HVAÐ FELA ÞAU Í SÉR?

Til að samskipti foreldra og barna verði einlæg er nauðsynlegt að skiptast á að tala og hlusta.

HVERS VEGNA ERU SAMSKIPTI MIKILVÆG?

Samskipti við unglinga geta verið afar krefjandi. Ef til vill er stutt síðan „þér fannst þú hafa greiðan aðgang að því sem er að gerast á bak við tjöldin í lífi barna þinna,“ segir í bókinni Breaking the Code. „En núna þarftu kannski að sætta þig við sæti í áhorfendasalnum, og jafnvel ekki gott sæti.“ Þetta er einmitt tíminn sem börnin þurfa sem mest á samskiptum að halda, þótt það líti kannski ekki út fyrir það.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Vertu tilbúinn að hlusta hvenær sem er. Vertu það jafnvel þótt barnið þitt vilji tala seint að kvöldi.

„Þig langar kannski að segja: ,Viltu tala núna? Við vorum saman í allan dag!‘ En hvernig getum við kvartað þegar börnin okkar vilja tjá sig við okkur? Vilja ekki allir foreldrar einmitt það?“ – Lisa.

„Mér finnst gott að fara snemma að sofa en mörg af bestu samtölunum við unglingana mína hafa verið eftir miðnætti.“ – Herbert.

MEGINREGLA: „Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.

Láttu ekkert trufla þig. Faðir einn viðurkennir: „Ég er stundum að hugsa um eitthvað annað þegar börnin mín eru að tala. En ég blekki þau ekki, þau taka eftir því.“

Ef þetta á við um þig, slökktu þá á sjónvarpinu og leggðu frá þér öll tæki. Einbeittu þér að því sem barnið er að segja og láttu það finna að áhyggjur þess og vandamál skipti þig máli sama hversu smávægileg þau virðast.

„Við þurfum að fullvissa börnin okkar um að tilfinningar þeirra skipti okkur máli. Ef þau finna það ekki bæla þau niður tilfinningar sínar eða leita hjálpar annars staðar.“ – Maranda.

„Ekki bregðast of harkalega við, jafnvel þótt hugmyndir barnsins séu kolrangar.“ – Anthony.

MEGINREGLA: „Gætið ... að hvernig þið heyrið.“ – Lúkas 8:18.

Nýttu þér afslappaðar aðstæður. Stundum er erfitt fyrir börn að opna sig ef þau sitja augliti til auglitis við foreldra sína.

„Við nýtum okkur bílferðir. Að sitja hlið við hlið frekar en á móti hvort öðru hefur opnað leiðina að góðum samtölum.“ – Nicole.

Matartímar eru einnig gott tækifæri fyrir afslappaðar umræður.

„Við kvöldverðarborðið segjum við öll frá því versta og besta sem gerðist þann daginn. Þetta sameinar okkur og hjálpar okkur að muna að það er alltaf einhver til staðar til að hjálpa okkur að takast á við vandamál okkar.“ – Robin.

MEGINREGLA: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ – Jakobsbréfið 1:19.