Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐAUKI

Að útkljá ágreiningsmál í viðskiptum

Að útkljá ágreiningsmál í viðskiptum

Í 1. Korintubréfi 6:1-8 ræðir Páll um málaferli milli trúsystkina. Hann lýsir vonbrigðum yfir því að sumir kristnir menn í Korintu skuli geta „fengið af sér að leggja málið undir dóm heiðinna manna“. (1. vers) Hann færir sterk rök fyrir því að kristnir menn eigi ekki að höfða mál á hendur hver öðrum fyrir veraldlegum dómstólum heldur eigi þeir að nota söfnuðinn sem vettvang til að setja niður ágreiningsmál sín. Könnum ástæðurnar fyrir því að þessar innblásnu leiðbeiningar voru gefnar og lítum síðan á fáeinar aðstæður sem falla ekki endilega undir fyrirmæli Páls.

Ef við eigum í viðskiptadeilu við trúsystkini ættum við að byrja á því að nota aðferðir Jehóva, ekki okkar eigin, til að reyna að leysa málið. (Orðskviðirnir 14:12) Eins og Jesús benti á er best að útkljá ágreiningsmál fljótt, áður en þau vinda upp á sig. (Matteus 5:23-26) Því miður eiga sumir kristnir menn það til að verða deilugjarnir úr hófi fram og fara jafnvel með ágreiningsmál sín fyrir veraldlega dómstóla. „Það út af fyrir sig að þið standið í málaferlum hvert við annað er í sjálfu sér hnekkir fyrir ykkur,“ sagði Páll. Af hverju? Ein meginástæðan er sú að slík málaferli geta kastað rýrð á söfnuðinn og þann Guð sem við tilbiðjum. Við tökum því alvarlega spurningu Páls: „Hví líðið þið ekki heldur órétt?“ — 7. vers.

Páll færði einnig rök fyrir því að Guð hefði ákveðið fyrirkomulag í söfnuðinum til að útkljá deilur af margs konar tagi. Öldungarnir eru þroskaðir kristnir karlmenn sem búa yfir visku sökum biblíuþekkingar sinnar, og Páll segir að þeir séu færir um að skera úr málum um hversdagsleg efni milli safnaðarmanna. (3.-5. vers) Jesús tiltók þrjú skref til að útkljá deilur þar sem alvarleg brot á borð við róg eða fjársvik höfðu átt sér stað. Fyrsta skrefið var að deilendur hittust í  einrúmi til að reyna að sættast. Ef það tækist ekki var næsta skref að taka með eitt eða tvö vitni. Ef það bæri ekki árangur var þriðja skrefið að leggja málið fyrir söfnuðinn með því að biðja safnaðaröldungana að taka á því. — Matteus 18:15-17.

Safnaðaröldungarnir þurfa ekki að vera lögfræðingar eða sérfróðir um viðskipti og það er ekki hlutverk þeirra að gefa ráð um slík mál. Þeir setja ekki skilmála um sættir í viðskiptum milli bræðra heldur reyna að hjálpa þeim sem hlut eiga að máli að fara eftir meginreglum Biblíunnar og leysa málin í friðsemd. Í flóknum málum gætu þeir haft samband við farandhirðinn eða deildarskrifstofu Votta Jehóva. En ýmis mál geta verið fyrir utan það svið sem leiðbeiningar Páls ná til. Hvers konar mál eru það?

Í sumum tilfellum er það einfalt formsatriði eða lagaleg nauðsyn að höfða mál til að ná fram óeigingjörnum og friðsamlegum málalokum. Sums staðar verður að höfða mál til að fá skilnað frá maka sínum, forræði barns, framfærslufé og tryggingabætur eða til að gera kröfu í þrotabú eða staðfesta gildi erfðaskrár. Í einstaka tilfelli gæti bróðir verið tilneyddur að höfða mál á móti til að verja sig í málaferlum. *

Ef slík mál eru ekki höfðuð með ófriði þarf það ekki að brjóta gegn andanum að baki innblásnum ráðleggingum Páls. * Kristnum manni ætti þó alltaf að vera efst í huga að helga nafn Jehóva og viðhalda friði og einingu safnaðarins. Fylgjendur Krists eru fyrst og fremst þekktir fyrir kærleika sinn og „kærleikurinn . . . leitar ekki síns eigin“. — 1. Korintubréf 13:4, 5; Jóhannes 13:34, 35.

^ gr. 2 Í sjaldgæfum tilfellum gæti það gerst að kristinn maður fremdi alvarlegan glæp gegn trúsystkini — svo sem nauðgun, líkamsárás, morð eða meiri háttar þjófnað. Það telst ekki ókristilegt að tilkynna yfirvöldum um glæpinn þó að það geti haft í för með sér lögsókn eða sakamál.

^ gr. 3 Nánari upplýsingar má finna í Varðturninum 1. júní 1997, bls. 13-18, og enskri útgáfu blaðsins 15. október 1991, bls. 25-28.