Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“

 8. KAFLI

Guð elskar þá sem eru hreinir

Guð elskar þá sem eru hreinir

„Gagnvart hreinum [ert þú] hreinn.“ — SÁLMUR 18:27, Biblían 1981.

1-3. (a) Af hverju gengur móðir úr skugga um að sonur hennar sé hreinn og snyrtilegur? (b) Hvers vegna vill Jehóva að tilbiðjendur sínir séu hreinir og af hverju langar okkur til að vera hrein?

MÓÐIRIN hjálpar drengnum að hafa sig til áður en hann fer út. Hann er búinn að fara í bað og fötin hans eru hrein og snyrtileg. Móðirin veit að hreinlæti stuðlar að góðu heilsufari. Hún veit líka að útlit drengsins segir sína sögu um foreldrana.

2 Jehóva, faðir okkar á himnum, vill að þjónar sínir séu hreinir. Í orði hans segir um hann: „Gagnvart hreinum [ert þú] hreinn.“ * (Sálmur 18:27, Biblían 1981) Jehóva elskar okkur og veit að það er okkur fyrir bestu að vera hrein.  Hann vill líka að vottar hans séu honum til sóma. Ef við erum hrein og komum vel fram köstum við ekki rýrð á Jehóva heldur heiðrum hann og heilagt nafn hans. — Esekíel 36:22; 1. Pétursbréf 2:12.

3 Sú vitneskja að Guð elskar þá sem eru hreinir er okkur hvatning til að vera hrein. Við elskum hann og viljum þess vegna heiðra hann með líferni okkar. Við viljum líka að kærleikur hans varðveiti okkur. Við skulum því kanna hvers vegna við þurfum að vera hrein, hvað er fólgið í því og hvernig við getum haldið okkur hreinum. Það getur verið leið til að kanna hvort við þurfum að bæta okkur á einhverju sviði.

AF HVERJU ÞURFUM VIÐ AÐ VERA HREIN?

4, 5. (a) Hver er meginástæðan fyrir því að við þurfum að vera hrein? (b) Hvernig endurspeglar sköpunarverkið hreinleika Jehóva?

4 Jehóva kennir okkur meðal annars með fordæmi sínu, og í Biblíunni erum við hvött til að vera „eftirbreytendur Guðs“. (Efesusbréfið 5:1) Meginástæðan fyrir því að við viljum vera hrein er sú að Jehóva Guð, sem við tilbiðjum, er hreinn og heilagur að öllu leyti. — 3. Mósebók 11:44, 45.

5 Sköpunarverk Jehóva endurspeglar hreinleika og marga aðra eiginleika hans. (Rómverjabréfið 1:20) Jörðin var gerð til að vera hreint heimili mannkyns. Jehóva kom af stað hringrásum í náttúrunni sem hreinsa loftið og vatnið. Sumar örverur vinna eins og hreinsunardeild og breyta úrgangsefnum í skaðlaust form. Vísindamenn hafa notað sér sumar af þessum átfreku örverum til að hreinsa upp eftir olíuleka og aðra mengun sem rekja má til eigingirni og græðgi mannanna. Augljóst er að „sá sem skapaði jörðina“ leggur mikið upp úr hreinleika. (Jeremía 10:12) Það ættum við líka að gera.

6, 7. Hvernig lögðu Móselögin áherslu á að tilbiðjendur Jehóva yrðu að vera hreinir?

 6 Önnur ástæða til að vera hreinn er sú að Jehóva, Drottinn okkar, ætlast til þess að þeir sem tilbiðja hann séu hreinir. Hreinleiki og tilbeiðsla héldust í hendur samkvæmt lögmálinu sem hann gaf Ísraelsmönnum. Þar var tekið fram að æðstipresturinn ætti að baða sig á friðþægingardeginum, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. (3. Mósebók 16:4, 23, 24) Þegar prestar gegndu embættisstörfum þurftu þeir að þvo sér um hendur og fætur áður en þeir báru fram fórnir fyrir Jehóva. (2. Mósebók 30:17-21; 2. Kroníkubók 4:6) Í lögmálinu voru taldar upp um 70 hugsanlegar orsakir þess að fólk gat talist líkamlega eða trúarlega óhreint. Ef Ísraelsmaður var óhreinn mátti hann ekki taka þátt í tilbeiðslunni. Í sumum tilfellum lá dauðarefsing við. (3. Mósebók 15:31) Ef einhver vildi ekki gangast undir þá hreinsun sem kveðið var á um, þar á meðal að baða sig og þvo föt sín, átti að ‚uppræta hann úr söfnuðinum‘. — 4. Mósebók 19:17-20.

7 Þó að við séum ekki bundin af Móselögunum gefa þau innsýn í afstöðu Guðs. Ljóst er af lögmálinu að þeir sem tilbáðu Guð urðu að vera hreinir. Jehóva hefur ekki breyst. (Malakí 3:6) Hann hefur ekki velþóknun á tilbeiðslu okkar nema hún sé „hrein og flekklaus“. (Jakobsbréfið 1:27) Við þurfum því að vita hvers hann ætlast til af okkur á þessu sviði.

HVAÐ ER FÓLGIÐ Í ÞVÍ AÐ VERA HREINN Í AUGUM GUÐS?

8. Á hvaða sviðum ætlast Jehóva til þess að við séum hrein?

8 Þegar talað er í Biblíunni um hreinleika er ekki aðeins átt við hreinlæti í almennum skilningi. Að vera hreinn í augum Jehóva snertir alla þætti tilverunnar. Jehóva ætlast til þess að við séum hrein í huga og á líkama, að við séum siðferðilega hrein og að tilbeiðsla okkar sé hrein. Lítum nánar á þessi fjögur svið.

9, 10. Hvað er fólgið í hreinni tilbeiðslu og hvað forðast sannkristnir menn?

 9 Hrein tilbeiðsla. Hún er í stuttu máli fólgin í því að blanda ekki saman falstrú og hreinni tilbeiðslu. Þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Babýlon og sneru heim til Jerúsalem áttu þeir að hlýða þessum innblásnu fyrirmælum: „Haldið af stað þaðan. Snertið ekkert óhreint . . . hreinsið yður.“ (Jesaja 52:11) Ísraelsmenn sneru fyrst og fremst heim í þeim tilgangi að endurreisa tilbeiðsluna á Jehóva. Tilbeiðslan varð að vera hrein. Hún mátti ekki spillast af kenningum, siðum eða venjum babýlonskra trúarbragða en það hefði vanvirt Jehóva.

10 Við sem erum sannkristin verðum að gæta þess vel að óhreinka okkur ekki á falskri guðsdýrkun. (1. Korintubréf 10:21) Það er nauðsynlegt að vera varkár vegna þess að áhrif falstrúarbragðanna eru mjög útbreidd. Ýmsar hefðir, siðir og venjur víða um lönd eru tengd falstrúarkenningum, svo sem þeirri að eitthvað búi innra með manninum sem lifi af líkamsdauðann. (Prédikarinn 9:5, 6, 10) Sannkristnir menn forðast siði og venjur sem tengjast falstrú á einhvern hátt. * Við látum ekki undan þó að við séum beitt þrýstingi og reynt sé að fá okkur til að slaka á kröfum Biblíunnar um hreina tilbeiðslu. — Postulasagan 5:29.

11. Hvað er fólgið í hreinu siðferði og af hverju er það afar mikilvægt?

11 Hreint siðferði. Til að vera siðferðilega hrein þurfum við að forðast kynferðislegt siðleysi í hvaða mynd sem er. (Efesusbréfið 5:5) Það er ákaflega mikilvægt að vera siðferðilega hreinn. Eins og fram kemur í næsta kafla verðum við að ‚forðast saurlifnaðinn‘ til að kærleikur Guðs varðveiti okkur. Saurlífismenn „munu ekki erfa Guðs ríki“ nema þeir iðrist. (1. Korintubréf 6:9, 10, 18) Í augum Guðs  eru slíkir menn ‚viðurstyggilegir‘. „Hinn annar dauði“ er hlutskipti þeirra sem halda sér ekki siðferðilega hreinum. — Opinberunarbókin 21:8.

12, 13. Hvernig tengjast hugsanir og verk og hvernig getum við haldið huganum hreinum?

12 Hreinn hugur. Hugsanir eru undanfari verka. Ef við leyfum röngum hugsunum að taka sér bólfestu í huga okkar og hjarta eru miklar líkur á að við gerum eitthvað óhreint fyrr eða síðar. (Matteus 5:28; 15:18-20) Ef við aftur á móti fyllum hugann af hreinum hugsunum geta þær verið okkur hvati til að ástunda það sem er hreint. (Filippíbréfið 4:8) Hvernig getum við haldið huganum hreinum? Meðal annars með því að forðast hvers kyns afþreyingarefni sem gæti spillt hugsunum okkar. * Önnur leið til að fylla hugann hreinum hugsunum er að vera duglegir biblíunemendur. — Sálmur 19:9, 10.

13 Til að kærleikur Guðs varðveiti okkur þurfum við að stunda hreina tilbeiðslu, hafa hreint siðferði og halda huganum hreinum. Nánar er fjallað um þessa þætti hreinleikans annars staðar í bókinni. En beinum nú athyglinni að fjórða sviðinu — almennu hreinlæti.

HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ HREINLÁT?

14. Af hverju er það ekki einkamál okkar hvort við erum hreinlát?

14 Hreinlæti er fólgið í því að halda líkama sínum og umhverfi hreinu. Er það einkamál okkar hvort við erum hreinlát? Ekki ef við tilbiðjum Jehóva. Eins og áður hefur komið fram vill Jehóva að við séum hreinlát, ekki aðeins af því að það er okkur fyrir bestu heldur einnig af því að þannig erum við honum til sóma. Rifjum upp dæmið í byrjun kaflans. Veltum við ekki fyrir okkur hvernig foreldrarnir séu ef við sjáum barn sem er alltaf óhreint og illa til fara?  Ekki viljum við að útlit okkar eða líferni kasti rýrð á föðurinn á himnum eða spilli fyrir boðun fagnaðarerindisins. „Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs,“ sagði Páll postuli. (2. Korintubréf 6:3, 4) Hvernig getum við gætt þess að vera hreinlát?

15, 16. Hvað er fólgið í góðu hreinlæti og hvernig ættum við að hugsa um fötin sem við klæðumst?

15 Líkamlegt hreinlæti og útlit. Þó að menning og aðstæður séu breytilegar eftir löndum má yfirleitt finna nægilegt vatn og sápu til að baða sig reglulega og halda sjálfum sér og börnunum hreinum. Það er góður siður að þvo sér um hendur með vatni og sápu áður en maður borðar eða meðhöndlar matvæli, eftir að maður hefur farið á salernið og eftir að hafa þrifið barn eða skipt á því. Hægt er að koma  í veg fyrir sjúkdóma og hreinlega bjarga mannslífum með því að þvo sér um hendur með vatni og sápu. Þannig er hægt að hindra útbreiðslu sýkla og koma í veg fyrir niðurgangssjúkdóma. Í löndum þar sem ekki er algengt að íbúðarhús séu tengd frárennslislögn er kannski hægt að grafa hægðir sínar eins og gert var í Ísrael til forna. — 5. Mósebók 23:12, 13.

16 Það er líka nauðsynlegt að þvo föt sín reglulega til að vera hreinn og frambærilegur. Þjónn Guðs þarf ekki að klæða sig eftir nýjustu tísku eða ganga í dýrum fötum en þau ættu að vera hrein, snyrtileg og látlaus. (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Við viljum ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors‘ hvar sem við erum niðurkomin. — Títusarbréfið 2:10.

17. Af hverju ættum við að gæta þess að heimili okkar og umhverfi sé hreint og frambærilegt?

17 Heimili okkar og umhverfi. Heimili okkar þarf ekki að vera glæsilegt eða íburðarmikið en það ætti að vera eins hreint og frambærilegt og aðstæður leyfa. Ef við notum bíl til að sækja samkomur og fara í boðunarstarfið ættum við að gera okkar besta til að halda honum þokkalega hreinum að utan sem innan. Gleymum ekki að hreint heimili og umhverfi er til lofs fyrir þann Guð sem við tilbiðjum. Við kennum fólki að Jehóva Guð sé hreinn, að hann muni „eyða þeim sem jörðina eyða“ og að ríki hans breyti jörðinni bráðlega í paradís. (Opinberunarbókin 11:18; Lúkas 23:43) Við viljum auðvitað að heimili okkar og eigur beri þess vitni að við temjum okkur nú þegar hreinlæti sem hæfir nýja heiminum fram undan.

Við þurfum að halda líkama okkar og umhverfi hreinu.

18. Hvernig getum við sýnt að við berum virðingu fyrir ríkissalnum?

18 Tilbeiðslustaður. Þar sem við elskum Jehóva berum við virðingu fyrir ríkissalnum en hann er miðstöð sannrar tilbeiðslu á svæðinu. Þegar nýir koma í salinn viljum við að þeir fái góða mynd af staðnum þar sem við höldum samkomur. Til að salurinn sé aðlaðandi fyrir fólk þarf að ræsta  hann reglulega og halda honum vel við. Við sýnum virðingu fyrir ríkissalnum með því að gera það sem við getum til að halda honum við. Það er heiður að geta boðið sig fram til að ræsta, „lagfæra og gera við“ tilbeiðslustaðinn okkar. (2. Kroníkubók 34:10) Hið sama gildir um mótshallir og annað húsnæði sem við notum til að halda svæðis- og umdæmismót.

HREINSUM OKKUR AF VENJUM SEM SAURGA

19. Hvað þurfum við að forðast til að halda líkamanum hreinum og hvernig hjálpar Biblían okkur til þess?

19 Til að halda líkamanum hreinum þurfum við að forðast venjur eða ávana sem saurga líkamann, svo sem reykingar, ofneyslu áfengis og notkun ávana- og fíkniefna. Í Biblíunni eru ekki nafngreindar sérstaklega allar þær óhreinu og ógeðfelldu venjur og ávanar sem tíðkast núna. Hins vegar inniheldur hún meginreglur sem gera okkur kleift að glöggva okkur á því hvernig Jehóva hlýtur að hugsa um slíkt. Þar sem við elskum Jehóva og vitum hvernig hann lítur á málin langar okkur til að gera það sem hann hefur velþóknun á. Lítum á fimm meginreglur í Biblíunni.

20, 21. Hvað vill Jehóva að þú forðist og hvaða sterku rök eru fyrir því að gera það?

20 „Þar eð við því höfum þessi fyrirheit, elskuð börn mín, þá hreinsum okkur af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun okkar í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Jehóva vill að við forðumst hvaðeina sem saurgar líkamann og spillir huga okkar og hneigðum. Þess vegna verðum við að forðast vanabindandi efni sem eru skaðleg fyrir líkama og geðheilsu.

21 Í Biblíunni eru færð sterk rök fyrir því að hreinsa sig „af allri saurgun“. Tökum eftir fyrstu orðunum í 2. Korintubréfi 7:1: „Þar eð við því höfum þessi fyrirheit.“ Hvaða fyrirheit? Í versunum á undan lofar Jehóva: „Ég mun taka  ykkur að mér og ég mun vera ykkur faðir.“ (2. Korintubréf 6:17, 18) Hugsaðu þér: Jehóva lofar að vernda þig og elska eins og faðir elskar son eða dóttur. En hann gerir það því aðeins að þú saurgir þig ekki „á líkama og sál“. Það væri því heimskulegt að láta einhverjar ógeðfelldar venjur eða ávana verða til þess að þú glataðir þessu dýrmæta og nána sambandi við Jehóva.

22-25. Hvaða meginreglur geta hjálpað okkur að forðast óhreinar venjur og ávana?

22 „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Jesús sagði að þetta væri mest allra boðorða Guðs. (Matteus 22:38) Jehóva Guð verðskuldar að við elskum hann heitt. Til að elska hann af öllu hjarta, sálu og huga verðum við að forðast hvaðeina sem gæti stytt líf okkar eða sljóvgað hugann sem hann gaf okkur.

23 „[Jehóva] gefur öllum líf og anda og alla hluti.“ (Postulasagan 17:24, 25) Lífið er gjöf frá Jehóva og við elskum hann þannig að okkur langar til að sýna virðingu fyrir gjöfinni. Við forðumst allar venjur og ávana sem eru skaðlegir heilsunni því að við vitum að annars værum við að sýna mikla óvirðingu fyrir lífinu sem við höfum fengið að gjöf. — Sálmur 36:10.

24 „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:39) Óhreinir ávanar hafa oft áhrif á fleiri en þann sem stundar þá. Óbeinar reykingar geta til dæmis verið skaðlegar þeim sem ekki reykja. Ef við sköðum aðra erum við að brjóta það boðorð Guðs að elska náungann. Og við myndum jafnframt sýna að við elskuðum ekki Guð þó að við héldum öðru fram. — 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.

25 „Minn þau á að lúta höfðingjum og yfirvöldum.“ (Títusarbréfið 3:1) Í mörgum löndum heims er það lögbrot að neyta fíkniefna eða vera með þau í fórum sínum. Við sem  þjónum Guði eigum hvorki ólögleg efni né notum þau. — Rómverjabréfið 13:1.

26. (a) Hvað þurfum við að gera til að kærleikur Guðs varðveiti okkur? (b) Hvers vegna er það okkur fyrir bestu að halda okkur hreinum í augum Guðs?

26 Til að kærleikur Guðs varðveiti okkur verðum við að vera hrein að öllu leyti, ekki aðeins á sumum sviðum. Það getur verið þrautin þyngri að leggja af og forðast óhreinar venjur og ávana en það er hægt og er okkur fyrir bestu. * Jehóva kennir okkur alltaf það sem er gagnlegt fyrir okkur. (Jesaja 48:17) Síðast en ekki síst vitum við að við berum Guði okkar fagurt vitni ef við höldum okkur hreinum og þar með varðveitir kærleikur hans okkur.

^ gr. 2 Hebreska orðið, sem er þýtt „hreinn“, er ekki aðeins notað um hreinan líkama heldur einnig hreint siðferði og hreina tilbeiðslu.

^ gr. 10 Í 13. kafla bókarinnar er fjallað um ýmsar hátíðir og siði sem sannkristnir menn forðast.

^ gr. 12 Í 6. kafla bókarinnar er fjallað um hvernig hægt sé að velja heilnæmt afþreyingarefni.

^ gr. 26 Sjá rammagreinarnar „ Legg ég hart að mér að gera rétt?“ á bls. 94 og „ Guði er ekkert um megn“, hér að ofan.

^ gr. 67 Nafninu er breytt.