Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Biblíusögubókin mín

Saga 109: Pétur heimsækir Kornelíus

Saga 109: Pétur heimsækir Kornelíus

ÞAÐ er Pétur postuli, sem stendur hérna, og á bak við hann eru tveir vinir hans. Hvers vegna liggur maðurinn á hnjánum fyrir framan Pétur? Ætti hann að gera það? Veistu hver hann er?

Pétur hittir Kornelíus

Maðurinn heitir Kornelíus. Hann er rómverskur herforingi. Kornelíus þekkir ekki Pétur en honum var sagt að bjóða honum í hús sitt. Við skulum nú sjá hvernig það atvikaðist.

Fyrstu lærisveinar Jesú voru Gyðingar en Kornelíus er ekki Gyðingur. Engu að síður elskar hann Guð, biður til hans og gerir fólki margt gott. Dag nokkurn síðdegis birtist honum engill sem segir: 'Guð hefur velþóknun á þér og ætlar að svara bænum þínum. Sendu menn til að sækja mann að nafni Pétur. Hann dvelur í Joppe, í húsi Símonar sem býr við sjóinn.‘

Kornelíus sendir strax nokkra menn að finna Pétur. Næsta dag, þegar mennirnir eru að nálgast Joppe, er Pétur uppi á flötu húsþaki Símonar. Guð lætur Pétur halda að hann sjái stóran dúk koma niður frá himni. Á dúknum eru alls konar dýr. Samkvæmt lögmáli Guðs voru þessar dýrategundir óhreinar og þess vegna mátti ekki borða þær, en samt segir röddin: 'Stattu upp, Pétur. Slátra og et.‘

'Nei!‘ svarar Pétur. 'Ég hef aldrei borðað neitt óhreint.‘ En röddin segir við Pétur: 'Þú skalt ekki kalla það óhreint sem Guð segir núna að sé hreint.‘ Þetta gerist þrisvar. Á meðan Pétur er að velta fyrir sér hvað allt þetta þýði koma mennirnir, sem Kornelíus sendi, að húsinu og spyrja eftir Pétri.

Pétur fer niður og segir: 'Ég er sá sem þið leitið að. Hvers vegna eruð þið komnir?‘ Mennirnir útskýra að engill hafi sagt Kornelíusi að bjóða Pétri til sín og Pétur samþykkir þá að fara með þeim. Daginn eftir halda Pétur og vinir hans af stað til að heimsækja Kornelíus í Sesareu.

Kornelíus hefur safnað saman ættingjum sínum og nánum vinum. Þegar Pétur kemur gengur Kornelíus til móts við hann og fellur til fóta honum eins og þú sérð hér. En Pétur segir: 'Stattu upp, ég er maður eins og þú.‘ Já, Biblían sýnir að það sé ekki rétt að falla fram og tilbiðja mann. Við eigum aðeins að tilbiðja Jehóva.

Pétur prédikar nú fyrir þeim sem þarna eru saman komnir. 'Ég skil nú að Guð tekur við öllum sem vilja þjóna honum,‘ segir Pétur. Og á meðan hann er að tala sendir Guð heilagan anda sinn og þetta fólk byrjar að tala mismunandi tungumál. Lærisveinarnir, sem komu með Pétri, eru Gyðingar og verða forviða af því að þeir héldu að Guð hefði aðeins velþóknun á Gyðingum. Þetta kennir þeim að í augum Guðs eru ákveðnir kynþættir ekki betri eða mikilvægari en aðrir. Væri ekki gott fyrir okkur öll að muna það?

Postulasagan 10:1-48; 11:1-18; Opinberunarbókin 19:10.