Finnst þér þú vera of upptekinn? Ef svo er ertu ekki einn um það. „Það virðast allir, alls staðar, vera uppteknir,“ segir í tímaritinu The Economist.

ÁRIÐ 2015 var gerð könnun í átta löndum meðal fólks í fullri vinnu. Margir þátttakendur sögðust eiga erfitt með að standa bæði undir kröfunum í vinnunni og heima fyrir. Ástæðurnar fyrir því voru meðal annars aukin ábyrgð í vinnunni eða heima, hærri útgjöld og lengri vinnutími. Í Bandaríkjunum vinna til dæmis starfsmenn í fullri vinnu að meðaltali 47 klukkustundir á viku. Næstum 1 af hverjum 5 segist vinna 60 klukkustundir eða meira.

Í annarri könnun, sem náði til 36 landa, sagði meira en fjórðungur þátttakenda að þeim fyndist þeir oft vera í tímaþröng jafnvel í frítíma sínum. Börn finna líka fyrir álagi ef þau eru með of þétta dagskrá.

Þegar við reynum stöðugt að áorka meiru en tíminn leyfir erum við undir tímapressu sem getur valdið streitu. En getum við haft betra jafnvægi? Hvaða áhrif hafa skoðanir okkar, ákvarðanir og markmið á það hvernig við verjum tímanum? Fyrst skulum við skoða fjórar ástæður fyrir því að sumir reyna að gera of mikið.

 LÖNGUN TIL AÐ SJÁ VEL FYRIR FJÖLSKYLDUNNI

„Ég vann alla daga vikunnar,“ segir faðir að nafni Gary. „Ég gerði það vegna þess að mig langaði alltaf að gefa börnunum mínum eitthvað nýtt og betra. Mig langaði að gefa þeim hluti sem ég fékk aldrei.“ Þrátt fyrir að foreldrar vilji börnum sínum það besta þurfa þeir að hugsa um hvernig þeir forgangsraða. Rannsóknir sýna að bæði fullorðnir og börn, sem hugsa mikið um peninga og efnislegar eigur, eru síður glöð og ánægð með lífið og ekki eins hraust líkamlega og þau sem hugsa minna um efnislega hluti.

Það gerir börn ekki hamingjusöm að alast upp við áherslu á efnislega hluti.

Sumir foreldrar ofbóka bæði tíma sinn og barnanna til að gefa börnunum aukna möguleika á velgengni í framtíðinni. Þó að þeir vilji vel eru þeir „eins og skemmtanastjórar á fjölskyldu- og skemmtiferðaskipi með yfirbókaðri dagskrá,“ segir í bókinni Putting Family First.

SÚ HUGSUN AÐ MEIRA SÉ BETRA

Auglýsendur reyna að sannfæra okkur um að við séum að fara á mis við eitthvað ef við kaupum ekki nýjustu vörur þeirra. Í The Economist segir að „gífurlegt framboð af hlutum hefur valdið því að fólk er í meiri tímaþröng að velja hvað eigi að kaupa, horfa á eða borða“ á þeim takmarkaða tíma sem það hefur til umráða.

Árið 1930 sagði þekktur hagfræðingur að tækniframfarir myndu auka frítíma starfsmanna. En það reyndist þveröfugt. Elizabeth Kolbert, blaðamaður hjá tímaritinu New Yorker, segir að „í stað þess að hætta [að vinna] snemma“ finnur fólk „eitthvað nýtt sem því finnst það vanta“. Og þessir hlutir kosta peninga og tíma.

TIL AÐ STANDAST VÆNTINGAR ANNARRA

Sumir starfsmenn vinna langa og stranga vinnudaga til að þóknast vinnuveitandanum. Samstarfsfélagar geta líka látið aðra fá samviskubit yfir að vinna ekki fram eftir. Ótryggt efnahagsástand getur einnig gert menn fúsa að vinna lengri daga eða vera alltaf til taks.

Eins geta foreldrar fundið fyrir þrýstingi til að laga sig að lífsvenjum annarra fjölskyldna sem eru á stanslausum hlaupum. Ef þeir gera það ekki getur þeim fundist að þeir séu að neita börnum sínum um eitthvað.

 EFTIRSÓKN Í VIRÐINGU OG LÍFSFYLLINGU

Tim, sem býr í Bandaríkjunum, segir: „Ég naut vinnunnar minnar og lagði mig allan fram öllum stundum. Mér fannst ég þurfa að sanna mig.“

Líkt og Tim finna margir fyrir sterkum tengslum milli sjálfsmyndarinnar og hvað þeir hafa mikið að gera. Hver er afleiðingin? „Það nýtur ákveðinnar virðingar í þjóðfélaginu að vera upptekinn,“ segir Elizabeth Kolbert, sem vitnað var í áður. Hún bætir við: „Því uppteknari sem maður er því mikilvægari virðist maður vera.“

FINNDU JAFNVÆGI

Í Biblíunni erum við hvött til að vera iðin og vinnusöm. (Orðskviðirnir 13:4) En hún hvetur einnig til jafnvægis. „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi,“ segir í Prédikaranum 4:6.

Að gæta jafnvægis er gott fyrir andlega og líkamlega heilsu okkar. En er hægt að hægja á ferðinni? Já. Við skulum skoða fjórar tillögur.

 SKOÐAÐU LÍFSGILDI ÞÍN OG MARKMIÐ

Það er eðlilegt að vilja visst fjárhagsöryggi. En hve miklir peningar eru nægir? Hvernig metur maður velgengni? Er hún eingöngu mæld í tekjum eða efnislegum eigum? Eins mótsagnakennt og það hljómar getur það líka valdið tímapressu að nota of mikinn tíma í hvíld eða afþreyingu.

Tim, sem vitnað var í áður, segir: „Við hjónin litum yfir farinn veg og ákváðum að einfalda líf okkar. Við skrifuðum niður á blað aðstæður okkar og ný markmið. Við ræddum um áhrif fyrri ákvarðana og hvað við þyrftum að gera til að ná markmiðum okkar.“

SPORNAÐU GEGN ÁHRIFUM FRÁ NEYSLUSAMFÉLAGINU

Biblían ráðleggur okkur að hafa stjórn á löngunum okkar í það „sem glepur augað“. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Auglýsingar geta ýtt undir slíkar langanir og orðið til þess að fólk vinnur lengri vinnudaga eða stundar afþreyingu í óhófi. Þú getur kannski ekki forðast allar auglýsingar en þú getur takmarkað áhrif þeirra á þig. Hugsaðu einnig vandlega um hvað þig vantar í raun og veru.

Vertu þar að auki vakandi fyrir þeim áhrifum sem vinir þínir hafa á þig. Ef þeir eru sólgnir í efnislega hluti eða meta velgengni í efnislegum eigum væri viturlegt að leita vina meðal þeirra sem hafa skynsamlegri forgangsröð. „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur,“ segir í Biblíunni. – Orðskviðirnir 13:20.

TAKMARKAÐU HVE MIKIÐ ÞÚ VINNUR

Talaðu við yfirmann þinn um vinnuna og það sem þú setur í forgang. Og ekki hafa samviskubit yfir að eiga þér líf utan vinnunnar. Í bókinni Work to Live segir: „Þeir sem setja  mörk á milli vinnunnar og einkalífsins eða taka sér frí frá vinnu komast allir að sömu niðurstöðu: Það kom enginn heimsendir á meðan þeir voru í burtu.“

Gary, sem vitnað var í áður, var fjárhagslega vel staddur svo að hann ákvað að minnka vinnunna. „Ég ræddi við fjölskylduna og stakk upp á að við myndum einfalda líf okkar,“ sagði hann. „Við unnum að því stig af stigi. Ég fór einnig til yfirmanns míns og bað um að fá að vinna færri daga í viku. Hann samþykkti það.“

LÁTTU FJÖLSKYLDUNA GANGA FYRIR

Hjón þurfa að verja tíma saman og börn þurfa að eiga tíma með foreldrum sínum. Forðastu því að reyna að vera á sama hraða og fjölskyldur sem eru á stanslausum hlaupum. „Taktu frá tíma til að slaka á,“ leggur Gary til, „og slepptu því sem skiptir minna máli.“

Þegar þið fjölskyldan eruð saman látið þá ekki sjónvarp, farsíma eða önnur tæki einangra ykkur hvert frá öðru. Borðið saman að minnsta kosti einu sinni á dag og notið þann tíma til að tala saman. Þegar foreldrar taka þetta einfalda ráð til sín líður börnum þeirra vel og þau standa sig betur í skóla.

Notið matartímana til að tala saman sem fjölskylda.

Að lokum skaltu spyrja þig hvernig þú viljir hafa líf þitt og fjölskyldu þinnar. Ef þú þráir meiri hamingju og innihaldsríkara líf nýttu þér þá viturleg ráð Biblíunnar til að ákveða hvað þú lætur ganga fyrir.