Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 4. KAFLI

Guð gerir sáttmála við Abraham

Guð gerir sáttmála við Abraham

Abraham trúir Jehóva Guði og hlýðir honum og Guð lofar að blessa hann og margfalda niðja hans.

LIÐIN eru um 350 ár frá Nóaflóðinu. Ættfaðirinn Abraham býr í blómlegri borg sem heitir Úr en hún stóð á svæði sem nú tilheyrir Írak. Abraham var mikill trúmaður en nú kom að því að það reyndi á trú hans.

Jehóva segir Abraham að yfirgefa heimaland sitt og flytja til framandi lands sem reynist vera Kanaan. Abraham hlýðir hiklaust. Hann tekur með sér heimafólk sitt, þar á meðal Söru, eiginkonu sína, og Lot, bróðurson sinn. Eftir langt ferðalag setjast þau að í Kanaan og búa þar í tjöldum. Jehóva gerir sáttmála við Abraham og heitir því að gera afkomendur hans að mikilli þjóð. Allar ættkvíslir jarðarinnar eiga að hljóta blessun af honum, og niðjar hans eiga að taka Kanaan til eignar.

Þeim Abraham og Lot vegnar vel og þeir eignast miklar hjarðir sauðfjár og nautgripa. Abraham sýnir þá óeigingirni að leyfa Lot að velja sér land. Lot velur hið frjósama Jórdansléttlendi og sest að í grennd við borgina Sódómu. Sódómumenn voru hins vegar siðlausir og syndguðu gróflega gegn Jehóva.

Jehóva Guð fullvissar Abraham síðar um að niðjar hans verði eins fjölmennir og stjörnur á himni. Abraham trúir fyrirheiti Guðs. En Sara, eiginkona hans, er barnlaus. Þegar Abraham er 99 ára og Sara er að nálgast nírætt segir Guð honum að Sara muni eignast son. Og Sara elur Ísak eins og Guð hafði lofað. Abraham eignast fleiri börn, en frelsarinn, sem lofað var í Eden, á hins vegar að koma af Ísak.

Eins og áður sagði bjuggu Lot og fjölskylda hans í Sódómu en Lot var réttlátur maður og tók ekki upp hátterni siðlausra borgarbúa. Jehóva ákveður að fullnægja dómi yfir Sódómu og sendir engla til að vara Lot við að borginni verði eytt. Englarnir hvetja Lot og fjölskyldu hans til að flýja Sódómu og líta ekki um öxl. Guð lætur síðan rigna eldi og brennisteini yfir Sódómu og grannborgina Gómorru og tortímir óguðlegum íbúum þeirra. Lot og dætur hans tvær komast undan. En eiginkona Lots leit um öxl. Hugsanlega sá hún eftir eigunum sem hún þurfti að skilja eftir. Hún galt fyrir óhlýðnina með lífi sínu.

— Byggt á 1. Mósebók 11:10–19:⁠38.