Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 HAMINGJURÍK LÍFSSTEFNA

Von

Von

„Ég hef í hyggju ... fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ – Jeremía 29:11.

 „VONIN ER ... ÓMISSANDI ÞÁTTUR Í AÐ HALDA OKKUR ANDLEGA LIFANDI,“ segir í bókinni Hope in the Age of Anxiety. „Og hún er besta lækningin við umkomuleysi, ótta og einangrunarkennd.“

Í Biblíunni er talað um þörf okkar á að eiga von en hún varar okkur jafnframt við að ala með okkur falskar vonir. Í Sálmi 146:3 segir: „Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ Það er skynsamlegra að treysta á skaparann en að treysta mönnum til að bjarga okkur. Skaparinn hefur mátt til að efna loforð sín. Hverju hefur hann lofað? Hugleiddu eftirfarandi dæmi.

ILLSKAN TEKUR ENDA OG HINIR RÉTTLÁTU NJÓTA VARANLEGS FRIÐAR: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn ... En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi,“ segir í Sálmi 37:10, 11. Vers 29 bætir við að ,réttlátir fái að búa ævinlega‘ á jörðinni.

STYRJALDIR VERÐA STÖÐVAÐAR: „[Drottinn] stöðvar stríð til endimarka jarðar, brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir skildi í eldi.“ – Sálmur 46:9, 10.

SJÚKDÓMAR, ÞJÁNINGAR OG DAUÐI VERÐA EKKI FRAMAR TIL: „Tjaldbúð Guðs er meðal mannanna ... og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.

NÆGUR MATUR HANDA ÖLLUM: „Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.“ – Sálmur 72:16.

EIN RÉTTLÁT HEIMSSTJÓRN – STJÓRN JESÚ KRISTS: „[Jesú Kristi] var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.“ – Daníel 7:14.

Hvernig getum við verið viss um að þessi loforð rætist? Þegar Jesús var á jörð sýndi hann að hann er fær um að gegna þessu konungsembætti. Hann læknaði sjúka, gaf fátækum að borða og reisti látna til lífs. Síðast en ekki síst kenndi hann fólki meginreglur sem gera því kleift að búa saman að eilífu í friði og einingu. Jesús spáði þar að auki um framtíðina, meðal annars sagði hann hvaða atburðir ættu að einkenna síðustu daga núverandi heimskerfis.

STORMURINN Á UNDAN LOGNINU

Jesús sagði ekki að síðustu dagar myndu einkennast af friði og öryggi heldur algerri andstæðu þess. Í margþættu tákni um að „veröldin [væri] að líða undir lok“ nefndi hann stríð á alþjóðavettvangi, hungur, drepsóttir og mikla jarðskjálfta. (Matteus 24:3, 7; Lúkas 21:10, 11; Opinberunarbókin 6:3-8) Jesús sagði einnig: „Vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna.“ – Matteus 24:12.

Annar biblíuritari benti á að þessi kólnandi kærleikur sé sjáanlegur á mörgum sviðum. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 kemur fram að á „síðustu dögum“ yrði fólk almennt upptekið af sjálfu sér, peningum og skemmtunum. Það yrði hrokafullt og grimmt. Skorta myndi eðlilegan kærleika innan fjölskyldunnar og börn yrðu óhlýðin foreldrum sínum. Trúarleg hræsni yrði mjög algeng.

Þessar aðstæður, sem líkja má við storm, sýna að þetta heimskerfi er að líða undir lok. Þær staðfesta þar að auki að sú kyrrð og ró sem fylgir stjórn Krists er á næsta leiti. Jesús fullvissaði okkur um það þegar hann sagði um síðustu daga: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ – Matteus 24:14.

Þetta fagnaðarerindi um ríkið er viðvörun til ranglátra og von fyrir réttláta og fullvissar þá síðarnefndu um að blessanir Guðsríkis verði brátt að veruleika. Langar þig að vita meira um þessar blessanir? Þá hvetjum við þig til að skoða baksíðu þessa blaðs.