Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að rúmlega 198 milljónir manna hafi verið sýktar af malaríu árið 2013. Talið er að 584.000 manns hafi dáið af hennar völdum það ár. Næstum 4 af hverjum 5 þeirra voru börn undir fimm ára aldri. Sjúkdómurinn ógnar lífi og heilsu fólks í um það bil hundrað löndum og landsvæðum í heiminum. Um 3,2 milljarðar manna eru í hættu.

1 HVAÐ ER MALARÍA?

Malaría orsakast af sníkjudýrum. Einkennin eru meðal annars hitaköst, kuldahrollur, svitaköst, höfuðverkur, beinverkir, ógleði og uppköst. Einkennin ganga stundum í bylgjum og endurtaka sig á tveggja til þriggja sólarhringa fresti eftir því hvaða sníkjudýr er um að ræða og hve lengi manneskjan hefur verið sýkt.

2 HVERNIG SMITAST MALARÍA?

 1.  Sníkjudýrin, sem valda malaríu, eru frumdýr af ættinni Plasmodium og berast inn í blóðrás mannsins með biti moskítóflugunnar Anopheles.

 2.  Sníkjudýrin setjast fyrst að í lifrarfrumum og fjölga sér þar.

 3.  Sýktar lifrarfrumur springa að lokum og sníkjudýrin berast út í blóðrásina, sýkja rauð blóðkorn og halda áfram að fjölga sér.

 4.  Að síðustu springa sýktu rauðkornin og sníkjudýrin sýkja enn fleiri rauðkorn.

 5.  Þessi hringrás heldur áfram í rauðu blóðkornunum og sjúkdómseinkennin koma fram í hvert sinn sem rauðkornin springa.

 3 HVERNIG ER HÆGT AÐ VERJA SIG?

Ef þú dvelur í landi þar sem malaría er landlæg:

 • Sofðu undir flugnaneti. Gerðu eftirfarandi:

  • Notaðu net með flugnaeitri.

  • Gættu þess að hvergi séu göt eða rifur á netinu.

  • Festu netið rækilega undir rúmdýnunni.

 • Úðaðu flugnaeitri í húsnæðinu þar sem þú dvelur.

 • Settu flugnanet í glugga og dyr ef þú hefur tök á, og notaðu loftkælingu og viftur sem geta dregið úr hættunni á að moskítóflugur setjist.

 • Vertu í ljósum fötum sem hylja líkamann vel.

 • Ef þú getur skaltu forðast kjarrivaxin svæði þar sem moskítóflugur safnast í sveimi og kyrrstætt vatn þar sem þær tímgast.

 • Leitaðu strax til læknis ef þú smitast.

Ef þú ætlar að heimsækja land þar sem malaría er landlæg:

 • Aflaðu þér nýjustu upplýsinga áður en þú leggur af stað. Það getur verið breytilegt eftir svæðum hvaða tegund malaríu er algengust og það ræður því hvaða lyf eru áhrifaríkust á hverjum stað. Það er líka ráðlegt að spyrja lækni að hverju þú þurfir helst að gæta miðað við heilsufarssögu þína.

 • Meðan á heimsókninni stendur skaltu fylgja leiðbeiningunum hér að ofan handa þeim sem dvelja í landi þar sem malaría er landlæg.

 • Leitaðu strax til læknis ef þú smitast. Hafðu hugfast að það geta liðið ein til fjórar vikur frá smiti þangað til sjúkdómseinkennin gera vart við sig.