Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Satan

Satan

Er Satan til í raun og veru?

,Hinn gamli höggormur, sem heitir djöfull og Satan, afvegaleiðir alla heimsbyggðina.‘ – Opinberunarbókin 12:9.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir trúa ekki að Satan sé til í raun og veru heldur telja að hann sé persónugervingur hins illa, eða hið illa í hverjum manni.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Satan er til. Hann er uppreisnarengill, andavera sem stendur gegn Guði. Biblían kallar hann „höfðingja þessa heims“. (Jóhannes 12:31) Hann bregður fyrir sig „lygatáknum“ og „ranglætisvélum“ til að fá vilja sínum framgengt. – 2. Þessaloníkubréf 2:9, 10.

Biblían segir frá samtali á himnum sem Guð átti við Satan. Ef Satan væri aðeins hið illa í okkur hefði Guð verið að tala við hið illa í sjálfum sér, en hann er fullkominn og falslaus á allan hátt. (5. Mósebók 32:4; Jobsbók 2:1-6) Greinilegt er að Satan er vitsmunavera, ekki bara persónugervingur hins illa.

HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI FYRIR ÞIG?

Satan vill telja okkur trú um að hann sé ekki til, af sömu ástæðu og glæpamaður felur sitt rétta eðli til að geta haldið áfram að brjóta lögin óáreittur. Við getum ekki varist Satan nema við viðurkennum að hann sé til.

 Hvar er Satan?

„Vei sé jörðunni ... því að djöfullinn er stiginn niður til yðar.“ – Opinberunarbókin 12:12.

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Margir trúa að Satan haldi til í logandi víti í iðrum jarðar. En sumir telja að hann eigi sér samastað í vondu fólki.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Satan er andavera og býr því á ósýnilegu tilverusviði. Einu sinni mátti hann vera innan um trúfasta engla Guðs. (Jobsbók 1:6) En honum hefur verið úthýst af himnum úr návist Guðs. Athafnasvið Satans og annarra illra anda er núna takmarkað við jörðina. – Opinberunarbókin 12:12.

Er Satan þá bundinn við einhvern einn ákveðinn stað á jörðinni? Þú hefur kannski lesið að Pergamos til forna var sögð vera „þar sem hásæti Satans er“. (Opinberunarbókin 2:13) Þetta orðalag gefur til kynna að Satansdýrkun hafi verið mjög útbreidd í borginni. En Satan á ekki aðsetur á neinum ákveðnum stað á jörðinni. Í Biblíunni segir að „öll ríki veraldar“ séu í höndum hans. – Lúkas 4:5, 6.

Getur Satan stjórnað fólki eða gert því mein?

„Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ – 1. Jóhannesarbréf 5:19.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Meirihluti mannkyns hefur leyft Satan að afvegaleiða sig og er því á valdi hans. (2. Korintubréf 11:14) Það skýrir hvers vegna menn hafa ekki getað bætt heiminn.

Biblían segir auk þess frá svæsnum tilfellum þar sem Satan eða aðrir uppreisnarenglar höfðu fólk á valdi sínu og gerðu því mein. – Matteus 12:22; 17:15-18; Markús 5:2-5.

HVAÐ GETURÐU GERT?

Þú þarft ekki að hræðast vald Satans. En þú þarft að vita hvernig hann ráðskast með fólk svo að þér sé ekki „ókunnugt um vélráð hans“ og hann nái þér ekki á sitt vald. (2. Korintubréf 2:11) Með því að lesa Biblíuna öðlastu þekkingu á aðferðum Satans og þarft ekki að verða fórnarlamb hans.

Losaðu þig við allt sem tengist dulspeki, þar með talið verndargripi, bækur og rit, myndbönd, tónlist og tölvutækt efni sem ýtir undir spíritisma eða spásagnir. – Postulasagan 19:19.

„Standið gegn djöflinum,“ stendur í Biblíunni, „og þá mun hann flýja ykkur“. (Jakobsbréfið 4:7) Þú getur varið þig gegn vélabrögðum Satans með því að fylgja viturlegum ráðum Biblíunnar. – Efesusbréfið 6:11-18.