Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 108: Á veginum til Damaskus

Saga 108: Á veginum til Damaskus

HVER heldur þú að liggi þarna á jörðinni? Það er Sál. Þú manst að það var hann sem gætti yfirhafna mannanna sem grýttu Stefán. Taktu eftir skæru birtunni! Hvað er að gerast?

Þegar Stefán hefur verið drepinn tekur Sál forystuna í að ofsækja fylgjendur Jesú. Hann fer úr einu húsi í annað og dregur þá út og varpar þeim í fangelsi. Margir lærisveinanna flýja til annarra borga og byrja að kunngera "fagnaðarerindið“ þar. En Sál leitar þá að fylgjendum Jesú í öðrum borgum líka. Hér er hann á leið til Damaskus og þá gerist furðulegur atburður.

Skyndilega leiftrar ljós af himni í kringum Sál. Hann fellur til jarðar eins og við sjáum hér. Þá heyrist rödd sem segir: 'Sál, Sál! Hví ofsækir þú mig?‘ Mennirnir með Sál sjá ljósið og heyra röddina en þeir skilja ekki hvað sagt er.

Sál blindaður af ljósi

'Hver ert þú, herra?‘ spyr Sál.

'Ég er Jesús sem þú ofsækir,‘ segir röddin. Þegar Sál ofsækir fylgjendur Jesú finnur hann fyrir því eins og hann væri sjálfur ofsóttur. Þess vegna segir hann þetta.

Sál spyr nú: 'Hvað á ég að gera, herra?‘

'Stattu upp og farðu inn í Damaskus,‘ segir Jesús. 'Þar mun þér verða sagt hvað þú átt að gera.‘ Þegar Sál stendur upp og opnar augun sér hann alls ekkert. Hann er blindur! Mennirnir, sem með honum eru, taka þess vegna í hönd hans og leiða hann inn í Damaskus.

Jesús segir nú við einn af lærisveinum sínum í Damaskus: 'Stattu upp, Ananías. Farðu í stræti það sem kallað er Hið beina. Í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni sem heitir Sál. Ég hef valið hann sem sérstakan þjón minn.‘

Ananías hlýðir. Þegar hann hittir Sál leggur hann hendur yfir hann og segir: 'Drottinn hefur sent mig til að þú megir fá sjónina aftur og fyllast heilögum anda.‘ Jafnskjótt fellur eitthvað sem líkist hreistri af augum Sáls og hann fær sjónina á ný.

Guð notar Sál til að prédika af miklum krafti fyrir fólki frá mörgum þjóðum. Hann verður þekktur sem Páll postuli og munum við læra margt fleira um hann. En fyrst skulum við sjá hvað Guð sendir Pétur til að gera.

Postulasagan 8:1-4; 9:1-20; 22:6-16; 26:8-20.