Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Bágstaddir

Bágstaddir

Er Guði annt um bágstadda?

„Verið ekki fégráðug . . . Guð hefur sjálfur sagt: ,Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ – Hebreabréfið 13:5.

HVERNIG SÝNIR GUÐ UMHYGGJU SÍNA?

Þegar þjónar Guðs eiga erfitt kemur umhyggja hans í ljós á ýmsa vegu. Til dæmis gætu trúsystkini boðið fúslega fram stuðning sinn. * Í Jakobsbréfinu 1:27 segir: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra.“

Frumkristnir menn réttu hver öðrum hjálparhönd. Til að mynda þegar spáð var mikilli hungursneyð í Júdeu ákváðu kristnir menn í Antíokkíu í Sýrlandi að „senda nokkuð til hjálpar lærisveinunum sem bjuggu í Júdeu“. (Postulasagan 11:28-30) Þannig fengu bágstödd trúsystkini það sem þau þurftu til að draga fram lífið. Þessi frjálsu framlög voru merki um kærleika í verki. – 1. Jóhannesarbréf 3:18.

 Hvernig geta bágstaddir lagt sitt af mörkum?

„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er.“ – Jesaja 48:17, 18.

GUÐ KENNIR OKKUR AÐ GERA ÞAÐ SEM ER GAGNLEGT.

Milljónir manna hafa uppgötvað að í Biblíunni er að finna visku sem er bæði gagnleg og óviðjafnanleg. Í Orðskviðunum 2:6, 7 segir: „Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi. Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna.“ Það kemur þeim til góða sem nýta sér þessa visku.

Sem dæmi má nefna sneiða þeir hjá skaðlegum og kostnaðarsömum ávönum eins og eiturlyfjaneyslu og misnotkun áfengis. (2. Korintubréf 7:1) Þeir verða líka heiðarlegri, samviskusamari og áreiðanlegri fyrir vikið og eiga auðveldara með að fá vinnu og verða enn betri starfsmenn. Í Efesusbréfinu 4:28 stendur: „Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér . . . svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.“

Eru sannanir fyrir því að spekin í Biblíunni gagnist bágstöddum?

„Speki Guðs sannast af því sem hún kemur til leiðar.“ – Matteus 11:19, The New English Bible.

ÁRANGURINN TALAR SÍNU MÁLI.

Wilson, sem býr í Gana, var í lausavinnu og verkefninu var alveg að ljúka. Síðasta vinnudaginn var hann að þrífa bíl forstjórans og fann þá peninga í skottinu. Verkstjórinn sagði honum að taka bara peningana. En Wilson, sem er vottur Jehóva, tók það ekki í mál heldur lét forstjórann fá peningana. Hann missti því ekki vinnuna heldur var fastráðinn og fékk seinna stöðu yfirmanns.

Géraldine, sem býr í Evrópu, missti vinnuna af því að vinnuveitandanum var illa við votta Jehóva. Móðir vinnuveitandans sagði honum að „hann hefði farið illa að ráði sínu“. Hún sagði: „Ef þú vilt hafa áreiðanlegt fólk í vinnu sem tekur starf sitt alvarlega þá eru vottar Jehóva bestu starfskraftar sem ég þekki.“ Vinnuveitandinn aflaði sér nánari upplýsinga um votta Jehóva og Géraldine var ráðin aftur til starfa.

Einstæð móðir í Suður-Afríku, Sara að nafni, gekk í gegnum erfitt tímabil. Hún sá fórnfúsan kærleika að verki þegar fjölskyldan hafði ekkert að borða og trúsystkini hennar komu með mat. Þau keyrðu hana líka milli staða. Seinna sögðu börnin: „Við eigum marga foreldra í söfnuðinum.“

Þetta eru aðeins nokkur dæmi af fjölmörgum sem minna okkur á það sem segir í Orðskviðunum 1:33: „Sá sem hlýðir á mig [Jehóva] mun búa óhultur.“ Þetta eru orð að sönnu.

^ gr. 5 Í sumum löndum er velferðarkerfi fyrir bágstadda. Þar sem slík þjónusta er ekki til staðar liggur ábyrgðin aðallega hjá ættingjum þeirra. – 1. Tímóteusarbréf 5:3, 4, 16.