Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Vaknið!  |  Nr. 4 2017

Óflekkað mannorð ávinnur traust og virðingu.

„Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður“

„Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður“

MANNORÐ er svo mikils metið að í sumum löndum er það lögverndað. Það getur falið í sér vernd gegn meiðyrðum (niðrandi athugasemdum sem eru birtar opinberlega) og rógi (ósönnum illmælum). Þetta minnir á gamalt spakmæli: „Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull.“ (Orðskviðirnir 22:1) Hvernig getum við áunnið okkur gott mannorð og virðingu annarra? Í Biblíunni er að finna frábær ráð um það.

Hugleiddu til dæmis hvað Biblían segir í Sálmi 15. Sálmaritarinn spyr: „Hver fær að leita hælis í tjaldi [Guðs]?“ Hann svarar: „Sá sem ... ástundar réttlæti og talar sannleik af hjarta, sá sem ekki ber út róg ... gerir náunga sínum ekki illt og leiðir ekki skömm yfir nágranna sinn, sá sem fyrirlítur þann sem illa breytir ... sá sem heldur eiða sína þótt það sé honum til tjóns ... og þiggur ekki mútur.“ (Sálmur 15:1-5) Myndirðu ekki bera virðingu fyrir þeim sem fara eftir þessum góðu meginreglum?

Hógværð er annar eiginleiki sem stuðlar að virðingu. „Hógværð er undanfari sæmdar,“ segir í Orðskviðunum 15:33. Sá sem er hógvær kemur auga á hvar hann getur bætt sig og leggur hart að sér til að gera það. Hann er einnig fús til að biðjast afsökunar ef hann hefur móðgað einhvern. (Jakobsbréfið 3:2) Sá sem er hrokafullur móðgast aftur á móti auðveldlega. „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun,“ segja Orðskviðirnir 16:18.

En hvað ef einhver svertir mannorð þitt? Ættirðu að bregðast snöggt við í reiði? Spyrðu þig hvort þú dreifir lyginni enn frekar ef þú reynir að verja þig. Þó svo að það geti stundum verið viðeigandi að grípa til lagalegra aðgerða gefur Biblían þessi viturlegu ráð: „Vertu ... ekki of hvatur í málavafstur.“ (Orðskviðirnir 25:8) * Með því að taka yfirvegað á málunum gætirðu einnig sparað þér heilmikinn málskostnað.

Biblían er miklu meira en trúarrit. Hún er traustur leiðarvísir fyrir lífið. Allir sem fylgja viturlegum ráðum hennar temja sér eiginleika sem ávinna þeim virðingu og stuðla að óflekkuðu mannorði.

^ gr. 5 Fleiri ráð Biblíunnar um það hvernig hægt sé að leysa deilumál er að finna í Matteusi 5:23, 24; 18:15-17.