Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐTAL | STEPHEN TAYLOR

Prófessor í reikningsskilum og endurskoðun skýrir frá trú sinni

Prófessor í reikningsskilum og endurskoðun skýrir frá trú sinni

Prófessor Stephen Taylor kennir og stundar rannsóknir við Tækniháskólann í Sydney í Ástralíu. Hann rannsakar fjármálamarkaði og leiðir til að hafa gott eftirlit með þeim. Vaknið! spurði hann hvernig rannsóknir hans hafi haft áhrif á trúarskoðanir hans.

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér.

Foreldrar mínir voru kirkjuræknir, heiðarlegir og vinnusamir. Þau hvöttu mig til að afla mér góðrar menntunar þannig að ég stundaði nám í viðskiptafræði við Háskólann í Nýja-Suður-Wales. Ég komst að raun um að ég hafði ánægju af rannsóknum og ákvað að leggja fræðastörf fyrir mig.

Hvað rannsakaðir þú helst?

Ég hafði sérstakan áhuga á að skilja hvernig hlutabréfamarkaðir virka. Þessir markaðir gera fólki kleift að kaupa og selja hlutabréf í fyrirtækjum sem nota síðan féð til að fjármagna starfsemi sína. Meðal annars rannsaka ég þætti sem hafa áhrif á verð hlutabréfa.

Getur þú lýst þessu með dæmi?

Ætlast er til að fyrirtæki gefi upp hagnaðartölur með reglulegu millibili. Fjárfestar skoða þessar tölur til að reyna að glöggva sig á fjárhagsstöðu fyrirtækis. En aðferðir til að mæla hagnað eru ekki staðlaðar að öllu leyti. Gagnrýnendur benda stundum á að þetta séu gloppur í kerfinu sem geri fyrirtækjum kleift að fela raunverulegt verðmæti sitt eða arðsemi. Hvernig geta fjárfestar fengið nákvæmar og heildstæðar upplýsingar? Hvaða upplýsingar þurfa eftirlitsaðilar að hafa til að tryggja að sanngirni ríki á fjármálamörkuðum? Starfsbræður mínir og ég erum  að leita svara við þessum spurningum.

Hver er trúarlegur bakgrunnur þinn?

Ég sótti messur í Öldungakirkjunni með foreldrum mínum en fjarlægðist trúna á unglingsárunum. Ég trúði á skapara og bar virðingu fyrir Biblíunni en efaðist um að trú kæmi að miklu gagni við að leysa vandamál lífsins. Mér fannst trúfélög vera eins konar félagasamtök. Í Evrópu kom ég í margar stórar kirkjur og velti fyrir mér hvernig þær gætu verið svona auðugar miðað við alla fátæktina í heiminum. Mér grömdust þessar andstæður og ég varð mjög tortrygginn í garð trúarbragða.

Hvers vegna skiptir þú um skoðun?

Jennifer, eiginkona mín, fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva og sækja samkomur þeirra svo að mér fannst réttast að fara með henni og kanna málið. Það rann fljótlega upp fyrir mér að ég vissi næstum ekkert um Biblíuna. Það var hálfgert áfall! Ég fór því líka að kynna mér Biblíuna með aðstoð vottanna.

Ég var mjög hrifinn af námsaðferðum votta Jehóva. Þeir vörpuðu fram spurningum, söfnuðu upplýsingum, rannsökuðu þær og drógu svo rökréttar ályktanir. Þetta voru sömu aðferðir og ég beitti við fræðilegar rannsóknir. Ég lét skírast sem vottur Jehóva árið 1999, fáeinum árum á eftir Jennifer.

Hefur þekking þín á hagfræði styrkt traust þitt til Biblíunnar?

Tvímælalaust. Lögmálið, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, tekur til dæmis á hagrænum vandamálum sem hagfræðingar eru enn að glíma við. Lögmálið skyldaði Ísraelsmenn til að taka frá afurðir handa fátækum (eins konar skattur og samtrygging), veita þeim vaxtalaus lán sem þurftu (tryggja aðgang að lánsfé) og skila erfðalandi til upphaflegra eigenda á 50 ára fresti (vernda eignarrétt). (3. Mósebók 19:9, 10; 25:10, 35-37; 5. Mósebók 24:19-21) Þessar efnahagsráðstafanir og fleiri hjálpuðu fólki á þrjá mikilvæga vegu: (1) Þær hjálpuðu fólki í gegnum fjárhagserfiðleika, (2) þær hjálpuðu fólki að ná sér upp úr langvinnri fátækt og (3) þær jöfnuðu lífskjör. Og þetta var meira en 3.000 árum fyrir tilkomu hagfræðinnar sem vísindagreinar.

Biblían leggur líka áherslu á viðhorf og hegðun sem stuðla að efnahagslegu öryggi. Til dæmis kennir hún fólki að vera heiðarlegt, áreiðanlegt, umhyggjusamt og örlátt. (5. Mósebók 15:7-11; 25:15; Sálmur 15) Það er athyglisvert að í kjölfar undanfarinnar efnahagskreppu hafa sumir viðskiptaháskólar og stofnanir hvatt fólk í viðskipta- og fjármálageiranum til að heita því að halda ákveðnar siðareglur. Að mínu mati skara siðferðisreglur Biblíunnar langt fram úr þessum hugsjónum viðskiptalífsins.

Hvaða áhrif hefur trúin haft á þig?

„Að rannsaka Biblíuna er besta ,fjárfesting‘ sem ég hef lagt út í á ævinni.“

Jennifer segir að ég sé sanngjarnari en áður. Ég var með hálfgerða fullkomnunaráráttu og mér hætti til að vera ósveigjanlegur. Það er kannski skýringin á því hversu gott ég átti með að læra bókhaldsreglur. Meginreglur Biblíunnar hafa hjálpað mér að sýna meiri sanngirni. Nú er ég mun hamingjusamari og það sama má segja um fjölskylduna. Við njótum þess líka að segja öðrum frá viturlegum ráðum Biblíunnar. Að rannsaka Biblíuna er besta „fjárfesting“ sem ég hef lagt út í á ævinni.