Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 12. KAFLI

Talaðu það sem er „gott til uppbyggingar“

Talaðu það sem er „gott til uppbyggingar“

„Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:29.

1-3. (a) Hvaða gjöf höfum við fengið frá Jehóva og hvernig er hægt að misnota hana? (b) Hvernig þurfum við að nota talgáfuna til að kærleikur Guðs varðveiti okkur?

SEGJUM að þú gefir ástvini gjöf. Hvernig myndi þér líða ef hann misnotaði hana af ásettu ráði? Setjum sem svo að þú hafir gefið honum bíl en uppgötvir svo að hann keyrir glannalega og veldur slysum. Myndi það ekki valda þér vonbrigðum?

2 Hæfileikinn til að tjá okkur svo að aðrir skilji er gjöf frá Jehóva en „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ er komin frá honum. (Jakobsbréfið 1:17) Þessi gjöf, sem skilur milli manna og dýra, gerir okkur kleift að tjá öðrum bæði hugsanir okkar og tilfinningar. En það er hægt að misnota talgáfuna rétt eins og ökutæki. Það hlýtur að hryggja Jehóva þegar menn fara illa með þessa gjöf og valda öðrum sorg og sársauka.

3 Til að kærleikur Guðs varðveiti okkur þurfum við að nota talgáfuna eins og gjafarinn ætlaðist til. Jehóva lætur okkur ekki velkjast í vafa um hvers konar tal sé honum þóknanlegt. Í orði hans segir: „Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Við skulum  nú ræða hvers vegna við þurfum að hafa taumhald á tungunni, hvers konar tal við eigum að forðast og hvernig við getum talað það „sem er gott til uppbyggingar“.

AF HVERJU ÞURFUM VIÐ AÐ GÆTA TUNGUNNAR?

4, 5. Hvernig er áhrifum orða lýst í nokkrum orðskviðum Biblíunnar?

4 Ein mikilvæg ástæða til að hafa taum á tungu sinni er að orð hafa áhrif. Í Orðskviðunum 15:4 segir: „Hógværð tungunnar er lífstré en fals hennar veldur hugarkvöl.“ * Hlýleg og huggandi orð geta verið endurnærandi fyrir þann sem heyrir, ekki ósvipað og vatn hleypir nýju lífi í skrælnað tré. Ill orð spilltrar tungu geta aftur á móti hryggt og brotið niður. Við getum bæði sært og huggað með því sem við segjum. — Orðskviðirnir 18:21.

5 Annar orðskviður lýsir á mjög lifandi hátt hve mikil áhrif orð geta haft: „Vanhugsuð orð eru sem sverðalög.“ (Orðskviðirnir 12:18) Vanhugsuð orð sögð í fljótfærni geta sært fólk mjög djúpt og valdið vinaskilnaði. Hefur þú einhvern tíma verið stunginn með meiðandi orðum? Í sama orðskvið kveður líka við jákvæðan tón þar sem segir: „Tunga hins vitra græðir.“ Hugulsöm  orð, sem vitna um viskuna frá Guði, geta læknað kvalið hjarta og styrkt vináttubönd að nýju. Manstu eftir einhverju dæmi um það hve græðandi hlý og góð orð geta verið? (Orðskviðirnir 16:24) Í ljósi þess að töluð orð hafa áhrif viljum við auðvitað nota tunguna til að græða en ekki meiða.

Hlýleg orð eru upplífgandi.

6. Af hverju kostar það heilmikla baráttu að hafa taumhald á tungunni?

6 En hvað sem við reynum tekst okkur aldrei að hafa fullkomna stjórn á tungunni. Það er önnur ástæða fyrir því að við þurfum að hafa gát á því hvernig við tölum: Okkur hættir til að misbeita tungunni af því að við erum syndug og ófullkomin. Orð eiga upptök sín í hjartanu og „hneigðir mannsins [eru] illar“. (1. Mósebók 8:21; Lúkas 6:45) Það kostar því heilmikla baráttu að hafa taumhald á tungunni. (Jakobsbréfið 3:2-4) En þó að við getum ekki haft fullkomna stjórn á henni getum við unnið jafnt og þétt að því að bæta okkur. Sundmaður, sem reynir að synda á móti straumi, þarf að leggja heilmikið á sig til að berjast gegn straumnum. Við þurfum líka að berjast linnulaust gegn syndugri tilhneigingu okkar til að misnota tunguna.

7, 8. Að hvaða marki gerir Jehóva okkur ábyrg fyrir því sem við segjum?

7 Þriðja ástæðan til að gæta tungu sinnar er sú að Jehóva gerir okkur ábyrg fyrir því sem við segjum. Með tungunni höfum við bæði áhrif á samband okkar við aðra menn og við Jehóva. Í Jakobsbréfinu 1:26 stendur: „Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.“ * Eins og fram kom í kaflanum á undan er það  sem við segjum nátengt tilbeiðslu okkar. Ef tungan er taumlaus — ef hún eys úr sér meiðandi og eitruðum orðum — þá gætu öll trúarverk okkar verið einskis virði í augum Guðs. Er það ekki alvarlegt umhugsunarefni? — Jakobsbréfið 3:8-10.

8 Ljóst er að við höfum ærna ástæðu til að misnota ekki málið sem Guð gaf okkur. Áður en við fjöllum um heilnæmt tal sem byggir upp skulum við líta á tal sem á alls ekki að heyrast meðal sannkristinna manna.

TAL SEM RÍFUR NIÐUR

9, 10. (a) Hvers konar orðbragð er orðið hluti af daglegu tali margra? (b) Af hverju þurfum við að forðast svívirðilegt orðbragð? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

9 Svívirðilegt orðbragð. Blótsyrði, formælingar og annað svívirðilegt orðbragð er orðið fastur þáttur í daglegu tali fólks í heiminum. Margir nota blótsyrði til að krydda mál sitt eða bæta upp takmarkaðan orðaforða. Margir grínistar bregða fyrir sig klúru máli og vísunum til kynferðismála í því skyni að fá fólk til að hlæja. En svívirðilegt orðbragð er ekkert til að hlæja að. Fyrir um það bil 2000 árum ráðlagði Páll postuli söfnuðinum í Kólossu að segja skilið við „svívirðilegt orðbragð“. (Kólossubréfið 3:8) Hann skrifaði söfnuðinum í Efesus að „ósæmandi spé“ ætti „ekki einu sinni að nefnast á nafn“ meðal sannkristinna manna. — Efesusbréfið 5:3, 4.

10 Jehóva hefur andstyggð á svívirðilegu orðbragði. Við sem elskum hann höfum líka andstyggð á slíku orðbragði og viljum ekki heyra það. Þegar Páll telur upp „holdsins verk“ nefnir hann meðal annars ‚óhreinleika‘ sem getur falið í sér óhreint orðbragð. (Galatabréfið 5:19-21) Þetta er alvarlegt mál. Hægt er að víkja manni úr söfnuðinum ef hann temur sér svívirðilega siðlausan,  niðrandi og siðspillandi talsmáta eða ýtir undir slíkt með tali sínu en iðrast ekki þrátt fyrir endurteknar áminningar. *

11, 12. (a) Í hvaða tilfellum væri skaðlegt að tala um aðra? (b) Hvers vegna þurfa tilbiðjendur Jehóva að forðast rógburð?

11 Skaðlegt slúður og rógur. Slúður er fólgið í innantómu tali um fólk og líf þess. Er allt umtal um aðra skaðlegt? Nei, ekki ef um er að ræða saklausar umræður þar sem sagðar eru jákvæðar eða gagnlegar fréttir af öðrum, til dæmis hverjir hafi látið skírast eða hver þurfi á uppörvun að halda. Kristnir menn á fyrstu öld höfðu einlægan áhuga á velferð hver annars og skiptust á viðeigandi upplýsingum um trúsystkini. (Efesusbréfið 6:21, 22; Kólossubréfið 4:8, 9) Slúður getur hins vegar verið skaðlegt ef það brenglar staðreyndir eða dreifir söguburði um einkalíf fólks. Og það getur leitt út í róg sem er alltaf skaðlegur og því alvarlegt mál. Rógur lýsir sér í ósönnum ásökunum sem spilla mannorði eða heiðri annarra. Farísear reyndu til dæmis að gera Jesú tortryggilegan með því að bera út illgjarnan róg um hann. (Matteus 9:32-34; 12:22-24) Rógur kveikir oft deilur. — Orðskviðirnir 26:20.

12 Jehóva lítur það mjög alvarlegum augum ef talgáfan er notuð til að ófrægja aðra eða valda sundrung. Hann hatar hvern þann sem „kveikir illdeilur meðal bræðra“. (Orðskviðirnir 6:16-19) Gríska orðið diaʹbolos, sem er þýtt „rógberi“, er einnig notað sem heiti á Satan. Hann  er „djöfull“, það er að segja siðspilltur andi sem rægir Guð. (Opinberunarbókin 12:9, 10) Ekki viljum við láta okkur nokkuð um munn fara sem gerir okkur lík djöflinum. Rógur, sem ýtir undir verk holdsins eins og „tvídrægni“ eða sundurlyndi, á ekki heima í söfnuðinum. (Galatabréfið 5:19-21) Áður en þú hefur eitthvað eftir sem þú hefur heyrt um aðra manneskju skaltu spyrja þig hvort það sé satt. Bæri það vott um vinsemd að hafa það eftir? Er nauðsynlegt eða ráðlegt að láta þessar upplýsingar berast áfram? — 1. Þessaloníkubréf 4:11.

13, 14. (a) Hvaða áhrif geta lastmæli haft á aðra? (b) Af hverju er sá í hættu sem leggur í vana sinn að lasta aðra?

13 Lastmæli. Orð geta sært eins og áður hefur komið fram. En við ófullkomnir mennirnir segjum stundum eitthvað sem við sjáum eftir. Í Biblíunni er hins vegar varað við ákveðnum talsmáta sem er allsendis óviðeigandi á kristnu heimili og í söfnuðinum. Páll skrifaði kristnum mönnum: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur.“ (Efesusbréfið 4:31) Í öðrum biblíuþýðingum er talað um „illmæli“, „ljót orð“ og „skaðlegt málfar“. Lastmæli, þar á meðal niðurlægjandi uppnefni og hörð og vægðarlaus gagnrýni, getur svipt aðra reisn sinni svo að þeim finnst þeir einskis virði. Börn eru viðkvæm og eru því sérstaklega varnarlítil gegn ljótum orðum sem brjóta niður. — Kólossubréfið 3:21.

14 Biblían kveður mjög fast að orði þegar hún fordæmir það að lasta aðra með svívirðingum og særandi eða niðrandi orðum. Sá sem leggur slíkt í vana sinn setur sjálfan sig í mikla hættu því að það er hægt að víkja honum úr söfnuðinum ef hann lætur sér ekki segjast eftir að reynt hefur verið ítrekað að hjálpa honum. Ef hann breytir ekki um háttalag getur svo farið að hann fái ekki  að lifa í nýja heiminum. (1. Korintubréf 5:11-13; 6:9, 10, Biblían 1981) Ljóst er því að það er enginn möguleiki á að kærleikur Guðs varðveiti okkur ef við leggjum í vana okkar að tala það sem er óheilnæmt, ósatt og óvinsamlegt. Þess háttar tal rífur niður.

ORÐ SEM ERU „TIL UPPBYGGINGAR“

15. Hvers konar tal er „gott til uppbyggingar“?

15 Hvernig getum við notað talgáfuna á þann hátt sem gjafari hennar ætlaðist til? Eins og við munum erum við hvött í Biblíunni til að tala „það eitt sem er gott til uppbyggingar“. (Efesusbréfið 4:29) Það gleður Jehóva að heyra okkur tala orð sem byggja upp, hvetja og styrkja. Slík orð kosta umhugsun. Það er enga sérstaka forskrift að finna í Biblíunni um þetta og þar er ekki heldur nein skrá um „heilnæm“ orð sem hlotið hafa viðurkenningu. (Títusarbréfið 2:8) Ef við viljum tala það sem er „gott til uppbyggingar“ ættum við að hafa í huga þrjú einföld atriði sem einkenna uppbyggilegt tal: Það er heilnæmt, það er satt og það er vinsamlegt. Með þetta í huga skulum við líta á nokkur dæmi um uppbyggilegt tal. — Sjá rammagreinina „ Er ég uppbyggilegur í tali?“.

16, 17. (a) Af hverju ættum við að hrósa öðrum? (b) Hvaða tækifæri bjóðast til að hrósa öðrum í söfnuðinum? En í fjölskyldunni?

16 Einlægt hrós. Bæði Jehóva og Jesús vita hve mikilvægt það er að hrósa og láta í ljós velþóknun. (Matteus 3:17; 25:19-23; Jóhannes 1:47) Við sem erum kristin ættum að vera dugleg að hrósa öðrum. Af hverju? Af því að „fagurt er orð í tíma talað“ eins og segir í Orðskviðunum 15:23. Gott er að spyrja sig hvaða áhrif einlægt hrós hafi á mann. Hlýnar manni ekki um hjartaræturnar? Er það ekki uppörvandi? Einlægt hrós segir okkur að það sé  tekið eftir okkur, að einhver láti sér annt um okkur og að það sem við gerðum hafi verið ómaksins vert. Slíkt er ákaflega traustvekjandi. Það byggir upp sjálfstraust og hvetur mann til að gera enn betur eftirleiðis. Þar sem þér finnst notalegt að hrós, ættirðu þá ekki að gera þitt besta til að veita hrós? — Matteus 7:12.

17 Vendu þig á að sjá hið góða í fari annarra og hrósaðu síðan fyrir það sem þú sérð. Þú heyrir kannski ræðu á safnaðarsamkomu sem er vel uppbyggð, sérð ungt fólk setja sér markmið í söfnuðinum eða horfir á hvernig aldraðir þjónar Guðs sækja samkomur dyggilega þrátt fyrir þau takmörk sem fylgja ellinni. Einlægt hrós getur snortið þá og styrkt í þjónustu Jehóva. Hjón þurfa að fá hlýlegt hrós og þakkir hvort frá öðru. (Orðskviðirnir 31:10, 28) Og börnin dafna þegar þau finna að það er tekið eftir þeim og þau eru einhvers metin. Hrós og velþóknun hefur sömu áhrif á barn eins og vatn og sólskin á plöntu. Þið foreldrar ættuð að leita færis að hrósa börnunum fyrir góða eiginleika og viðleitni. Slíkt hrós getur byggt upp hugrekki þeirra og sjálfstraust og verið þeim hvatning til að leggja sig enn betur fram við að gera rétt.

18, 19. Af hverju ættum við að gera okkar besta til að hugga og hughreysta trúsystkini og hvernig getum við gert það?

18 Huggun og hughreysting. Jehóva er ákaflega annt um „bágstadda“ og ‚þjakaða‘. (Sálmur 72:13; Jesaja 57:15) Í Biblíunni er brýnt fyrir okkur að ‚hvetja hvert annað‘ og ‚hughreysta ístöðulitla‘. (1. Þessaloníkubréf 5:11, 14) Við getum verið viss um að Jehóva tekur eftir og kann að meta það sem við gerum til að hugga og hughreysta trúsystkini sem eru niðurdregin og sorgmædd.

Við gleðjum Jehóva þegar við uppbyggjum aðra með orðum okkar.

19 En hvað er hægt að segja til að byggja upp trúbróður eða trúsystur sem er döpur eða niðurdregin? Þú þarft  ekki að hugsa sem svo að þú þurfir að leysa vandann. Oft er áhrifaríkast að segja eitthvað einfalt. Þú getur fullvissað hinn niðurdregna um að þér sé annt um hann. Þú getur boðist til að biðja upphátt með honum og sárbænt Jehóva um að hjálpa honum að finna hve mikils virði hann sé í augum annarra og í augum Jehóva. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Fullvissaðu hann um að hann sé verðmætur og mikils metinn í söfnuðinum. (1. Korintubréf 12:12-26) Lestu uppörvandi biblíuvers til að minna hann á hve annt Jehóva sé um hann sem einstakling. (Sálmur 34:19; Matteus 10:29-31) Ef þú gefur þér góðan tíma til að segja „vingjarnlegt orð“ við hinn niðurdregna og talar frá hjartanu, hjálparðu honum eflaust til að finna að hann er elskaður og mikils metinn. — Orðskviðirnir 12:25.

20, 21. Hvað stuðlar að því að ráðleggingar séu áhrifaríkar?

20 Áhrifaríkar ráðleggingar. Þar sem við erum ófullkomin þurfum við öll að fá ráð og leiðbeiningar af og til. „Hlýddu ráðum og taktu umvöndun svo að þú verðir vitur að lokum,“ segir í Orðskviðunum 19:20. Það eru ekki bara öldungarnir sem eiga að gefa ráð. Foreldrar leiðbeina börnunum. (Efesusbréfið 6:4) Þroskaðar systur geta þurft að leiðbeina yngri konum. (Títusarbréfið  2:3-5) Ef við elskum aðra langar okkur til að gefa ráð sem aðrir geta þegið án þess að finnast þeir niðurbrotnir. Hvað getur auðveldað okkur að gefa slík ráð? Lítum á þrennt sem getur gert ráðleggingar áhrifaríkar: Viðhorf og tilefni ráðgjafans, grundvöllur ráðlegginganna og það hvernig þær eru gefnar.

21 Áhrifaríkar ráðleggingar eru að miklu leyti undir ráðgjafanum komnar. Spyrðu sjálfan þig undir hvaða kringumstæðum þú eigir auðveldast með að taka ráðum annarra. Ef þú veist að ráðgjafanum er annt um þig, hann er ekki pirraður og það búa engar annarlegar hvatir að baki er auðveldara en ella að þiggja ráð. Ætti þá ekki hið sama að gilda um viðhorf þín og tilefni þegar þú gefur öðrum ráð? Góð og árangursrík ráð byggjast líka á orði Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvort sem við vitnum beint í Biblíuna eða ekki ætti að vera biblíulegur grundvöllur fyrir því sem við ráðleggjum öðrum. Safnaðaröldungar gæta þess að þröngva ekki eigin skoðunum upp á aðra, og þeir snúa ekki út úr orðum Biblíunnar til að láta líta út fyrir að hún styðji persónulegar skoðanir þeirra. Og ráðleggingar eru líka áhrifaríkari ef þær eru gefnar á réttan hátt. Það er auðveldara að þiggja ráð ef þau eru krydduð góðvild og leyfa viðtakandanum að halda reisn sinni. — Kólossubréfið 4:6.

22. Hvernig ætlar þú að nota talgáfuna?

22 Málið er dýrmæt gjöf frá Guði. Þar sem við elskum hann viljum við ekki misnota þessa gjöf heldur nota hana vel. Höfum hugfast að orð okkar hafa áhrif — þau geta byggt upp eða brotið niður. Leggjum okkur því í líma við að nota þessa gjöf „til uppbyggingar“ eins og gjafarinn ætlaðist til. Þá verður það sem við segjum til blessunar þeim sem við umgöngumst og það stuðlar að því að kærleikur Guðs varðveiti okkur.

^ gr. 4 Hebreska orðið, sem er þýtt „fals“ í Orðskviðunum 15:4, getur einnig merkt „sviksemi, spilling“.

^ gr. 7 Gríska orðið, sem er þýtt „fánýt“, merkir einnig „gagnslaus“ eða „árangurslaus“.

^ gr. 10 Í Biblíunni hefur orðið „óhreinleiki“ breiða merkingu og getur náð yfir syndir af ýmiss konar tagi. Óhreinleiki kallar ekki alltaf á að dómnefnd taki málið fyrir en hins vegar er hægt að víkja einstaklingi úr söfnuðinum ef hann stundar grófan óhreinleika og iðrast ekki. — 2. Korintubréf 12:21; Efesusbréfið 4:19; sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júlí 2006.