Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 HAMINGJURÍK LÍFSSTEFNA

Líkamleg heilsa og þrautseigja

Líkamleg heilsa og þrautseigja

LANGVINNIR SJÚKDÓMAR EÐA FÖTLUN GETA HAFT MIKIL ÁHRIF Á LÍFSGÆÐIN. Maður að nafni Ulf, sem var hraustur og athafnasamur áður en hann lamaðist, segir: „Ég sökk niður í alvarlegt þunglyndi. Ég missti líkamlegan styrk en einnig allan kjark ... Ég var algerlega eyðilagður.“

Reynsla hans minnir okkur á að ekkert okkar hefur fulla stjórn á eigin heilsu. Við getum þó gert ýmislegt til að auka líkurnar á að halda heilsunni. En erum við dæmd til að verða óhamingjusöm ef við missum heilsuna? Svo þarf alls ekki að vera eins og dæmin síðar í greininni sýna. En skoðum fyrst nokkrar meginreglur sem stuðla að góðri heilsu.

VERTU „BINDINDISSAMUR“. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 11) Það er að sjálfsögðu slæmt fyrir heilsuna að borða og drekka í óhófi. Auk þess er það kostnaðarsamt. „Vertu ekki með drykkjurútum eða þeim sem háma í sig kjöt því að drykkjumenn og mathákar verða snauðir.“ – Orðskviðirnir 23:20, 21.

SAURGAÐU EKKI LÍKAMANN. „Hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál.“ (2. Korintubréf 7:1) Þegar fólk reykir eða tyggur tóbak, drekkur í óhófi eða neytir fíkniefna óhreinkar það líkamann. Sóttvarna- og forvarnamiðstöðvar Bandaríkjanna segja að reykingar leiði til dæmis til „sjúkdóma og fötlunar og skaði nánast öll líffæri líkamans“.

LÍTTU Á LÍKAMANN OG LÍFIÐ SEM VERÐMÆTAR GJAFIR. „Í [Guði] lifum, hrærumst og erum við.“ (Postulasagan 17:28) Ef við erum þakklát fyrir lífið setjum við okkur ekki í hættu að óþörfu – hvorki í vinnunni, við akstur né þegar við veljum okkur afþreyingu. Augnabliksánægja er ekki þess virði að hætta lífi og limum.

HAFÐU HEMIL Á NEIKVÆÐUM TILFINNINGUM. Náin tengsl eru á milli hugar og líkama. Reyndu því að forðast óhóflegar áhyggjur, stjórnlausa reiði, öfund og aðrar skaðlegar tilfinningar. Í Sálmi 37:8 stendur: „Lát af reiði, slepp heiftinni.“ Biblían segir einnig: „Hafið ... ekki áhyggjur af morgundeginum.  Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ – Matteus 6:34.

REYNDU AÐ VERA JÁKVÆÐUR. í Orðskviðunum 14:30 segir: „Hugarró er líkamanum líf.“ Biblían segir einnig: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót.“ (Orðskviðirnir 17:22) Þetta eru viðurkenndar staðreyndir. Læknir í Skotlandi segir: „Þeir sem eru hamingjusamir eru líklegri til að halda heilsunni en þeir sem eru óhamingjusamir.“

ÞROSKAÐU MEÐ ÞÉR ÞRAUTSEIGJU. Líkt og Ulf, sem var nefndur fyrr í greininni, eigum við stundum ekki um neitt annað að velja en að þola langvarandi erfiðleika. En við getum ákveðið hvernig við tökumst á við þá. Sumir láta vonbrigði yfirbuga sig en það gerir bara illt verra. „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill,“ segir í Orðskviðunum 24:10.

Aðrir jafna sig fljótt þó að þeir fyllist örvæntingu til að byrja með. Þeir laga sig að breyttum aðstæðum og læra að takast á við þær. Ulf gerði það. Hann segist hafa „farið að sjá möguleikana frekar en hindranirnar“ í eigin lífi eftir að hafa beðið oft og innilega til Guðs og hugleitt jákvæðan boðskap Biblíunnar. Eins og margir sem þola miklar raunir lærði hann hve mikilvægt er að sýna öðrum samúð og hluttekningu. Það hvatti hann til að hjálpa öðrum að kynnast hughreystandi boðskap Biblíunnar.

Steve gekk einnig í gegnum mikla erfiðleika. Hann lenti í slysi þegar hann var 15 ára og lamaðist upp að hálsi. Átján ára gamall var hann farinn að geta notað handleggina aftur. Þá fór hann í háskóla og þar byrjaði hann fljótlega að neyta eiturlyfja, drekka og lifa siðlausu lífi. Hann sá enga framtíð fyrir sér – ekki fyrr en hann byrjaði að kynna sér Biblíuna. Það gaf honum nýja sýn á lífið og hjálpaði honum að sigrast á slæmum siðum sem hann hafði tamið sér. „Tómleikinn, sem ég hafði fundið fyrir svo lengi, var horfinn,“ segir hann. „Núna er ég glaður, hef öðlast hugarró og líf mitt er hamingjuríkt.“

Það sem Steve og Ulf segja minnir okkur á Sálm 19:8, 9: „Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina ... Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.“