SPÁNVERJAR heimsóttu þetta landsvæði fyrst fyrir um fimm öldum. Þeir nefndu landið Kostaríku (Ríka ströndin), þar sem þeir bjuggust við að finna gull í miklu magni. Sú leit bar engan árangur. Í dag er landið ekki þekkt fyrir verðmæta málma heldur fyrir eitt fjölskrúðugasta lífríki jarðar.

Kostaríkubúar eru kallaðir Ticos, vegna þess að þeir eru vanir að skeyta smækkunarendingunni „-ico“ aftan við orð. Í stað þess að segja „un momento“ (augnablik) segja þeir oft „un momentico“ (smá augnablik). Í daglegu tali nota þeir gjarnan „¡pura vida!“ (sanna lífið!) til að lýsa velþóknun, samþykki eða sem kveðju.

Í skógum Kostaríku er að finna fjölbreytilegt plöntu- og dýralíf, til dæmis þennan rauðeygða trjáfrosk (Agalychnis callidryas).

Einn þekktasti réttur Kostaríku er gallo pinto (sem þýðir bókstaflega „blettóttur hani“). Hrísgrjón og baunir eru elduð hvort í sínu lagi og síðan saman ásamt kryddum. Gallo pinto má borða í öll mál. Café  chorreado er vinsæll kaffidrykkur. Hellt er upp á kaffið í gegnum tausíu sem fest er á stand, gjarnan úr viði.

Það eru um 450 söfnuðir Votta Jehóva í Kostaríku. Samkomurnar eru haldnar á tíu tungumálum, þeirra á meðal kostarísku táknmáli og tveimur tungumálum innfæddra – bribri og cabecar.

VISSIR ÞÚ? Úthöggnar steinkúlur í hundraðatali hafa fundist í Kostaríku. Sú stærsta er 2,4 metrar í þvermál. Sumar eru taldar yfir 1.400 ára gamlar. Enginn veit með vissu hvers vegna þær voru gerðar.

Steinkúlur.