Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐAUKI

Afstaða Biblíunnar til skilnaðar

Afstaða Biblíunnar til skilnaðar

Jehóva ætlast til þess að hjón haldi hjúskaparheitið. Þegar hann leiddi fyrsta karlmanninn og fyrstu konuna saman í hjónaband sagði hann: „[Maður]. . . býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.“ Síðar endurtók Jesús Kristur þessi orð og bætti við: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (1. Mósebók 2:24; Matteus 19:3-6) Jehóva og Jesús líta því á hjónaband sem ævilangt samband og það tekur ekki enda fyrr en annað hjónanna deyr. (1. Korintubréf 7:39) Þar sem hjónabandið er heilagt er skilnaður alvarlegt mál. Jehóva hatar meira að segja skilnað ef ekki eru biblíulegar forsendur fyrir honum. — Malakí 2:15, 16.

 Hvaða heimild er gefin í Biblíunni fyrir skilnaði? Þar kemur fram að Jehóva hati hjúskaparbrot og saurlifnað. (1. Mósebók 39:9; 2. Samúelsbók 11:26, 27; Sálmur 51:6) Hann fyrirlítur saurlifnað svo mikið að hann leyfir hjónaskilnað á grundvelli hans. (Í 9. kafla, 7. tölugrein er að finna skýringar á því hvað sé fólgið í saurlifnaði.) Jehóva gefur saklausa aðilanum rétt til að ákveða hvort hann ætli að búa áfram með brotlegum maka sínum eða skilja við hann. (Matteus 19:9) Ef saklausi makinn ákveður að skilja er ekki um að ræða skilnað sem Jehóva hatar. Kristni söfnuðurinn hvetur hins vegar engan til að sækja um skilnað. Í sumum tilfellum getur saklausi aðilinn kosið að búa áfram með brotlegum maka sínum, ekki síst ef hann iðrast í einlægni. En sá sem hefur biblíulegar forsendur til að sækja um skilnað verður að ákveða sjálfur hvað hann gerir og taka afleiðingunum af því, hverjar sem þær eru. — Galatabréfið 6:5.

Í ýtrustu neyð hafa einstaka þjónar Guðs ákveðið að sækja um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað þó að makinn hafi ekki gerst sekur um saurlifnað. Þegar svo háttar til verður hann, samkvæmt ákvæðum Biblíunnar, að ,vera áfram ógiftur eða sættast‘ við maka sinn. (1. Korintubréf 7:11) Þjóni Guðs, sem er í þessari stöðu, er ekki frjálst að stofna til kynna við þriðja aðila með nýtt hjónaband í huga. (Matteus 5:32) Lítum á fáein dæmi um aðstæður sem sumir hafa talið grundvöll til að sækja um skilnað.

Vísvitandi vanræksla á framfærsluskyldu. Fjölskyldan gæti verið á vonarvöl og skort brýnustu nauðsynjar vegna þess að eiginmaðurinn sér henni ekki farborða þó að hann sé fær um það. Í Biblíunni segir: „Ef einhver sér eigi fyrir . . . heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8, Biblían 1981) Ef slíkur maður neitar að bæta ráð sitt þarf konan að ákveða hvort hún þurfi að sækja um skilnað til að vernda hag sinn og barnanna. Safnaðaröldungar þurfa auðvitað að taka  alvarlega til athugunar ásökun þess efnis að kristinn fjölskyldufaðir neiti að sjá fyrir fjölskyldunni. Ef einhver neitar að sjá fjölskyldunni farborða gæti það kostað að honum verði vikið úr söfnuðinum.

Alvarlegt ofbeldi. Ofbeldisfull manneskja gæti gengið svo langt að hún stofnaði heilsu og jafnvel lífi maka síns í hættu. Ef ofbeldismanneskjan er í söfnuðinum ættu öldungarnir að rannsaka hvort ákærurnar eigi við rök að styðjast. Reiðiköst og ofbeldisfullt hátterni er tilefni til að víkja fólki úr söfnuðinum. — Galatabréfið 5:19-21.

Andlegri og trúarlegri velferð stofnað í hættu. Annað hjónanna gæti reynt að gera maka sínum ókleift að tilbiðja Guð eða jafnvel reynt að fá hann til að brjóta boð Guðs á einhvern hátt. Í því tilfelli þarf það hjónanna, sem er ógnað, að ákveða hvort eina leiðin til að „hlýða Guði [framar] en mönnum“ sé sú að sækja um skilnað. — Postulasagan 5:29.

Þótt þessar alvarlegu aðstæður, sem hér hafa verið ræddar, komi upp ætti enginn að þrýsta á þolandann til að reyna að fá hann til að skilja við maka sinn eða til að búa áfram með honum. Safnaðaröldungar og þroskaðir vinir í söfnuðinum geta boðið stuðning sinn og gefið biblíuleg ráð en þeir geta ekki vitað í smáatriðum hvað fer fram milli hjóna. Jehóva einn veit það. Kristin eiginkona væri auðvitað ekki að heiðra Guð eða hjónabandið ef hún ýkti hvernig ástandið væri á heimilinu í þeim tilgangi að geta slitið samvistum við eiginmanninn, og hið sama er að segja um eiginmann sem gerir eitthvað slíkt. Jehóva veit af öllu slíku ráðabruggi, hvernig sem reynt er að fela það. „Allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.“ (Hebreabréfið 4:13) Ef aðstæður á heimilinu eru hins vegar orðnar mjög hættulegar og hafa verið það lengi ætti enginn að gagnrýna trúsystkini sem grípur til þess neyðarúrræðis að skilja. Allir verða að lokum að „koma fram fyrir dómstól Guðs“. — Rómverjabréfið 14:10-12.