Evrópubúar voru áður fyrr þekktir fyrir að vera mjög trúaðir en eru nú upp til hópa veraldlega þenkjandi. Það kann að koma þér á óvart hvernig nýlegar fréttir innan Evrópu tengjast samt sem áður Biblíunni.

Rödd móðurinnar hefur áhrif

Vísindamenn í Mílanó á Ítalíu komust að því að fyrirburar brögguðust á ýmsan hátt betur en ella þegar þeir fengu að heyra í rödd móður sinnar gegnum tæki sem þeir voru látnir vera með á úlnliðnum meðan þeir voru enn á spítalanum. Með þessari tækni er reynt að líkja eftir því hvernig barnið skynjaði rödd móður sinnar meðan það var enn í móðurkviði. „Það hefur góð áhrif á börn fædd fyrir tímann að heyra móðurröddina snemma,“ segir í niðurstöðu rannsóknarinnar.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN? „Ég hef róað og sefað sál mína. Eins og lítið barn við brjóst móður sinnar, svo er sál mín í mér.“ – Sálmur 131:2.

ER SJÁLFSDÝRKUN ALIN UPP Í BÖRNUM?

Börn eru almennt sjálfselskari og telja sig yfir aðra hafin ef þau eiga foreldra sem telja þau „fremri öðrum börnum“ og eiga skilið „sérstaka meðhöndlun“. Þetta er niðurstaða hollenskrar rannsóknar á 565 börnum. „Börn trúa því þegar foreldrarnir segja þeim að þau séu öðrum fremri,“ segir einn rannsakenda og bætir við: „Það er kannski ekki gott fyrir þau sjálf eða þjóðfélagið.“

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN? „Ég [segi] ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi.“ – Rómverjabréfið 12:3.

LÍFSGLAÐIR ÖLDUNGAR

Að sögn rannsakenda við Heidelberg-háskóla í Þýskalandi eru þeir sem hafa náð 100 ára aldri enn með sterka lífslöngun þrátt fyrir veikindi og líkamlegar takmarkanir. Þrír af hverjum fjórum þeirra sem rætt var við höfðu sterkan lífsvilja og reyndu að fá sem mest út úr lífinu. Þeir settu sér markmið, voru jákvæðir og vongóðir, fannst lífið hafa tilgang og héldu í trú sína og siðferðisgildi.

TIL UMHUGSUNAR: Hvað ályktun má draga af Prédikaranum 3:11 um lífslöngun mannsins?