Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ

Að styrkja hjónabandið

Að styrkja hjónabandið

VANDINN

Þegar þú giftir þig strengdirðu heit. Þú gafst ævilangt loforð um að standa með maka þínum og leysa þau vandamál sem kynnu að koma upp.

Með árunum hafa árekstrar innan hjónabandsins þó kostað sitt. Ertu jafn staðráðinn og áður í að halda heitið sem þú gafst maka þínum?

ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA

Skuldbinding er eins og akkeri sem gerir hjónabandið stöðugt.

Skuldbinding er lausn en ekki vandamál. Nú til dags óttast margir að skuldbinda sig. Sumir líkja hjónabandinu við hlekki sem binda þá við ranga ákvörðun. Hugsaðu frekar um skuldbindinguna sem akkeri sem gerir hjónabandið stöðugt. Gift kona, sem heitir Megan, segir: „Það besta við skuldbindinguna er það öryggi sem hún veitir manni. Við ætlum ekki að yfirgefa hvort annað, jafnvel þegar okkur greinir á.“ * Ef þú treystir því að hjónabandið sé öruggt hefurðu fótfestu til að leysa vandamálin, jafnvel þegar veikleikar koma í ljós. – Sjá rammann „ Tryggð og skuldbinding“.

Niðurstaðan: Þegar erfiðleikar koma upp í hjónabandinu er áríðandi að styrkja það í stað þess að veikja það með efasemdum. Hvernig ferðu að því?

 HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Viðhorf þitt. Hvaða tilfinning vaknar þegar þú heyrir „saman að eilífu“? Finnurðu til öryggis eða líður þér eins og þú sért fastur í gildru? Er hjónaskilnaður alltaf inni í myndinni þegar vandamál koma upp? Til að styrkja hjónabandið er nauðsynlegt að líta á það sem varanlega skuldbindingu. – Meginregla: Matteus 19:6.

Bakgrunnur þinn. Fordæmi foreldra þinna hefur hugsanlega haft áhrif á viðhorf þitt til hjónabands. Lea, sem er gift kona, segir: „Foreldrar mínir skildu þegar ég var ung og ég óttast að það hafi gefið mér neikvætt viðhorf til hjónabandsins.“ Þú ert ekki dæmdur til að fara að fordæmi foreldra þinna. Þú getur gert betur í þínu hjónabandi. – Meginregla: Galatabréfið 6:4, 5.

Hvernig þú talar. Þegar þið hjónin eigið í deilum skaltu ekki segja eitthvað sem þú sérð eftir síðar, eins og: „Ég ætla að fara frá þér!“ eða „Ég ætla finna einhvern sem kann að meta mig.“ Yfirlýsingar eins og þessar grafa undan hjónabandinu og í stað þess að leysa deilurnar ýta þær undir áframhaldandi erjur. Frekar en að nota særandi orð gætirðu sagt eitthvað á þessa leið: „Við erum augljóslega bæði í uppnámi. Hvernig getum við unnið saman að því að leysa vandann?“ – Meginregla: Orðskviðirnir 12:18.

Gefðu skýrt til kynna að þú ert í hjónabandi. Hafðu mynd af maka þínum á skrifborðinu í vinnunni. Talaðu vel um hjónaband þitt. Settu þér það markmið að hringja í maka þinn á hverjum degi þegar þú ert að heiman. Í samræðum skaltu venja þig á að segja „við“ eða „við hjónin“. Með þessu undirstrikarðu fyrir sjálfum þér og öðrum að þú ert skuldbundinn maka þínum.

Finndu þér góðar fyrirmyndir. Leitaðu til þroskaðra hjóna sem hefur tekist að halda hjónabandinu sterku. Spyrðu þau: „Hvernig lítið þið á skuldbindingu ykkar og hvernig hefur það hjálpað í ykkar hjónabandi?“ Í Biblíunni segir: „Járn brýnir járn og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Þessi meginregla er okkur hvatning til þess að notfæra okkur góð ráð þeirra sem hefur vegnað vel í hjónabandi sínu.

^ gr. 7 Samkvæmt Biblíunni má giftur einstaklingur rjúfa hjónasáttmálann ef makinn er ótrúr. Sjá greinina „Sjónarmið Biblíunnar – framhjáhald“ í þessu blaði.