Jehóva sendir plágur yfir Egyptaland, og Móse leiðir Ísraelsmenn út úr landinu. Guð gefur Ísraelsmönnum lögmálið fyrir milligöngu Móse.

ÍSRAELSMENN búa árum saman í Egyptalandi. Þeim fjölgar og vegnar vel. En þá kemst nýr faraó til valda sem þekkti ekki Jósef. Þetta var grimmur harðstjóri sem óttaðist hve Ísraelsmönnum fjölgaði. Hann hneppir þá í þrælkun og fyrirskipar að öllum sveinbörnum meðal þeirra skuli drekkt í Níl strax eftir fæðingu. Hugrökk móðir hlífir ungum syni sínum og felur hann í körfu í sefi árinnar. Dóttir faraós finnur drenginn, kallar hann Móse og elur hann upp með konungsfjölskyldunni.

Fertugur að aldri lenti Móse í vandræðum þegar hann varði ísraelskan þræl fyrir egypskum verkstjóra. Hann flúði þá til fjarlægs lands og bjó þar í útlegð. Hann var áttræður þegar Jehóva sendi hann aftur til Egyptalands til að ganga fyrir faraó og krefjast þess að þjóð Guðs yrði leyst úr ánauð.

Faraó þverneitaði. Guð sendi þá tíu plágur yfir Egyptaland. Í hvert sinn sem Móse gekk fyrir faraó til að gefa honum tækifæri til að afstýra næstu plágu þrjóskast hann við. Hann neitar að verða við beiðni Móse og kröfu Jehóva Guðs. Í tíundu plágunni deyja allir frumburðir í landinu — nema í þeim húsum þar sem fólk hlýddi Jehóva og bar blóð úr lambi, sem var fórnað, á dyrastafina. Engill Guðs fór fram hjá þessum húsum. Ísraelsmenn minnast þessarar merku björgunar þaðan í frá með árlegri hátíð sem kallast páskar.

Eftir að faraó hefur misst frumgetinn son sinn skipar hann Móse og Ísraelsmönnum að yfirgefa Egyptaland. Þeir skipuleggja brottför þjóðarinnar þegar í stað. En faraó skiptir um skoðun og eltir þá með hervögnum og fjölmennu herliði. Ísraelsmenn virðast vera innikróaðir á strönd Rauðahafs. Jehóva opnar þá leið gegnum hafið svo að þeir komast fótgangandi eftir þurrum hafsbotninum með hafið eins og veggi á báðar hendur. Þegar Egyptar æða á eftir þeim lætur Jehóva sjóinn steypast yfir þá svo að faraó drukknar ásamt herliði sínu.

Nokkru síðar setja Ísraelsmenn upp búðir sínar við Sínaífjall og Jehóva gerir sáttmála við þá. Fyrir milligöngu Móse gefur hann þeim lög til að leiðbeina þeim og vernda þá á nánast öllum sviðum lífsins. Svo framarlega sem þeir viðurkenna yfirráð Jehóva ætlar hann að vera með þeim og láta þá vera öðrum til blessunar.

Því miður bregðast Ísraelsmenn upp til hópa og sýna að þeir treysta ekki Guði. Sú kynslóð er því látin reika um eyðimörkina næstu 40 árin. Móse skipar þá ráðvandan mann, sem heitir Jósúa, eftirmann sinn. Nú eru Ísraelsmenn loksins tilbúnir til að ganga inn í landið sem Guð hafði heitið Abraham að gefa honum.

— Byggt á 2. Mósebók, 3. Mósebók, 4. Mósebók, 5. Mósebók, Sálmi 136:​10-15 og Postulasögunni 7:​17-36.