Föstudaginn 11. mars árið 2011 skók jarðskjálfti Japan sem mældist 9,0 stig. Hann kostaði meira en 15.000 manns lífið og olli eignatjóni sem samsvaraði yfir 20 billjónum króna. Eftir að hafa fengið viðvörun um yfirvofandi flóðbylgju leitaði hinn 32 ára Kei skjóls uppi í hæð. „Morguninn eftir fór ég heim aftur til að bjarga því sem hægt var,“ segir Kei, „en flóðbylgjan hafði hrifið allt með sér á haf út. Íbúðin var horfin. Það eina sem var eftir var húsgrunnurinn.

Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á því að ég hafði ekki aðeins glatað nokkrum persónulegum munum heldur öllu sem tengdist daglegu lífi mínu. Bíllinn minn og vinnutölvurnar voru horfnar; borðin, stólarnir og sófinn sem ég notaði þegar ég bauð gestum heim; hljómborðið mitt, gítarinn, ukulele-gítarinn og flautan mín; olíulitirnir, pastellitirnir, vatnslitirnir og allt tilheyrandi; öll málverkin og allar teikningarnar mínar – allt var horfið.“

AÐ TAKAST Á VIÐ ÁFÖLL

Reyndu að hugsa um það sem þú átt enn þá í stað þess að einblína á það sem þú hefur misst. Biblían segir: „Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Kei hugsar til baka: „Ég byrjaði á því að gera lista yfir það sem mig langaði að fá en það minnti mig bara á allt sem ég hafði glatað í flóðbylgjunni. Ég ákvað að skrifa á listann aðeins þá hluti sem mig vantaði nauðsynlega og uppfærði listann um leið og þörfinni var svarað. Þessi listi hjálpaði mér að koma undir mig fótunum á ný.“

Í stað þess að hugsa of mikið um eigin vandamál gætirðu notað reynslu þína til að hugga aðra. Kei segir: „Ég fékk mikla aðstoð bæði í gegnum almenna hjálparstarfsemi og frá vinum. En þegar það komst upp í vana að þiggja frá öðrum fór sjálfsvirðingin að bíða hnekki. Þá rifjuðust upp fyrir mér orð Biblíunnar í Postulasögunni 20:35: ,Sælla er að gefa en þiggja.‘ Þar sem ég gat ekki gefið mikið efnislega fór ég að gefa af sjálfum mér með því að uppörva önnur fórnarlömb hamfaranna. Að sýna öðrum örlæti með þessum hætti hjálpaði mér mikið.“

Biddu Guð að gefa þér skynsemi til að takast á við aðstæður þínar. Kei treysti loforði Biblíunnar um að Guð ,gefi gaum að bæn hinna allslausu‘. (Sálmur 102:18) Þú getur líka treyst því.

Vissir þú? Biblían segir að sá tími komi þegar enginn þarf að óttast að verða fyrir tjóni vegna náttúruhamfara. * – Jesaja 65:21-23.

^ gr. 9 Þú getur fræðst meira um fyrirætlun Guðs með jörðina með því að lesa kafla 3 í bókinni Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og fáanleg á Netinu á www.jw.org/is.