Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 111: Drengur sem sofnaði

Saga 111: Drengur sem sofnaði

Ó NEI! Hvað hefur gerst hér? Ætli drengurinn, sem liggur á jörðinni, sé mikið slasaður? Sjáðu, einn af mönnunum, sem kemur út úr húsinu, er Páll! Sérðu Tímóteus þarna líka? Datt drengurinn út um gluggann?

Páll kemur til að vekja Evtýkus upp frá dauðum

Já, það er einmitt það sem gerðist. Páll var að halda ræðu fyrir lærisveinana í Tróas. Hann vissi að hann myndi ekki sjá þá aftur í langan tíma af því að hann þurfti að fara með skipi sem sigldi næsta dag. Hann hélt því áfram að tala fram að miðnætti.

Drengurinn heitir Evtýkus. Hann sat í glugganum og sofnaði. Hann valt um koll og beint út um gluggann og féll þrjár hæðir niður til jarðar! Þú skilur því vel hvers vegna fólkið er svona áhyggjufullt á svipinn. Þegar mennirnir taka drenginn upp er það eins og þeir óttast. Hann er dáinn!

Þegar Páll sér að drengurinn er dáinn leggst hann ofan á hann og tekur utan um hann. Síðan segir hann: 'Verið óhrædd. Hann er lifandi!‘ Og hann er lifandi! Þetta er kraftaverk! Páll hefur vakið hann til lífs á ný! Mikil gleði gagntekur alla.

Þá fara þau öll upp aftur og borða. Páll heldur áfram að tala fram í dögun. En þú getur verið viss um að Evtýkus sofnar ekki aftur! Síðan fara Páll, Tímóteus og ferðafélagar þeirra um borð í skipið. Veistu hvert þeir fara?

Páll er rétt að ljúka þriðju trúboðsferðinni sinni og er á heimleið. Í þessari ferð hefur hann dvalist þrjú ár í Efesus. Hún er því enn lengri en önnur trúboðsferðin.

Skipið fer frá Tróas og hefur skamma viðdvöl í Míletus. Stutt er þangað frá Efesus og Páll sendir því boð til öldunganna í söfnuðinum. Þeir koma yfir til Míletus og Páll talar við þá í síðasta sinn og uppörvar þá. Þegar brottfarartími skipsins er kominn eru þeir sannarlega hryggir að sjá Pál fara!

Að síðustu kemur skipið til Sesareu. Á meðan Páll dvelur þar í húsi lærisveinsins Filippusar kemur spámaðurinn Agabus og aðvarar Pál. Hann segir að Páll muni verða handtekinn þegar hann kemur til Jerúsalem. Og það rætist. Páll situr í fangelsi í Sesareu í tvö ár. Síðan er hann sendur til Rómar til þess að rómverski keisarinn dæmi í máli hans. Nú skulum við sjá hvað gerist á leiðinni til Rómar.

Postulasagan, kaflar 19 til 26.