Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 3. KAFLI

Elskaðu þá sem Guð elskar

Elskaðu þá sem Guð elskar

„Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 13:20.

1-3. (a) Hvaða óhjákvæmilegu staðreynd bendir Biblían á? (b) Hvernig getum við valið okkur vini sem hafa góð áhrif á okkur?

FÓLK er að vissu leyti eins og svampur — það hefur tilhneigingu til að drekka í sig hvaðeina sem það kemst í snertingu við. Það er ósköp auðvelt, jafnvel óafvitandi, að taka upp viðhorf, mælikvarða og persónueinkenni þeirra sem við eigum náið samneyti við.

2 Í Biblíunni er bent á óhjákvæmilega staðreynd þegar segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Biblíuhandbók segir að „samneyti“ gefi í skyn ást og væntumþykju. Höfum við ekki tilhneigingu til að líkja eftir þeim sem okkur þykir vænt um? Jú, og þar sem við tengjumst þeim sem við elskum tilfinningaböndum geta þeir haft sterk áhrif á okkur — til góðs eða ills.

3 Til að kærleikur Guðs varðveiti okkur er mikilvægt að eignast vini sem hafa góð áhrif á okkur. Hvernig gerum við það? Einfaldlega með því að elska þá sem Guð elskar og vingast við vini hans. Hugleiddu málið stundarkorn. Er hægt að hugsa sér betri vini en þá sem temja sér eiginleika sem Jehóva leitar að í fari vina sinna? Þá skulum við kanna hvers konar fólk það er sem Guð  elskar. Ef við höfum sjónarmið hans skýrt í huga erum við í góðri aðstöðu til að velja okkur vini sem hafa heilnæm áhrif á okkur.

ÞEIR SEM GUÐ ELSKAR

4. Af hverju á Jehóva þann rétt að vanda val vina sinna og af hverju kallaði hann Abraham vin sinn?

4 Jehóva vandar val vina sinna. Á hann ekki rétt á því? Hann er enginn annar en Drottinn alheims þannig að mönnum getur varla hlotnast meiri heiður en sá að vera vinir hans. Hverja velur hann þá að vinum? Hann nálægir sig þeim sem treysta á hann og trúa á hann í einu og öllu. Tökum ættföðurinn Abraham sem dæmi en hann sýndi einstaka trú. Það er erfitt að ímynda sér erfiðari prófraun fyrir föður en að vera beðinn um að færa son sinn að fórn. * En Abraham var „reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum“ vegna þess að hann trúði að „Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum“. (Hebreabréfið 11:17-19) Sökum þess að Abraham sýndi einstaka trú og hlýðni kallaði Jehóva hann vin sinn. — Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:21-23.

5. Hvernig lítur Jehóva á þá sem hlýða honum dyggilega?

5 Jehóva leggur mikið upp úr trúfesti og hlýðni. Hann elskar þá sem eru fúsir til að vera honum trúir umfram allt. (2. Samúelsbók 22:26) Eins og fram kom í 1. kafla bókarinnar hefur Jehóva miklar mætur á þeim sem hlýða honum af því að þeir elska hann. „Ráðvandir menn eru alúðarvinir hans,“ segir í Orðskviðunum  3:32. Þeir sem eru trúir og ráðvandir og uppfylla kröfur Jehóva fá einkar hlýlegt boð frá honum: Þeir geta fengið að gista í „tjaldi“ hans. Hann býður þeim að tilbiðja sig og eiga ótakmarkaðan aðgang að sér með bæninni. — Sálmur 15:1-5.

6. Hvernig getum við sýnt að við elskum Jesú og hvað finnst Jehóva um þá sem gera það?

6 Jehóva elskar þá sem elska Jesú, einkason hans. Jesús sagði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum.“ (Jóhannes 14:23) Hvernig getum við sýnt að við elskum Jesú? Auðvitað með því að halda boðorð hans, þar á meðal fyrirmælin um að prédika fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20; Jóhannes 14:15, 21) Við sýnum einnig að við elskum Jesú með því að „feta í fótspor hans“, með því að líkja eins vel eftir honum í orði og verki og ófullkomnum mönnum er unnt. (1. Pétursbréf 2:21) Jehóva gleðst í hjarta sér þegar þeir sem elska son hans leggja sig fram við að líkjast honum.

7. Af hverju er viturlegt að vingast við vini Jehóva?

7 Jehóva leitar meðal annars að trú, hollustu og hlýðni í fari vina sinna. Hann horfir eftir því hvort þeir elski Jesú og boðorð hans. Við ættum að spyrja okkur hvort við sjáum þessa eiginleika í fari náinna félaga okkar. Höfum við gert vini Jehóva að vinum okkar? Það er viturlegt að gera það. Þeir sem leggja rækt við góða eiginleika og eru duglegir að boða fagnaðarerindið um ríkið geta haft jákvæð áhrif á okkur. Þeir geta verið okkur hvatning til að þóknast Guði. — Sjá rammagreinina „ Hvað einkennir góðan vin?“.

 LÆRUM AF FRÁSÖGU Í BIBLÍUNNI

8. Hvað má læra af sambandi (a) Naomí og Rutar? (b) Hebreanna þriggja? (c) Páls og Tímóteusar?

8 Biblían hefur að geyma mörg dæmi um fólk sem leitaði sér að uppbyggilegum félagsskap og naut góðs af. Þú gætir til dæmis lesið um vináttu Naomí og Rutar, tengdadóttur hennar, vináttu ungu Hebreanna þriggja sem studdu hver annan í Babýlon og vináttu þeirra Páls og Tímóteusar. (Rutarbók 1:16; Daníel 3:17, 18; 1. Korintubréf 4:17; Filippíbréfið 2:20-22) En að þessu sinni skulum við einbeita okkur að vináttu Davíðs og Jónatans sem er annað ágætt dæmi.

9, 10. Á hverju byggðist vinátta þeirra Davíðs og Jónatans?

9 Í Biblíunni segir frá hvernig Davíð felldi Golíat. Í framhaldi af því „vingaðist Jónatan við Davíð. Jónatan elskaði hann eins og sjálfan sig.“ (1. Samúelsbók 18:1) Þrátt fyrir töluverðan aldursmun varð tvímenningunum vel til vina og hélst vinátta þeirra þangað til Jónatan féll í bardaga. * (2. Samúelsbók 1:26) Hvers vegna urðu vináttubönd þeirra svona sterk?

10 Davíð og Jónatan voru nánir vinir vegna þess að báðir elskuðu Guð og þráðu heitt að vera honum trúir. Löngunin til að þóknast Guði sameinaði þá. Báðir höfðu til að bera eiginleika sem féllu hinum í geð. Jónatan hreifst örugglega af hugrekki og kostgæfni unga mannsins sem varði nafn Jehóva óhræddur. Davíð bar eflaust virðingu fyrir sér eldri manni sem studdi fyrirkomulag Jehóva og sýndi þá óeigingirni að taka hagsmuni Davíðs  fram yfir sína eigin. Lítum á hvað gerðist þegar Davíð þurfti að flýja undan reiði Sáls konungs sem var faðir Jónatans. Davíð þurfti að hafast við sem flóttamaður í eyðimörkinni en Jónatan sýndi honum einstaka hollustu, kom til hans og „taldi í hann kjark í nafni Guðs“. (1. Samúelsbók 23:16) Við getum rétt ímyndað okkur hvernig Davíð hefur verið innanbrjósts þegar náinn  vinur hans kom til hans til að styðja hann og uppörva þegar hann var langt niðri. *

11. Hvað má læra um vináttu af Davíð og Jónatan?

11 Hvað lærum við af þeim Davíð og Jónatan? Fyrst og fremst að það er mikilvægt að vinir eigi sameiginleg gildi sem byggjast á sambandi þeirra við Guð. Hægt er að skiptast á uppbyggilegum og hvetjandi hugleiðingum, viðhorfum og frásögum við góða vini sem hafa  sömu trú og siðferðisgildi og við og þrá að vera trúfastir Guði. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Við finnum andlega þenkjandi félaga meðal trúsystkina okkar. En er sjálfgefið að allir sem sækja samkomur í ríkissalnum séu góður félagsskapur? Nei, við getum ekki gengið að því sem vísu.

AÐ VELJA SÉR VINI

12, 13. (a) Hvers vegna þurfum við jafnvel að vanda val vina okkar innan safnaðarins? (b) Hvað gerðist í söfnuðunum á fyrstu öld og hvaða alvarlegu viðvörun gaf Páll?

12 Við þurfum líka að vanda valið innan safnaðarins til að tryggja að vinir okkar og félagar séu andlega uppbyggjandi. Ætti það að koma á óvart? Nei, í rauninni ekki. Menn geta verið misfljótir innan safnaðarins að þroskast í trúnni, ekki ósvipað og ávextir á tré geta verið mislengi að þroskast. Þess vegna má finna í öllum söfnuðum fólk á mismunandi þroskastigum í trúnni. (Hebreabréfið 5:12 – 6:3) Við erum auðvitað þolinmóð og kærleiksrík við þá sem eru nýir eða eru ekki sterkir í trúnni því að okkur langar til að hjálpa þeim að þroska samband sitt við Jehóva. — Rómverjabréfið 14:1; 15:1.

13 Stundum geta komið upp þær aðstæður í söfnuðinum að við þurfum að gæta að félagsskap okkar. Einstaka maður gæti farið út í vafasama breytni eða orðið beiskur og aðfinnslusamur. Þetta gerðist í söfnuðum á fyrstu öld. En flestir safnaðarmenn voru trúir og traustir þó að einstaka maður hegðaði sér ekki rétt. Þar sem sumir í söfnuðinum í Korintu studdu ekki ákveðnar trúarkenningar sagði Páll í varnaðartón: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:12, 33) Hann benti Tímóteusi á að jafnvel meðal trúsystkina hans kynni að vera einn og einn sem hegðaði  sér ekki rétt. Tímóteus átti að forðast þá og ekki hafa nána umgengni við þá. — 2. Tímóteusarbréf 2:20-22.

14. Hvernig getum við farið eftir meginreglunni að baki viðvörun Páls við vondum félagsskap?

14 Hvernig getum við fylgt meginreglunni sem liggur að baki viðvörun Páls? Með því að forðast náið samneyti við nokkurn, innan safnaðar eða utan, sem gæti haft spillandi áhrif. (2. Þessaloníkubréf 3:6, 7, 14) Við verðum að vernda samband okkar við Jehóva. Munum að við erum eins og svampur — við drekkum í okkur viðhorf og hátterni þeirra sem við umgöngumst náið. Það er ekki hægt að dýfa svampi í edik og ætlast til að hann drekki í sig vatn. Við getum ekki heldur drukkið í okkur jákvæð áhrif ef við umgöngumst fólk sem hefur skaðleg áhrif. — 1. Korintubréf 5:6.

Við getum fundið heilnæman félagsskap meðal trúsystkina.

15. Hvað geturðu gert til að eignast andlega sinnaða vini í söfnuðinum?

15 Sem betur fer höfum við ágæta möguleika á að finna uppbyggilegan félagsskap meðal trúsystkina. (Sálmur 133:1) Hvernig geturðu fundið þér andlega sinnaða vini í söfnuðinum? Ef þú tileinkar þér góða eiginleika og venjur laðar þú vafalaust að þér fólk sem leggur sig fram um að þóknast Jehóva. En svo þarftu líka að gera eitthvað sjálfur til að eignast nýja vini. (Sjá rammagreinina „ Hvernig þau eignuðust góða vini.“) Hafðu augun opin fyrir því hverjir sýna þá eiginleika sem þig langar til að sýna. Láttu verða „rúmgott“ hjá þér eins og hvatt er til í Biblíunni og sækstu eftir vináttu við trúsystkini óháð kynþætti, þjóðerni eða menningu. (2. Korintubréf 6:13; 1. Pétursbréf 2:17) Einskorðaðu þig ekki við fólk sem er á svipuðu reki og þú. Jónatan var miklu eldri en Davíð eins og þú manst. Margir, sem eru þér eldri, geta auðgað þig með lífsreynslu sinni og visku.

 ÞEGAR ÁREKSTRAR VERÐA

16, 17. Af hverju ættum við ekki að hætta að sækja samkomur þó að einhver í söfnuðinum særi okkur á einhvern hátt?

16 Eins og við er að búast í fjölbreyttum hópi fólks af ýmsum uppruna geta orðið árekstrar af og til. Trúsystkini segir kannski eða gerir eitthvað sem særir þig. (Orðskviðirnir 12:18) Stundum hleypur snurða á þráðinn vegna þess að fólk er ólíkt, misskilur hvert annað eða hefur ólíkar skoðanir. Ættum við að láta það verða okkur að fótakefli og hætta að sækja samkomur? Ekki ef við elskum Jehóva og þá sem hann elskar.

17 Jehóva er skapari okkar og lífgjafi. Hann verðskuldar ást okkar og algera hollustu. (Opinberunarbókin 4:11) Söfnuðurinn, sem hann hefur valið að nota, verðskuldar sömuleiðis stuðning okkar og hollustu. (Hebreabréfið 13:17) Ef einhver í söfnuðinum særir okkur eða veldur  okkur vonbrigðum á einhvern hátt hættum við ekki að sækja samkomur í mótmælaskyni. Það væri fráleitt. Ekki var það Jehóva sem særði okkur eða móðgaði. Ef við elskum Jehóva snúum við aldrei baki við honum og söfnuði hans. — Sálmur 119:165.

18. (a) Hvað getum við gert til að stuðla að friði í söfnuðinum? (b) Hvernig er það til góðs að fyrirgefa þegar tilefni er til?

18 Við viljum stuðla að friði í söfnuðinum vegna þess að við elskum trúsystkini okkar. Jehóva ætlast ekki til fullkomleika af þeim sem hann elskar og það ættum við ekki heldur að gera. Kærleikurinn gerir okkur kleift að horfa fram hjá minni háttar misgerðum því að við vitum að við erum öll ófullkomin og gerum ýmis mistök. (Orðskviðirnir 17:9; 1. Pétursbréf 4:8) Kærleikurinn hjálpar okkur að ,fyrirgefa hvert öðru‘ fúslega. (Kólossubréfið 3:13) Það er ekki alltaf auðvelt. Ef við leyfðum neikvæðum tilfinningum að ná yfirhöndinni gætum við farið að ala með okkur gremju og fundist við geta á einhvern hátt refsað hinum brotlega með reiðinni. Sannleikurinn er hins vegar sá að við erum einungis að gera sjálfum okkur illt með því. Það er miklu betra að fyrirgefa þegar tilefni er til. (Lúkas 17:3, 4) Það veitir okkur frið í huga og hjarta, viðheldur friði í söfnuðinum og síðast en ekki síst varðveitum við samband okkar við Jehóva. — Matteus 6:14, 15; Rómverjabréfið 14:19.

ÞEGAR FÉLAGSSKAPUR ER EKKI LENGUR VIÐ HÆFI

19. Við hvaða aðstæður getur verið nauðsynlegt að hætta að umgangast ákveðna manneskju?

19 Stöku sinnum kemur fyrir að við þurfum að hætta að umgangast einstakling sem var í söfnuðinum. Þetta gerist ef einhverjum er vikið úr söfnuðinum af því að hann brýtur lög Guðs og iðrast ekki eða hann hafnar trúnni með því að kenna falskar kenningar eða aðgreinir  sig frá söfnuðinum. Í orði Guðs stendur skýrum stöfum að við skulum „ekki umgangast“ slíka einstaklinga. * (1. Korintubréf 5:11-13; 2. Jóhannesarbréf 9-11) Það getur verið ákaflega erfitt að forðast skyldmenni eða manneskju sem var kannski góður vinur okkar. Tökum við þá einarða afstöðu og sýnum að hollustan við Jehóva og réttlát lög hans gengur fyrir öllu öðru? Höfum hugfast að hollusta og hlýðni er mikils virði í augum Jehóva.

20, 21. (a) Af hverju er það kærleiksríkt af Jehóva að láta víkja iðrunarlausum syndara úr söfnuðinum? (b) Hvers vegna er mikilvægt að vera skynsöm þegar við veljum okkur félaga?

20 Það er í rauninni kærleiksríkt af Jehóva að láta víkja iðrunarlausum syndara úr söfnuðinum. Hvers vegna? Vegna þess að það ber vitni um að við elskum heilagt nafn Jehóva og allt sem það táknar. (1. Pétursbréf 1:15, 16) Það er söfnuðinum til verndar. Trúum safnaðarmönnum er hlíft við óheilnæmum áhrifum þeirra sem syndga af ásettu ráði, og þeir geta haldið áfram að tilbiðja Jehóva í þeirri vissu að söfnuðurinn sé öruggt skjól fyrir þessum illa heimi. (1. Korintubréf 5:7; Hebreabréfið 12:15, 16) Ögunin ber einnig vitni um kærleika til hins brotlega því að hún getur hugsanlega komið vitinu fyrir hann þannig að hann geri viðeigandi ráðstafanir til að snúa aftur til Jehóva. — Hebreabréfið 12:11.

21 Nánir félagar geta haft sterk áhrif á okkur eins og dæmin sanna. Þess vegna þurfum við að vera skynsöm þegar við veljum okkur vini. Með því að vingast við vini Jehóva og elska þá sem hann elskar veljum við okkur besta vinahóp sem hugsast getur. Og áhrif þessara vina geta hjálpað okkur að þóknast Jehóva eins og við þráum að gera.

^ gr. 4 Með því að biðja Abraham um þetta gaf Jehóva innsýn í það sem hann ætlaði sjálfur að gera — að fórna einkasyni sínum. (Jóhannes 3:16) Jehóva skarst hins vegar í leikinn og lét Abraham fá hrút til að fórna í stað Ísaks. — 1. Mósebók 22:1, 2, 9-13.

^ gr. 9 Davíð var „aðeins unglingur“ þegar hann felldi Golíat og um þrítugt þegar Jónatan dó. (1. Samúelsbók 17:33; 31:2; 2. Samúelsbók 5:4) Jónatan var nálægt sextugu þegar hann lést þannig að aldursmunurinn var um 30 ár.

^ gr. 10 Samkvæmt 1. Samúelsbók 23:17 nefndi Jónatan fimm atriði til að uppörva Davíð: (1) Hann hvatti Davíð til að vera óhræddur. (2) Hann fullvissaði hann um að Sál myndi ekki ná honum. (3) Hann minnti Davíð á að hann myndi verða konungur eins og Guð hafði lofað. (4) Hann hét Davíð hollustu. (5) Hann sagði að Sál vissi vel af hollustu sinni við Davíð.

^ gr. 19 Í viðaukanum „Hvernig á að koma fram við þá sem er vikið úr söfnuðinum?,“ er að finna nánari upplýsingar um það hvernig koma eigi fram við þá sem vikið er úr söfnuðinum eða aðgreina sig frá honum.