Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Biblían – hver er boðskapur hennar?

 12. KAFLI

Viska til leiðsagnar í lífinu

Viska til leiðsagnar í lífinu

Orðskviðirnir eru samsafn innblásinna leiðbeininga um daglegt líf. Þeir eru að mestu leyti skrifaðir af Salómon.

ER JEHÓVA vitur stjórnandi? Ein góð leið til að svara því er að skoða þær leiðbeiningar sem hann gefur. Virka þær? Bætum við líf okkar og gerum það innihaldsríkara ef við förum eftir þeim? Hinn vitri konungur Salómon skráði orðskviði í hundraðatali. Þeir koma inn á næstum alla þætti lífsins. Lítum á nokkur dæmi.

Við eigum að treysta Guði. Gott samband við Jehóva byggist á trausti. Salómon skrifaði: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ (Orðskviðirnir 3:​5, 6) Lífið verður mjög innihaldsríkt ef við treystum á Guð með því að leita leiðsagnar hans og hlýða honum. Með þessari lífsstefnu fá menn tækifæri til að gleðja hjarta Guðs og veita honum svar við ásökunum óvinarins Satans. — Orðskviðirnir 27:⁠11.

Sýnum visku í samskiptum við aðra. Leiðbeiningar Guðs til eiginmanna, eiginkvenna og barna eiga betur við nú en nokkru sinni fyrr. Hann ráðleggur eiginmanni að vera konu sinni trúr og segir: „Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar.“ (Orðskviðirnir 5:​18-20) Í Orðskviðunum er farið fögrum orðum um dugmikla eiginkonu sem ávinnur sér aðdáun eiginmanns síns og barna. (Orðskviðirnir 31. kafli) Og börn eru hvött til að hlýða foreldrum sínum. (Orðskviðirnir 6:20) Í bókinni kemur einnig fram hve góð vináttubönd eru mikilvæg því að það er ávísun á eigingirni að einangra sig. (Orðskviðirnir 18:⁠1) Vinir geta ýmist haft góð eða slæm áhrif á okkur þannig að við þurfum að vanda val vina okkar. — Orðskviðirnir 13:20; 17:⁠17.

Farðu vel með sjálfan þig. Í Orðskviðunum erum við hvött til að leggja rækt við heilbrigðar tilfinningar en forðast skaðlegar, vera iðjusöm og misnota ekki áfengi. (Orðskviðirnir 6:6; 14:30; 20:⁠1) Þetta eru ómetanlegar leiðbeiningar. Bókin varar við því að það endi með ósköpum að treysta dómgreind manna frekar en leiðbeiningum Guðs. (Orðskviðirnir 14:12) Við erum hvött til að vernda hinn innri mann, hjartað, gegn spillandi áhrifum og minnt er á að þar séu „uppsprettur lífsins“. — Orðskviðirnir 4:⁠23.

Milljónir manna um heim allan hafa bætt líf sitt með því að lifa eftir leiðbeiningum af þessu tagi. Það er því ærin ástæða til að viðurkenna Jehóva sem stjórnanda sinn.

— Byggt á Orðskviðunum.