAN GJAFARA“

Ég nýt þess enn þá að þjóna Guði á Betel. Nú er ég kominn yfir nírætt og verkefni mitt er að uppörva aðra í Betelfjölskyldunni sem andlegur hirðir. Mér er sagt að ég hafi heimsótt yfir 600 manns síðan ég kom til Wallkill. Sumir sem leita til mín vilja ræða persónuleg mál eða fjölskylduerfiðleika. Aðrir biðja um ráð til að gera Betelstarf sitt árangursríkt. Sumir eru nýgiftir og leita ráða um hjónaband. Og sumir hafa verið beðnir um að hætta á Betel og einbeita sér að boðuninni. Ég ljái öllum eyra sem leita til mín og þegar það á við segi ég þeim gjarnan: „,Guð elskar glaðan gjafara.‘ Vertu því ánægður í starfi þínu. Það er gert fyrir Jehóva.“ – 2. Kor. 9:7.

Til að vera ánægð á Betel þurfum við að gera það sama og annars staðar: Við þurfum að minna okkur á hvers vegna það sem við gerum er mikilvægt. Allt sem við gerum á Betel er heilög þjónusta. Það hjálpar ,trúa og hyggna þjóninum‘ að veita bræðrum og systrum hvarvetna um heiminn andlega fæðu. (Matt. 24:45) Við höfum tækifæri til að lofa Jehóva hvar sem við þjónum honum. Njótum þess að gera það sem hann biður okkur um því að „Guð elskar glaðan gjafara“.

^ gr. 13 Ævisaga Leonards Smiths birtist í Varðturninum 15. apríl 2012.