„Systir í söfnuðinum mínum sakaði mig ranglega um að hafa stolið peningum frá sér. Aðrir í söfnuðinum fréttu af því og sumir fóru að halda með mér en aðrir með henni. Síðar sagðist systirin hafa fengið nýjar upplýsingar sem sýndu fram á sakleysi mitt. Hún baðst fyrirgefningar en mér fannst innst inni að ég gæti aldrei fyrirgefið henni það sem ég hafði mátt þola.“ – Linda.

GETURÐU sett þig í spor Lindu sem var miður sín þegar trúsystir bar hana röngum sökum? Því miður hefur framkoma annarra stundum slegið fólk út af laginu og haft áhrif á þjónustu þess við Jehóva. Á það við um þig?

Getur nokkur „gert okkur viðskila við kærleika Guðs“?

Okkur getur eðlilega fundist mjög erfitt að fyrirgefa trúsystkini sem hefur sært okkur. Þjónar Guðs eiga nú einu sinni að elska hver annan. (Jóhannes 13:34, 35) Það getur valdið miklum vonbrigðum og sársauka ef trúsystkini beitir okkur ranglæti. – Sálmur 55:13.

Í Biblíunni kemur reyndar fram að stundum hafi þjónar Guðs „sök á hendur öðrum“ í söfnuðinum. (Kólossubréfið 3:13) Samt sem áður getur okkur fundist erfitt að vinna úr því þegar við verðum fyrir því sjálf. Hvað getur hjálpað okkur til þess? Líttu á þrjár staðreyndir sem Biblían nefnir:

Faðir okkar á himnum veit allt sem gerist. Jehóva sér allt sem á sér stað, meðal annars óréttlæti sem við verðum fyrir og erfiðleikana sem fylgja því. (Hebreabréfið 4:13) Jehóva finnur líka til með okkur þegar okkur líður illa. (Sakaría 2:12) Ekkert getur „gert okkur viðskila við kærleika Guðs“, hvorki „þjáning ... eða þrenging“ né nokkuð annað – ekki einu sinni einn af þjónum hans. (Rómverjabréfið 8:35, 38, 39) Jehóva leyfir það ekki. Þá ættum við ekki heldur að leyfa neinu eða neinum að gera okkur viðskila við hann.

Að fyrirgefa ranga hegðun merkir ekki að sætta sig við hana. Þegar við fyrirgefum þeim sem hafa gert eitthvað á hlut okkar erum við ekki að gera lítið úr því, réttlæta það, afsaka eða sætta okkur við það. Hafðu hugfast að Jehóva sættir sig aldrei við syndir en hann fyrirgefur þær ef það er grundvöllur fyrir því. (Sálmur 103:12, 13; Habakkuk 1:13) Þegar hann hvetur okkur til að fyrirgefa öðrum er hann í rauninni að biðja okkur um að fara að dæmi sínu. Hann er ekki „eilíflega reiður“. – Sálmur 103:9; Matteus 6:14.

Þegar við látum af gremju gerum við sjálfum okkur gott. Hvernig þá? Sjáðu eftirfarandi fyrir þér: Þú tekur upp stein sem er aðeins eitt til tvö kíló að þyngd og heldur á honum með útréttri hendi. Þú átt líklega auðvelt með að halda á steininum í smástund. En hvað gerist ef þú reynir að halda á honum í lengri tíma? Hve lengi gætirðu gert það – nokkrar mínútur? Klukkutíma? Eða lengur? Þú yrðir eflaust mjög þreyttur í hendinni. Steinninn hefur auðvitað ekki þyngst en því lengur sem þú heldur á honum því þyngri finnst þér hann vera. Hið sama er að segja um gremjuna. Því lengur sem við höldum  í hana – jafnvel þótt hún sé minni háttar – því verra er það fyrir sjálf okkur. Það er því skiljanlegt að Jehóva skuli hvetja okkur til að láta af gremjunni. Það er okkur til góðs að sleppa takinu. – Orðskviðirnir 11:17.

Þegar við látum af gremju gerum við sjálfum okkur gott.

„Mér fannst eins og Jehóva væri að tala beint til mín“

Hvað hjálpaði Lindu að verða ekki bitur vegna framkomu trúsystur sinnar? Hún hugleiddi meðal annars af hverju Biblían segir að við eigum að fyrirgefa. (Sálmur 130:3, 4) Það snerti Lindu djúpt að Jehóva skuli vera fús til að fyrirgefa okkur ef við fyrirgefum öðrum. (Efesusbréfið 4:32 – 5:2) Hún lýsir því hvaða áhrif þetta hafði á hana og segir: „Mér fannst eins og Jehóva væri að tala beint til mín.“

Lindu tókst með tímanum að láta af gremjunni. Hún fyrirgaf systurinni og núna eru þær nánar vinkonur. Linda heldur áfram að þjóna Jehóva dyggilega. Þú mátt treysta því að Jehóva vilji hjálpa þér að gera hið sama.