„Ég missti nánast alla sjón við fæðingu þegar of sterkir augndropar voru settir í augun á mér. Á unglingsárunum missti ég sjónina alveg og varð alvarlega þunglynd.“ – Paqui, kona á miðjum aldri. Hún er gift manni sem einnig er blindur.

BLINDA eða alvarleg sjónskerðing getur komið af ýmsum völdum, meðal annars vegna slysa eða sjúkdóma sem skaða augun, sjóntaugarnar eða heilann. Fólk sem missir sjónina fer oft í afneitun og finnur fyrir sorg og kvíða. En margir lifa þó innihaldsríku lífi þrátt fyrir sjónleysið.

Við fáum megnið af upplýsingum um umhverfi okkar í gegnum sjónina. Þegar einhver missir sjónina þarf hann því að treysta meira á önnur skilningarvit eins og heyrn, lyktarskyn, snertingu og bragðskyn.

Í tímaritinu Scientific American kemur fram að rannsóknir á sveigjanleika heilans benda til þess að hann búi yfir hæfni „til að breyta sér eftir aðstæðum“. Greinin bætir við: „Margar rannsóknir sýna að heili, sem fær ekki boð frá einu skynfæri, eykur næmni annarra skynfæra.“ Hugleiddu eftirfarandi.

Heyrn: Við búum til mynd í huganum þegar við heyrum fótatak eða raddir. „Ég hef lært að þekkja fólk af göngulaginu eða röddinni,“ segir Fernando sem er blindur. Juan, sem einnig er blindur, segir: „Blindur einstaklingur þekkir fólk á röddinni.“ Við tökum öll eftir hljómfalli í röddum fólks og getum skynjað tilfinningar og líðan þess sem talar. Sá sem er blindur tekur jafnvel enn betur eftir slíku.

Hljóð geta gefið þrautþjálfuðu eyra hins blinda heilmikið af upplýsingum varðandi umhverfið, til dæmis úr hvaða átt bílar koma, stærð á herbergi eða hvar hindranir eru á veginum.

Lyktarskyn: Lykt getur sagt okkur miklu meira en bara hverju við finnum lyktina af. Blind manneskja notar lyktarskynið til að búa til kort í huganum af leið sem hún er vön að ganga. Hún leggur á minnið lyktina  af kaffihúsum, veitingastöðum, verslunum og ýmsu öðru. Snertiskynið og kunnugleg hljóð hjálpa einnig til við að gera kortið nákvæmara.

Snertiskyn: „Ég sé með fingrunum,“ segir Francisco. Hægt er að stækka þetta „sjónsvið“ með því að nota blindrastaf. Manasés fæddist blindur og lærði að nota blindrastaf þegar hann var barn. Hann segir: „Ég nota önnur skilningarvit, minnið og munstrið í gangstéttinni, sem ég finn með stafnum mínum, til að vita nákvæmlega hvar ég er staddur.“

Tímaritið Varðturninn lesinn á blindraletri.

Margir blindir nota snertiskynið til að lesa rit á blindraletri. Núna geta blindir notað ýmsar aðferðir til að auðga andann og styrkja trú sína. Auk rita á blindraletri er hægt að hlusta á hljóðupptökur og nýta sér tölvutæknina. Þannig geta blindir lesið Biblíuna og ýmis biblíunámsrit. *

Þessi hjálpargögn til bilíunáms hafa veitt Paqui og manni hennar, en minnst  var á þau í byrjun greinarinnar, ómetanlega huggun og von. Í söfnuði Votta Jehóva þar sem þau búa hafa þau þar að auki eignast stóra andlega fjölskyldu sem hefur veitt þeim mikinn stuðning. „Núna er líf okkar innihaldsríkt og við erum að mestu leyti sjálfbjarga,“ segir Paqui.

Það er auðvitað töluverð áskorun að vera blindur. En það ber svo sannarlega vitni um aðlögunarhæfni og þrautseigju mannsins þegar fólk lætur ekki þessa erfiðleika stöðva sig heldur nýtur lífsins.

^ gr. 10 Vottar Jehóva gefa út biblíunámsrit á blindraletri á meira en 25 tungumálum.