Í ÞESSUM KAFLA

Það sem Jesús kenndi varðandi ríki Guðs.

1, 2. Hvað sagði Jehóva sjálfur í áheyrn þriggja postula Jesú og hvernig brugðust þeir við?

HVERNIG myndirðu bregðast við ef Jehóva Guð sjálfur bæði þig að gera eitthvað? Heldurðu ekki að þú yrðir meira en fús til að gera það sem hann færi fram á, sama hvað það væri? Örugglega.

2 Þrír af postulum Jesú, þeir Pétur, Jakob og Jóhannes, upplifðu einmitt þetta einhvern tíma eftir páska árið 32. (Lestu Matteus 17:1-5.) Þeir voru staddir á ,háu fjalli‘ ásamt Jesú, meistara sínum, og sáu hann þá birtast í sýn sem dýrlegan himneskan konung. Sýnin var svo raunveruleg að Pétur reyndi að taka þátt í því sem gerðist í henni. Meðan hann var að tala myndaðist ský yfir þeim. Pétur og félagar hans heyrðu þá greinilega nokkuð sem aðeins örfáir menn hafa fengið að heyra – rödd Jehóva sjálfs. Eftir að Jehóva hafði staðfest að Jesús væri sonur sinn sagði hann: „Hlýðið á hann!“ Postularnir fóru eftir þessum skýru fyrirmælum Guðs. Þeir hlýddu á það sem Jesús kenndi og hvöttu aðra til að gera það líka. – Post. 3:19-23; 4:18-20.

Jesús talaði meira um ríki Guðs en nokkurt annað málefni.

3. Hvers vegna vill Jehóva að við hlýðum á son sinn og hvaða málefni ættum við þess vegna að skoða vel?

3 Orðin „hlýðið á hann“ voru skráð í Biblíuna okkur til góðs. (Rómv. 15:4) Hvers vegna eru þau gagnleg fyrir okkur? Vegna þess að Jesús er talsmaður Jehóva og í hvert sinn sem hann opnaði munninn til að kenna sagði hann frá einhverju sem faðir hans vildi að við fengjum að vita. (Jóh. 1:1, 14) Jesús talaði meira um ríki Guðs en nokkuð annað, það er að segja hið himneska ríki í höndum hans sjálfs, Messíasar, og 144.000 meðstjórnenda hans. Við ættum því að kynna okkur vel þetta mikilvæga málefni. (Opinb. 5:9, 10; 14:1-3; 20:6) En fyrst skulum við kanna hvers vegna Jesús talaði svona oft um ríki Guðs.

„Af gnægð hjartans ...“

4. Hvernig lét Jesús í ljós að ríki Guðs væri honum hjartans mál?

4 Ríki Guðs er Jesú hjartans mál. Hvers vegna getum við fullyrt það? Vegna þess að orðin veita innsýn í hjartað. Þau  leiða í ljós hvað skiptir okkur mestu máli. „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ sagði Jesús. (Matt. 12:34) Hann notaði hvert tækifæri til að tala um ríki Guðs. Í guðspjöllunum fjórum er minnst meira en 100 sinnum á ríkið, og oftast er það Jesús sem talar. Ríki Guðs var kjarninn í boðun hans. Hann sagði: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43) Jesús hélt meira að segja áfram að tala um ríkið við lærisveina sína eftir að hann var risinn upp frá dauðum. (Post. 1:3) Það er greinilegt að ríki Guðs átti hug hans allan og hann gat ekki annað en talað um það.

5-7. (a) Hvernig vitum við að ríkið er Jehóva hjartans mál? Lýstu með dæmi. (b) Hvernig getum við sýnt að ríki Guðs sé okkur hjartans mál?

5 Ríkið er Jehóva líka hjartans mál. Hvernig vitum við það? Við skulum muna að Jehóva sendi einkason sinn í heiminn og allt sem Jesús sagði og kenndi er frá Jehóva komið. (Jóh. 7:16; 12:49, 50) Hann er líka höfundur alls sem er skráð í guðspjöllunum fjórum sem segja frá ævi og þjónustu Jesú. Veltum aðeins fyrir okkur hvað það þýðir.

Við ættum hvert og eitt að spyrja okkur hvort ríki Guðs sé okkur hjartans mál.

6 Hugsaðu þér að þú sért að setja fjölskyldumyndir inn í albúm. Þú ert með fullt af myndum til að velja úr en albúmið rúmar ekki nema takmarkaðan fjölda. Hvað gerirðu? Þú velur úr þær myndir sem þú vilt hafa í albúminu. Guðspjöllin eru í vissum skilningi eins og myndaalbúm sem dregur fram skýra mynd af Jesú. Jehóva innblés ekki guðspjallariturunum að skrásetja allt sem Jesús sagði og gerði meðan hann var á jörð. (Jóh. 20:30; 21:25) Hann leiðbeindi þeim hins vegar með anda sínum þannig að þeir skráðu það sem þurfti til að við gætum skilið markmiðið með starfi Jesú og áttað okkur á hvað skiptir Jehóva mestu máli. (2. Tím. 3:16, 17; 2. Pét. 1:21) Guðspjöllin fjalla mjög mikið um það sem Jesús kenndi varðandi ríki Guðs og við getum því ályktað að ríkið sé Jehóva hjartans mál. Hugsaðu þér! Jehóva vill að við fáum skýra mynd af ríki hans.

7 Við ættum hvert og eitt að spyrja okkur hvort ríki Guðs sé okkur hjartans mál. Ef svo er langar okkur til að heyra það sem Jesús sagði og kenndi varðandi ríki Guðs. Hvaða þýðingu hefur það, hvernig kemur það og hvenær?

„Til komi þitt ríki“ – hvernig?

8. Hvernig lýsti Jesús hve ríki Guðs væri mikilvægt?

8 Lítum á faðirvorið. Jesús lýsti á skýran og einfaldan hátt hve mikilvægt ríki Guðs væri og hverju það myndi koma til leiðar. Í bæninni eru sjö beiðnir. Fyrstu þrjár varða fyrirætlun Jehóva – að nafn hans helgist, ríki hans komi og vilji hans nái fram að ganga á jörð eins og á himni. (Lestu Matteus 6:9, 10.) Þessar þrjár beiðnir eru nátengdar. Ríki  Messíasar er verkfærið sem Jehóva notar til að helga nafn sitt og hrinda vilja sínum í framkvæmd.

9, 10. (a) Hvað gerir ríki Guðs þegar það kemur? (b) Hvaða loforð Biblíunnar þráir þú að sjá rætast?

9 Hvernig kemur ríki Guðs? Þegar við biðjum: „Til komi þitt ríki,“ erum við að biðja um að ríkið láti til skarar skríða. Þegar það kemur beinir það öllum kröftum sínum að jörðinni. Það afmáir hið illa kerfi sem nú er, þar á meðal allar ríkisstjórnir manna, og kemur á réttlátum nýjum heimi. (Dan. 2:44; 2. Pét. 3:13) Undir stjórn Guðsríkis verður allri jörðinni síðan breytt í paradís. (Lúk. 23:43) Þeir sem Guð geymir í minni sér verða reistir upp frá dauðum og sameinast ástvinum sínum á ný. (Jóh. 5:28, 29) Þeir sem hlýða Guði verða fullkomnir og hljóta eilíft líf. (Opinb. 21:3-5) Að lokum verður fullkomin eining milli himins og jarðar og vilji Jehóva Guðs hefur náð fram að ganga. Þráir þú ekki að sjá þessi loforð Biblíunnar rætast? Mundu að í hvert sinn sem þú biður um að ríki Guðs komi ertu að biðja um að þessi fögru fyrirheit rætist.

10 Það er deginum ljósara að ríki Guðs er enn ekki komið eins og beðið er um í faðirvorinu. Ríkisstjórnir manna eru enn við völd og réttlátur nýr heimur er ekki orðinn að veruleika. En góðu fréttirnar eru þær að ríki Guðs er nú þegar stofnsett eins og fjallað verður um í næsta kafla. Við skulum nú kanna hvað Jesús sagði um tímasetninguna, það er að segja hvenær ríkið yrði stofnsett og hvenær það myndi koma.

Hvenær yrði ríki Guðs stofnsett?

11. Hvað benti Jesús á varðandi ríki Guðs?

11 Jesús benti á að ríki Guðs yrði ekki stofnsett á fyrstu öld þó að sumir af lærisveinum hans hafi vænst þess. (Post. 1:6) Við skulum skoða það sem fram kemur í tveim dæmisögum sem hann sagði með innan við tveggja ára millibili.

12. Hvernig ber dæmisagan um hveitið og illgresið með sér að ríki Guðs var ekki stofnsett á fyrstu öld?

12 Dæmisagan um hveitið og illgresið. (Lestu Matteus 13:24-30.) Jesús sagði dæmisöguna og skýrði hana fyrir lærisveinunum, hugsanlega vorið 31. (Matt. 13:36-43) Í stuttu máli er dæmisagan og merking hennar á þessa leið: Eftir að postularnir væru dánir myndi djöfullinn sá illgresi (falskristnum mönnum) meðal hveitisins en það táknar „börn ríkisins“, það er að segja andasmurða kristna menn. Hveitið og illgresið yrði látið vaxa saman allt fram að uppskerutímanum sem er „endir veraldar“. Eftir að uppskerutíminn væri hafinn átti að safna illgresinu. Síðan yrði hveitið hirt í hlöðu. Dæmisagan gefur þannig til kynna að ríki Guðs yrði ekki stofnsett á fyrstu öld heldur eftir að  vaxtarskeiðið væri á enda. Raunin varð sú að vaxtartímanum lauk árið 1914 og þá hófst uppskerutíminn.

13. Hvernig sýndi Jesús fram á að hann yrði ekki konungur Guðsríkis strax og hann sneri aftur til himna?

13 Dæmisagan um pundin. (Lestu Lúkas 19:11-13.) Jesús sagði þessa dæmisögu árið 33 þegar hann var á leið til Jerúsalem í síðasta sinn. Sumir áheyrendur hans héldu að hann myndi stofna ríki sitt um leið og þeir kæmu til Jerúsalem. Jesús vildi leiðrétta þennan misskilning og sýna fram á að þess væri langt að bíða að ríkið yrði stofnsett. Hann líkti sjálfum sér við ,tiginborinn mann‘ sem þurfti að fara „í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi“. * ,Fjarlæga landið,‘ sem Jesús þurfti að fara til, var himinninn þar sem faðir hans myndi veita honum konungdóm. En Jesús vissi að hann yrði ekki settur í embætti sem konungur strax eftir að hann sneri til himna heldur myndi hann sitja við hægri hönd Guðs og bíða uns stundin rynni upp. Biðin átti eftir að standa í margar aldir. – Sálm. 110:1, 2; Matt. 22:43, 44; Hebr. 10:12, 13.

Hvenær kemur ríki Guðs?

14. (a) Hvernig svaraði Jesús spurningu fjögurra postula sinna? (b) Hvað gefur uppfylling spádómsins til kynna um nærveru Jesú og ríki Guðs?

14 Fjórir postular Jesú spurðu hann fáeinum dögum áður en hann var tekinn af lífi: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma [á grísku parúsía sem merkir „nærvera“] og veröldin að líða undir lok?“ (Matt. 24:3; Mark. 13:4) Jesús  svaraði spurningunni með yfirgripsmiklum spádómi sem sagt er frá í 24. og 25. kafla Matteusarguðspjalls. Hann tiltók ýmsa heimsviðburði sem áttu að einkenna tímabilið sem hann kallaði „nærveru“ sína. Nærvera hans myndi hefjast um leið og ríkið yrði stofnsett á himnum, og hún myndi ná hámarki um leið og ríki hans kæmi. Það eru kappnógar sannanir fyrir því að spádómur Jesú hafi verið að rætast frá 1914. * Nærvera hans hófst því það ár og þá var ríkið stofnsett.

15, 16. Við hverja er átt þegar talað er um ,þessa kynslóð‘?

15 En hvenær kemur þá ríki Guðs? Jesús upplýsti ekki nákvæmlega hvenær það myndi gerast. (Matt. 24:36) Hann gaf þó ákveðnar upplýsingar sem ættu að veita okkur vissu fyrir því að það sé mjög nærri. Hann sagði að ríki Guðs kæmi eftir að „þessi kynslóð“ sæi tákn þess að hann væri nærverandi. (Lestu Matteus 24:32-34.) Við hverja er átt þegar talað er um ,þessa kynslóð‘? Lítum nánar á orð Jesú.

16 „Þessi kynslóð.“ Var Jesús að tala um fólk sem ekki trúði? Nei. Við hverja var hann að tala? Við fáeina postula sem „spurðu hann einslega“ um tákn þess að hann væri að koma. (Matt. 24:3) Postularnir yrðu bráðlega smurðir með heilögum anda. Lítum einnig á samhengið. Áður en Jesús nefndi ,þessa kynslóð‘ sagði hann: „Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.“ Það voru ekki vantrúaðir heldur andasmurðir fylgjendur Jesú sem áttu að sjá spádóminn rætast og skilja hvað það þýddi, það er að segja að Jesús væri „í nánd, fyrir dyrum“. Jesús var því að hugsa um andasmurða fylgjendur sína þegar hann talaði um ,þessa kynslóð‘.

17. Hvað merkir orðið „kynslóð“ og hvað merkir „allt þetta“?

17 „Mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram.“ Hvernig rætast þessi orð? Til að svara því þurfum við að vita tvennt: Hvað merkir orðið „kynslóð“ og hvað merkir „allt þetta“? Í Biblíunni er orðið „kynslóð“ oft notað um fólk á ólíkum aldri sem er samtíða á ákveðnu tímabili. Einnar kynslóðar tímabil er ekki óralangt – það tekur enda. (2. Mós. 1:6) Orðin „allt þetta“ ná yfir allt sem Jesús sagði eiga að gerast meðan nærvera hans stæði yfir, frá því að hún hófst árið 1914 uns henni lýkur í ,þrengingunni miklu‘. – Matt. 24:21.

18, 19. Hvernig eigum við að skilja orð Jesú um ,þessa kynslóð‘ og hvað getum við ályktað?

18 Hvernig eigum við þá að skilja orð Jesú um ,þessa kynslóð‘? Kynslóðin nær yfir tvo hópa andasmurðra sem skarast. Annars vegar er hópur andasmurðra sem sá táknið byrja að rætast árið 1914 og hins vegar andasmurðir sem  voru samtíða hinum hópnum um tíma. Sumir úr síðari hópnum lifa það að sjá þrenginguna skella á. Hóparnir tveir mynda samanlagt eina kynslóð vegna þess að þeir skarast um tíma. *

19 Hver er þá niðurstaðan? Við vitum að táknið um að Jesús sé nærverandi sem konungur blasir við um allan heim. Við sjáum einnig að hinir andasmurðu, sem eru enn á lífi og tilheyra ,þessari kynslóð‘, eru farnir að reskjast. Þeir verða þó ekki allir dánir áður en þrengingin mikla hefst. Við getum því ályktað að ríki Guðs komi mjög bráðlega og taki völd á jörðinni. Það verður ákaflega spennandi að sjá bæninni svarað sem Jesús kenndi okkur að biðja: „Til komi þitt ríki.“

20. Um hvað fjallar þessi bók og hvað er rætt í næsta kafla?

20 Gleymum aldrei því sem Jehóva sjálfur sagði af himni ofan: „Hlýðið á hann,“ það er að segja son hans. Við sem erum sannkristin viljum umfram allt hlýða þessum fyrirmælum Guðs. Við höfum brennandi áhuga á öllu sem Jesús sagði og kenndi varðandi ríki Guðs. Það sem ríkið hefur nú þegar áorkað og á eftir að áorka í framtíðinni er verðugt rannsóknarefni, og það er efni þessarar bókar. Í næsta kafla lítum við á atburði sem áttu sér stað um það leyti sem ríki Guðs var stofnsett á himnum.

^ gr. 13 Dæmisaga Jesú kann að hafa minnt áheyrendur hans á Arkelás, son Heródesar mikla. Áður en Heródes dó tilnefndi hann Arkelás til að ríkja yfir Júdeu og fleiri svæðum. Áður en Arkelás gat tekið við embætti þurfti hann þó að fara í langt ferðalag til Rómar til að hljóta samþykki Ágústusar keisara.

^ gr. 14 Nánari upplýsingar er að finna í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?

^ gr. 18 Fyrri hópur hinna andasmurðu sá „upphaf fæðingarhríðanna“ árið 1914. Þeir sem hafa hlotið andasmurningu eftir að sá síðasti af þeim hópi dó tilheyra ekki ,þessari kynslóð‘. – Matt. 24:8.