Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Brosið þitt gleður aðra

Brosið þitt gleður aðra

HVERNIG bregstu við þegar einhver brosir glaðlega til þín? Þú brosir sennilega á móti. Og það gleður þig eflaust. Já, einlægt bros er smitandi og vekur jákvæðar tilfinningar hvort sem það er frá vinum þínum eða ókunnugu fólki. Kona að nafni Magdalena segir: „Georg, maðurinn minn heitinn, var með svo hlýlegt bros. Þegar við horfðumst í augu fann ég til öryggis.“

Vingjarnlegt bros er merki um jákvæðar tilfinningar, að maður sé glaður, hamingjusamur og líði vel. „Að brosa ... virðist okkur eðlislægt,“ segir í grein í veftímaritinu Observer sem er gefið út af samtökunum Association for Psychological Science. Greinin bendir á að jafnvel nýfædd börn geti „lesið í svipbrigði fólks af mikilli nákvæmni“. Greinin segir enn fremur: „Fólk fær ekki einungis upplýsingar af því að horfa á bros annarra heldur hafa upplýsingarnar áhrif á hegðun þess.“

Vísindamenn við Harvardháskóla í Bandaríkjunum rannsökuðu viðbrögð aldraðra við svipbrigðum hjúkrunarfólks sem annaðist það. Þeir komust að því að þegar svipbrigði starfsfólksins voru „álitin hlýleg, umhyggjusöm, samúðarfull og hluttekningarsöm“, voru sjúklingarnir ánægðari og það hafði góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra. Þessu  var öfugt farið þegar svipbrigði hjúkrunarfólksins lýstu áhugaleysi.

Þú gerir sjálfum þér gott með því að brosa. Rannsóknir benda til þess að gagnið af því að brosa sé meðal annars aukið sjálfstraust og gleði ásamt því að streita minnkar. Að vera með fýlusvip hefur þveröfug áhrif.

BROS „GAF MÉR AUKIÐ ÞREK“

Magdalena, sem minnst var á fyrr í greininni, var vottur Jehóva í Þýskalandi í síðari heimsstyrjöldinni. Hún var send í fangabúðirnar í Ravensbrück ásamt fleirum úr fjölskyldu sinni vegna þess að hún neitaði að styðja hugmyndafræði nasista. „Stundum bönnuðu fangaverðirnir okkur að tala,“ sagði hún. „En þeir gátu ekki stjórnað svipbrigðum okkar. Það eitt að sjá systur mína og móður brosa gaf mér aukið þrek og styrkti mig til að halda út.“

Kannski finnst þér að áhyggjur lífsins gefi þér litla ástæðu til að brosa. En mundu að á undan tilfinningu kemur hugsun. (Orðskviðirnir 15:15, Biblían 1981; Filippíbréfið 4:8, 9) Með það í huga skaltu reyna eftir fremsta megni að temja þér að hugsa jákvætt. * Bæn og biblíulestur hafa hjálpað mörgum að gera það. (Lúkas 11:28; Filippíbréfið 4:6, 7) Orðin „sælir“ og „gleði“ koma fyrir í einhverri mynd nokkur hundruð sinnum í Biblíunni. Væri ekki ráð að lesa eina eða tvær blaðsíður í Biblíunni á dag? Kannski fær það þig til að brosa enn oftar.

Þú ættir ekki heldur að bíða eftir að aðrir brosi til þín. Taktu frumkvæðið og lýstu upp dag einhvers annars. Sjáðu bros þitt í réttu ljósi – það er guðsgjöf sem bætir líf þitt og þeirra sem þú brosir til.

^ gr. 8 Sjá greinina „Ert þú ,sífellt í veislu‘?“ í Vaknið! janúar-febrúar 2014.