Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Ríki Guðs stjórnar

 13. KAFLI

Boðberar Guðsríkis verja rétt sinn fyrir dómstólum

Boðberar Guðsríkis verja rétt sinn fyrir dómstólum

Í ÞESSUM KAFLA

Yfirvöld hafa beitt sér gegn boðun fagnaðarerindisins eins og Jesús spáði.

1, 2. (a) Hvaða afstöðu tóku trúarleiðtogarnir gagnvart boðun fagnaðarerindisins en hvernig brugðust postularnir við? (b) Hvers vegna neituðu postularnir að hlíta boðunarbanninu?

VIÐ erum stödd í Jerúsalem skömmu eftir hvítasunnu árið 33. Kristni söfnuðurinn þar í borg er bara nokkurra vikna gamall. Satan er greinilega á því að nú sé rétti tíminn til að gera árás. Hann ætlar sér að tortíma söfnuðinum áður en honum vex fiskur um hrygg. Í snatri býr hann svo um hnútana að trúarleiðtogarnir banna boðun fagnaðarerindisins. En postularnir eru óhræddir. Þeir halda boðuninni áfram og fjöldi karla og kvenna tekur ‚trú á Drottin‘. – Post. 4:18, 33; 5:14.

Postularnir voru „glaðir yfir því að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú“.

2 Andstæðingarnir eru fokvondir og leggja til atlögu á ný – og í þetta sinn varpa þeir öllum postulunum í fangelsi. En engill Jehóva opnar dyr fangelsisins um nóttina og í dögun eru postularnir teknir að boða fagnaðarerindið á nýjan leik. Þeir eru handteknir aftur, leiddir fyrir valdhafana og sakaðir um að brjóta boðunarbannið. Postularnir svara hugrakkir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Valdhafarnir fyllast bræði og ætla sér að taka þá af lífi. En á þessari ögurstund lætur hinn virti lögmálskennari Gamalíel í sér heyra. Hann varar ráðamennina við þessu og segir: „Athugið vel hvað þið gerið ... Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim.“ Þótt ótrúlegt sé fara valdhafarnir að ráðum hans og sleppa postulunum. Hvað gera þessir þjónar Guðs? Þeir halda ótrauðir áfram að „kenna ... og boða fagnaðarerindið um að Jesús sé Kristur“. – Post. 5:17-21, 27-42; Orðskv. 21:1, 30.

3, 4. (a) Hvaða aðferð hefur Satan notað lengi til að beita sér gegn þjónum Guðs? (b) Um hvað er fjallað í þessum kafla og næstu tveim?

3 Þetta dómsmál árið 33 er fyrsta dæmið um andstöðu yfirvalda gegn kristna söfnuðinum, en sannarlega ekki það síðasta. (Post. 4:5-8; 16:20; 17:6, 7) Á okkar tímum hefur Satan einnig fengið andstæðinga sannrar tilbeiðslu til að þrýsta á yfirvöld og reyna að fá þau til að banna boðunina. Andstæðingarnir hafa sakað þjóna Guðs um ýmislegt. Ein ásökunin er sú að við röskum almannafriði – séum friðarspillar. Önnur er á þann veg að við förum með uppreisnaráróður  gegn yfirvöldum, og sú þriðja að við séum ekkert annað en sölumenn – farandsalar. Bræður okkar hafa farið dómstólaleiðina til að afsanna slíkar fullyrðingar þegar það hefur átt við. Hvernig hafa þessi dómsmál farið? Hvaða áhrif hafa dómar, sem féllu fyrir nokkrum áratugum, á okkur núna? Við skulum líta á nokkur dómsmál til að kanna hvernig þau hafa átt þátt í að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það“. – Fil. 1:7, Biblían 1981.

4 Í þessum kafla beinum við athyglinni að því hvernig við höfum varið frelsi okkar til að boða fagnaðarerindið. Í næstu tveim köflum er síðan fjallað um baráttuna fyrir þeim rétti okkar að tilheyra ekki heiminum og réttinum til að lifa í samræmi við lög Guðsríkis.

Friðarspillar – eða trúir talsmenn Guðsríkis?

5. Hvers vegna voru boðberar handteknir í hundraðatali skömmu fyrir 1940 og hvað hugleiddu þeir sem fóru með forystuna?

5 Nokkru fyrir 1940 reyndu yfirvöld í borgum og ríkjum um öll Bandaríki Norður-Ameríku að þvinga votta Jehóva til að fá einhvers konar opinbert leyfi til að boða fagnaðarerindið. En bræður okkar og systur sóttu ekki um slík leyfi. Það er hægt að afturkalla leyfi, og trúsystkini okkar töldu að yfirvöld hefðu ekki umboð til að aftra fylgjendum Krists á nokkurn hátt frá að boða boðskapinn um ríkið í samræmi við fyrirmæli hans. (Mark. 13:10) Boðberar Guðsríkis voru því handteknir hundruðum saman. Þeir sem fóru með forystuna í söfnuðinum hugleiddu alvarlega að leita á náðir dómstóla. Þeir vonuðust til að geta sýnt fram á að ríkið hefði reynt að tálma með ólögmætum hætti að vottarnir gætu iðkað trú sína að vild. Og árið 1938 átti sér stað atburður sem varð kveikjan að dómsmáli sem átti eftir að hafa fordæmisgildi. Hvað gerðist?

6, 7. Hvað gerðist hjá Cantwell-fjölskyldunni?

6 Þriðjudagsmorguninn 26. apríl 1938 lagði Newton Cantwell af stað ásamt fjölskyldu sinni til að boða fagnaðarerindið í borginni New Haven í Connecticut. Newton, sem var sextugur, Esther eiginkona hans og synirnir Henry, Russell og Jesse voru öll sérbrautryðjendur. Þau ætluðu sér að nota daginn til að boða trúna en voru reyndar undir það búin að vera lengur að heiman. Hvers vegna? Þau höfðu verið handtekin nokkrum sinnum og vissu að það gæti gerst aftur. En það dró ekki úr löngun Cantwell-fjölskyldunnar til að boða boðskapinn um ríkið. Þau fóru til New Haven á tveim bílum. Newton ók fjölskyldubílnum fullum af biblíutengdum ritum og grammófónum en Henry, sem var 22 ára, ók hátalarabíl. Og eins og þau höfðu búist við leið ekki á löngu áður en lögreglan stöðvaði þau.

7 Russell, sem var 18 ára, var handtekinn fyrstur og þau Newton og Esther strax á eftir. Jesse, 16 ára, horfði á úr  nokkurri fjarlægð þegar lögreglan leiddi bróður hans og foreldra burt. Henry var að boða trúna í öðrum borgarhluta þannig að Jesse var einn eftir. Hann gafst þó ekki upp heldur tók grammófóninn sinn og hélt boðuninni áfram. Tveir kaþólskir menn leyfðu Jesse að spila plötu með ræðu bróður Rutherfords. Ræðan hét „Óvinir“. Mennirnir reiddust heiftarlega þegar þeir hlustuðu á ræðuna og við lá að þeir berðu Jesse. Hann labbaði rólegur burt en stuttu seinna stöðvaði lögregluþjónn för hans. Hann var því líka hnepptur í varðhald. Newton og synirnir voru ákærðir en Esther ekki. Þeir voru þó látnir lausir gegn tryggingu síðar um daginn.

8. Hvers vegna var Jesse Cantwell fundinn sekur um að brjóta á almannafriði?

8 Nokkrum mánuðum síðar, í september 1938, voru Newton og synirnir leiddir fyrir rétt í New Haven. Þeir Newton, Russell og Jesse voru fundnir sekir um fjársöfnun án leyfis og brot á almannafriði. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Connecticut. Hann sýknaði Newton og Russell um brot á almannafriði en staðfesti dóminn yfir Jesse. Hvers vegna? Vegna þess að kaþólsku mennirnir tveir, sem höfðu hlustað á ræðu Rutherfords, báru vitni fyrir réttinum og sögðu fyrirlesturinn hafa verið ögrandi og móðgun við trú þeirra. Forystumenn safnaðarins áfrýjuðu dómnum  til Hæstaréttar Bandaríkjanna sem er æðsta dómstig þar í landi.

9, 10. (a) Hvernig var dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna í Cantwell-málinu? (b) Hvernig njóta þjónar Guðs enn þá góðs af þessum dómi?

9 Málflutningur fyrir Hæstarétti hófst 29. mars 1940. Charles E. Hughes, forseti réttarins, og átta hæstaréttardómarar hlýddu á málflutning bróður Haydens Covingtons sem var lögmaður Votta Jehóva. * Þegar lögmaður Connecticutríkis flutti mál sitt til að sýna fram á að vottarnir brytu á almannafriði spurði einn af dómurunum: „Er það ekki rétt að boðskapurinn, sem Kristur Jesús boðaði, hafi verið óvinsæll á sínum tíma?“ Lögmaðurinn svaraði: „Hann var það, og ef ég man rétt segir líka í Biblíunni hvernig fór fyrir Jesú vegna þess að hann boðaði þennan boðskap.“ Þetta var athyglisverð yfirlýsing. Án þess að ætla sér það setti lögmaðurinn vottana í flokk með Jesú og ríkið með þeim sem sakfelldu hann. Hinn 20. maí 1940 dæmdi Hæstiréttur einróma vottunum í vil.

Hayden Covington (fremst fyrir miðju), Glen How (til vinstri) og fleiri ganga út úr dómshúsi eftir að hafa unnið mál.

10 Hvaða þýðingu hafði dómur Hæstaréttar? Hann útvíkkaði lögvarinn rétt fólks til að iðka trú sína þannig að hvorki alríkisstjórnin, stjórnir einstakra ríkja né sveitarstjórnir gátu takmarkað hann á lögmætan hátt. Rétturinn komst enn fremur að þeirri niðurstöðu að framferði Jesse hefði „á engan hátt ógnað almannafriði og reglu“. Dómurinn staðfesti því með óyggjandi hætti að vottar Jehóva röskuðu ekki almannafriði. Þetta var mikilvægur réttarsigur fyrir þjóna Guðs og þeir njóta góðs af honum enn þann dag í dag. Lögfræðingur, sem er vottur, segir: „Rétturinn til að iðka trú sína að vild, án þess að þurfa að óttast ósanngjarnar hömlur, gerir okkur, sem erum vottar hans núna, kleift að flytja fólki vonarboðskap í því samfélagi þar sem við búum.“

Áróðursmenn – eða boðberar sannleikans?

Smáritið um hatur Quebec-manna á Guði, Kristi og frelsi.

11. Fyrir hvaða dreifingarátaki stóðu bræður okkar í Kanada og hvers vegna?

11 Vottar Jehóva í Kanada mættu heiftarlegri andstöðu á fimmta áratugnum. Bræður okkar þar gerðu því átak árið 1946 til að vekja athygli á því hvernig ríkið braut á trúfrelsi í landinu. Á 16 daga tímabili var dreift smáriti sem hét Quebec’s Burning Hate for God and Christ and Freedom Is the Shame of All Canada (Hatur Quebec-manna á Guði, Kristi og frelsi er öllum Kanadabúum til skammar). Í þessu fjögurra blaðsíðna smáriti var greint ítarlega frá uppþotum sem prestar stóðu fyrir, hrottaskap lögreglu og ofbeldisfullum skrílslátum sem trúsystkini okkar urðu fyrir í Quebec-fylki. „Haldið er áfram að handtaka votta Jehóva með löglausum hætti,“ sagði í smáritinu. „Það hafa hlaðist upp einar 800 ákærur á hendur vottum Jehóva í Montreal og nágrenni.“

12. (a) Hvernig brugðust andstæðingar við dreifingu smáritsins? (b) Fyrir hvaða glæp voru trúsystkini okkar ákærð? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

 12 Maurice Duplessis var forsætisráðherra Quebec á þeim tíma og átti náið samstarf við Villeneuve, kardínála rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Viðbrögð hans við smáritinu voru þau að lýsa yfir „miskunnarlausu stríði“ á hendur vottunum. Ákærum fjölgaði á skömmum tíma úr 800 í 1.600. „Lögreglan handtók okkur svo oft að við hættum að telja,“ sagði brautryðjandasystir. Vottar, sem voru staðnir að því að dreifa smáritinu, voru ákærðir fyrir þann glæp að dreifa „uppreisnaráróðri og ærumeiðingum“. *

13. Hverjir voru fyrstu vottarnir sem voru leiddir fyrir rétt, sakaðir um uppreisnaráróður, og hvernig féll dómurinn?

13 Bróðir Aimé Boucher og dætur hans, þær Gisèle, 18 ára, og Lucille, 11 ára, voru fyrstu vottarnir sem voru leiddir fyrir rétt ákærðir fyrir uppreisnaráróður. Það var árið 1947. Þau höfðu dreift smáritinu um hatur Quebec-manna í grennd við bæinn sinn á hæðunum suður af Quebec-borg. En það var erfitt að ímynda sér að þau væru lögbrjótar og röskuðu almannafriði. Bróðir Boucher var hógvær og hæglátur maður sem bjó á litlum bóndabæ og fór stundum bæjarleið á hestvagni. Fjölskyldan hafði þó mátt þola sumt af því ranglæti sem nefnt var í smáritinu. Dómarinn hataði vottana og neitaði að taka til greina gögn sem sönnuðu að feðginin væru saklaus. Hann studdi þá afstöðu ákæruvaldsins að smáritið ýtti undir mótspyrnu og að feðginin skyldu sakfelld. Afstaða dómarans var því í hnotskurn sú að það væri glæpur að segja sannleikann. Aimé og Gisèle voru fundin sek um uppreisnaráróður og ærumeiðingar, og Lucille litla eyddi meira að segja tveim dögum í fangelsi. Bræðurnir áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar Kanada, æðsta dómstóls í landinu, og rétturinn féllst á að taka málið fyrir.

14. Hvað gerðu bræður og systur í Quebec þrátt fyrir linnulausar ofsóknir?

14 Hugrakkir þjónar Jehóva í Quebec héldu áfram að boða boðskapinn um ríkið með einstökum árangri, þrátt fyrir linnulausar og ofbeldisfullar árásir. Á fjórum árum frá því að gert var átak til að dreifa smáritinu árið 1946 fjölgaði vottunum í Quebec úr 300 í 1.000. *

15, 16. (a) Hvernig dæmdi Hæstiréttur Kanada í máli Aimés Bouchers? (b) Hvaða áhrif hafði þessi sigur á trúsystkini okkar og aðra?

15 Hæstiréttur Kanada tók fyrir mál Aimés Bouchers í júní árið 1950. Dómurinn var fullskipaður níu dómurum. Hálfu ári síðar, 18. desember 1950, dæmdi rétturinn okkur í vil. Hvers vegna? Bróðir Glen How var lögmaður vottanna. Hann sagði að Hæstiréttur hefði fallist á þau rök verjenda að ekki væri um að ræða „uppreisnaráróður“ nema hvatt væri til ofbeldis eða uppreisnar gegn stjórnvöldum. Í smáritinu var „engin hvatning í þá átt og efni þess féll því undir lögmætt málfrelsi“. Bróðir How bætti við: „Ég sá með eigin augum hvernig Jehóva veitti okkur sigur.“ *

16 Dómur Hæstaréttar var mikill sigur fyrir ríki Guðs. Þegar hann féll voru 122 mál sem biðu dóms í Quebec þar sem vottar voru ákærðir fyrir uppreisnaráróður og ærumeiðingar.  Með dómi Hæstaréttar voru forsendur brostnar fyrir öllum þessum málum. Dómurinn þýddi einnig að ríkisborgarar Kanada og Breska samveldisins höfðu nú frelsi til að tjá áhyggjur sínar af stjórnvaldsaðgerðum. Þessi sigur varð til þess að kirkja og ríki hættu að berjast gegn frelsi votta Jehóva í Quebec til að iðka trú sína. *

Farandsalar – eða kappsamir sendiboðar Guðsríkis?

17. Hvernig reyna stjórnvöld í sumum löndum að setja hömlur á boðun okkar?

17 Frumkristnir menn ‚prönguðu ekki með Guðs orð‘ og þjónar Jehóva nú á dögum gera það ekki heldur. (Lestu 2. Korintubréf 2:17.) Stjórnvöld í sumum löndum reyna engu að síður að beita lögum um verslun og viðskipti til að setja hömlur á boðun okkar. Við skulum líta á tvo dóma þar sem tekist var á um hvort vottar Jehóva væru farandsalar eða boðberar fagnaðarerindisins.

18, 19. Hvernig reyndu dönsk yfirvöld að setja hömlur á boðunina?

18 Danmörk. Hinn 1. október 1932 gengu í gildi lög sem bönnuðu sölu prentaðs máls án leyfis til farandsölu. En trúsystkini okkar sóttu ekki um slík leyfi. Fimm boðberar notuðu næsta dag til að boða fagnaðarerindið í Hróarskeldu sem er um 30 kílómetra vestur af Kaupmannahöfn. Um kvöldið vantaði einn boðberann, August Lehmann. Hann hafði verið handtekinn fyrir að selja varning án leyfis.

19 August Lehmann kom fyrir rétt 19. desember 1932. Hann viðurkenndi að hafa heimsótt fólk og boðið biblíutengd rit en neitaði að hafa stundað farandsölu. Rétturinn féllst á rök hans. Í dómsorðinu segir: „Ákærði ... er fær um að sjá fyrir sér sjálfur og hefur hvorki hagnast á starfseminni né ætlað sér að gera það. Þvert á móti hefur hann tapað fjárhagslega á starfsemi sinni.“ Rétturinn tók afstöðu með vottunum og úrskurðaði að starfsemi Lehmanns gæti ekki „flokkast sem verslun“. En andstæðingar þjóna Guðs voru staðráðnir í að setja hömlur á boðunina í Danmörku. (Sálm. 94:20) Saksóknari áfrýjaði dómnum alla leið til Hæstaréttar. Hvernig brugðust trúsystkini okkar við?

20. Hver var dómur Hæstaréttar Danmerkur og hvernig brugðust bræður og systur við?

20 Vottarnir í Danmörku boðuðu fagnaðarerindið af miklu kappi í vikunni áður en Hæstiréttur tók málið fyrir. Rétturinn kvað upp dóm sinn þriðjudaginn 3. október 1933. Hann staðfesti dóm undirréttar þess efnis að August Lehmann hefði ekki brotið lög. Dómurinn þýddi að vottarnir gátu haldið áfram að boða trúna að vild. Til að þakka Jehóva fyrir þennan lagalega sigur hleyptu bræður og systur í Danmörku enn meiri krafti í boðunina. Allar götur síðan hafa þjónar Guðs þar í landi getað boðað trúna án afskipta stjórnvalda.

Hugrakkir vottar í Danmörku upp úr 1930.

21, 22. Hvernig dæmdi Hæstiréttur Bandaríkjanna í máli bróður Murdocks?

21 Bandaríkin. Sunnudaginn 25. febrúar 1940 var brautryðjandinn Robert Murdock, Jr., handtekinn ásamt sjö öðrum vottum en þeir höfðu verið að boða trúna í bænum  Jeannette í grennd við Pittsburgh í Pennsylvaníu. Þeir voru fundnir sekir um að hafa ekki keypt leyfi til að bjóða fólki rit. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Bandaríkjanna sem féllst á að taka það fyrir.

22 Hæstiréttur kvað upp dóm sinn 3. maí 1943 og var hann vottunum í vil. Rétturinn féllst ekki á að skylt væri að fá leyfi því að þar með væri „lagt gjald á fólk fyrir að njóta réttinda sem væru tryggð samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna“. Rétturinn ógilti tilskipun bæjarfélagsins og kallaði hana „skerðingu á prentfrelsi og hömlur á að fólk gæti iðkað trú sína að vild“. William O. Douglas dómari flutti úrskurð meirihluta Hæstaréttar og sagði um starfsemi Votta Jehóva: „Hún er meira en boðun, hún er meira en dreifing trúarlegra rita. Hún er sambland beggja.“ Hann bætti við: „Trúarleg starfsemi af þessu tagi nýtur sömu réttinda ... og tilbeiðsla og prédikun í kirkjum.“

23. Hvers vegna eru dómsmálin, sem unnust árið 1943, mikilvæg fyrir okkur núna?

23 Þessi dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna var meiri háttar sigur fyrir þjóna Guðs. Hann staðfesti að við værum kristnir boðberar en ekki sölumenn. Þennan minnisverða dag árið 1943 unnu Vottar Jehóva 12 mál af 13 sem voru fyrir Hæstarétti. Murdock-málið var eitt þeirra. Þessir dómsúrskurðir hafa  reynst mikilvæg fordæmi í dómsmálum á síðari árum þar sem andstæðingar okkar hafa enn og aftur véfengt rétt okkar til að boða boðskapinn um ríkið opinberlega og með því að ganga í hús.

„Framar ber að hlýða Guði en mönnum“

24. Hvað gerum við þegar ríkisstjórn bannar okkur að boða ríki Guðs?

24 Við erum ákaflega þakklát stjórnvöldum sem veita okkur lagalegan rétt til að boða ríki Guðs að vild. En þegar einhver ríkisstjórn bannar boðunina breytum við bara um aðferðir og höldum boðuninni áfram með þeim aðferðum sem hægt er að beita. Við vitum, rétt eins og postularnir, að „framar ber að hlýða Guði en mönnum“. (Post. 5:29; Matt. 28:19, 20) En jafnframt reynum við að fá slíkum bönnum aflétt með því að leita til dómstóla. Við skulum líta á tvö dæmi.

25, 26. Hvaða mál var tekið fyrir í Hæstarétti Níkaragva, hver var aðdragandi þess og hvernig fór það?

25 Níkaragva. Hinn 19. nóvember 1952 gekk Donovan Munsterman, trúboði og umsjónarmaður deildarskrifstofunnar, inn á skrifstofu Útlendingastofnunar í höfuðborginni Managva. Hann hafði fengið boð um að hitta Arnoldo García sem var yfirmaður stofnunarinnar. García sagði Donovan að Vottum Jehóva í Níkaragva væri „bannað að boða kennisetningar sínar og stunda trúarlega starfsemi“. Spurður um ástæðuna svaraði García að Vottarnir hefðu ekki leyfi ráðherra til að stunda trúboð og væru sakaðir um að vera kommúnistar. Og hverjir skyldu hafa sakað okkur um það? Prestar rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Bræður og systur í Níkaragva meðan bannið var í gildi.

26 Donovan skaut málinu þegar í stað til ráðuneytis stjórnar og trúmála og einnig til Anastasios Somoza García forseta,  en án árangurs. Vottarnir breyttu því um starfsaðferðir. Þeir lokuðu ríkissalnum, héldu samkomur í fámennum hópum og hættu að vitna á götum úti. Þeir héldu samt áfram að boða fagnaðarerindið. Þeir lögðu inn beiðni til Hæstaréttar Níkaragva um að ógilda bannið. Mikið var fjallað um bannið í dagblöðum og um beiðni safnaðarins til Hæstaréttar. Rétturinn féllst á að taka málið fyrir. Hvernig fór? Hæstiréttur birti einróma úrskurð sinn 19. júní 1953 og hann var Vottunum í vil. Í úrskurði Hæstaréttar kom fram að bannið bryti gegn ákvæðum stjórnarskrár um tjáningar-, samvisku- og trúfrelsi. Þar sagði einnig að samband stjórnar Níkaragva og Votta Jehóva skyldi vera með sama hætti og verið hafði fyrir bannið.

27. Hvers vegna kom dómur Hæstaréttar íbúum Níkaragva á óvart og hvernig litu trúsystkini okkar á sigurinn?

27 Íbúar Níkaragva voru furðu lostnir að Hæstiréttur skyldi taka afstöðu með Vottum Jehóva. Fram að þeim tíma höfðu prestar haft það sterk ítök í landinu að Hæstiréttur forðaðist að lenda upp á kant við þá. Stjórnmála- og embættismenn voru líka svo valdamiklir að Hæstiréttur tók sjaldan afstöðu gegn ákvörðunum þeirra. Bræður okkar og systur voru sannfærð um að þau hefðu haft sigur í þessu máli vegna þess að þau höfðu haldið boðuninni áfram og notið verndar konungs síns. – Post. 1:8.

28, 29. Hvaða óvænti atburður átti sér stað í Saír árið 1986?

28 Saír. Um 1985 voru um það bil 35.000 vottar í Saír sem nú heitir Austur-Kongó. Ný deildarskrifstofa var í smíðum til að anna vaxandi starfsemi safnaðarins. Í desember 1985 var haldið alþjóðamót í höfuðborginni Kinshasa og 32.000 gestir víða að úr heiminum fylltu leikvang borgarinnar. En skömmu síðar breyttust aðstæður þjóna Jehóva í landinu. Hvað gerðist?

29 Bróðir Marcel Filteau var trúboði í Saír á þeim tíma en hann hafði mátt þola ofsóknir í Quebec í Kanada í valdatíð Duplessis. Hann segir frá því sem gerðist: „Hinn 12. mars 1986 var bræðrunum, sem fóru með forystuna, afhent bréf þar sem lýst var yfir að söfnuður Votta Jehóva í Saír væri bannaður.“ Bannið var undirritað af forseta landsins, Mobutu Sese Seko.

30. Hvaða ákvörðun þurfti deildarnefndin að taka og hver var niðurstaðan?

30 Daginn eftir var tilkynnt í ríkisútvarpi Saír: „Við eigum aldrei framar eftir að heyra minnst á Votta Jehóva í [Saír].“ Ofsóknir skullu á þegar í stað. Ríkissalir voru eyðilagðir og bræður og systur rænd, handtekin, hneppt í fangelsi og þeim misþyrmt. Börn votta voru meira að segja fangelsuð. Hinn 12. október 1988 lögðu stjórnvöld hald á eignir safnaðarins og þjóðvarðliðið, sem var deild í hernum, lagði undir sig deildarskrifstofuna. Forystumenn safnaðarins sendu Mobutu forseta beiðni um að afturkalla bannið en henni var ekki svarað. Þegar þar var komið sögu þurfti deildarnefndin  í landinu að taka alvarlega ákvörðun: „Eigum við að skjóta málinu til Hæstaréttar eða eigum við að bíða átekta?“ Timothy Holmes var trúboði og ritari deildarnefndarinnar á þeim tíma. Hann segir: „Við leituðum leiðsagnar Jehóva og báðum hann að gefa okkur visku.“ Eftir að hafa beðið til Jehóva og hugleitt málið komst deildarnefndin að þeirri niðurstöðu að það væri ekki tímabært að fara dómstólaleiðina. Þeir beindu því kröftum sínum að því að annast söfnuðinn og leita leiða til að halda boðuninni áfram.

„Meðan málareksturinn stóð yfir sáum við hvernig Jehóva getur breytt gangi mála.“

31, 32. Hvaða ótrúlega úrskurð felldi Hæstiréttur Saír og hvaða áhrif hafði hann á bræður og systur?

31 Nokkur ár liðu. Það dró úr ofsóknum á hendur vottunum í Saír og virðing fyrir mannréttindum fór vaxandi. Deildarnefndin taldi að nú væri tímabært að mótmæla banninu og reyna að fá Hæstarétt landsins til að hnekkja því. Svo ótrúlegt sem það var féllst Hæstiréttur á að taka málið fyrir. Hinn 8. janúar 1993, næstum sjö árum eftir að forseti Saír hafði bannað söfnuðinn, felldi Hæstiréttur þann úrskurð að aðgerðir stjórnvalda gegn Vottum Jehóva hefðu verið ólöglegar og banninu var aflétt. Hugsaðu þér hvað þetta þýddi. Dómararnir settu sig í lífshættu með því að ógilda ákvörðun forseta landsins. Timothy Holmes segir: „Meðan málareksturinn stóð yfir sáum við hvernig Jehóva getur breytt gangi mála.“ (Dan. 2:21) Sigurinn styrkti trú bræðra og systra. Þau fundu fyrir því að konungurinn Jesús hafði leiðbeint þjónum sínum þannig að þeir vissu hvað þeir ættu að gera og hvenær.

Vottar Jehóva í Austur-Kongó fagna því að hafa frelsi til að tilbiðja Jehóva.

32 Eftir að banninu var aflétt fékk deildarskrifstofan leyfi til að fá trúboða til landsins, reisa nýtt húsnæði undir starfsemi  sína og flytja inn biblíutengd rit. * Það er einstaklega ánægjulegt fyrir þjóna Jehóva um allan heim að sjá hvernig hann vakir yfir velferð þeirra. – Jes. 52:10.

Jehóva er hjálpari okkar

33. Hvað sýnir þessi stutta yfirferð yfir nokkur dómsmál sem við höfum unnið?

33 Yfirferð okkar yfir nokkra af þeim sigrum, sem við höfum unnið fyrir rétti, sýnir og sannar að Jesús hefur staðið við loforð sitt: „Ég mun gefa yður orð og visku sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.“ (Lestu Lúkas 21:12-15.) Greinilegt er að Jehóva hefur stundum vakið upp menn á borð við Gamalíel til að vernda þjóna sína, eða fengið hugrakka dómara og lögmenn til að verja rétt þeirra. Jehóva hefur gert vopn andstæðinganna bitlaus. (Lestu Jesaja 54:17.) Þeir geta ekki stöðvað það verk sem Guð hefur falið þjónum sínum að vinna.

34. Hvers vegna er merkilegt að við skulum hafa unnið mörg dómsmál og hvað sannar það? (Sjá einnig greinina „ Markverðir hæstaréttardómar sem voru boðuninni til eflingar“.)

34 Hvað er svona merkilegt við það að við skulum hafa gengið með sigur af hólmi í mörgum dómsmálum? Hugsaðu málið. Vottar Jehóva eru hvorki áhrifamiklir né hátt skrifaðir í samfélaginu. Við kjósum ekki, styðjum ekki kosningabaráttu flokka eða frambjóðenda og reynum ekki að beita stjórnmálamenn þrýstingi. Og þau okkar sem hafa komið fyrir hæstarétt hafa upp til hópa talist vera „óbrotnir alþýðumenn“. (Post. 4:13) Frá mannlegum bæjardyrum séð hafa dómstólar ósköp litla ástæðu til að koma okkur til hjálpar og standa gegn voldugum andstæðingum okkar á sviði stjórnmála og trúmála. Samt sem áður hafa dómstólar æ ofan í æ dæmt okkur í vil. Þeir sigrar, sem við höfum unnið fyrir dómstólum, sanna að við störfum „frammi fyrir augliti Guðs“ og erum í „samfélagi við Krist“. (2. Kor. 2:17) Við tökum því undir með Páli postula og segjum: „Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast.“ – Hebr. 13:6.

^ gr. 9 Þetta mál, Cantwell gegn Connecticutríki, var fyrsta málið af 43 sem Hayden Covington flutti fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna fyrir hönd bræðra og systra. Hann lést árið 1978. Dorothy, eiginkona hans, þjónaði Jehóva dyggilega til dauðadags. Hún lést árið 2015, 92 ára að aldri.

^ gr. 12 Ákæran var byggð á lögum sem sett voru árið 1606. Þau heimiluðu kviðdómi að lýsa mann sekan ef talið var að hann hefði með orðum sínum ýtt undir mótspyrnu – jafnvel þó að hann hefði farið með rétt mál.

^ gr. 14 Árið 1950 störfuðu 164 boðberar í fullu starfi í Quebec, þar á meðal 63 sem höfðu setið Gíleaðskólann en fallist á að starfa þar þrátt fyrir þá hatrömmu andstöðu sem beið þeirra.

^ gr. 15 Bróðir W. Glen How var hugrakkur og fær lögmaður sem flutti hundruð mála fyrir votta Jehóva í Kanada og víðar á árabilinu 1943 til 2003.

^ gr. 16 Nánari upplýsingar um þetta mál er að finna í greininni „The Battle Is Not Yours, but God’s“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. apríl 2000, bls. 18-24.

^ gr. 32 Þjóðvarðliðið rýmdi að lokum fyrrverandi deildarskrifstofu en nýja húsnæðið var byggt annars staðar.