Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 96: Jesús læknar sjúka

Saga 96: Jesús læknar sjúka

Á FERÐ sinni um landið læknar Jesús þá sem sjúkir eru. Fregnirnar um þessi kraftaverk berast um þorpin og borgirnar allt í kring. Fólk kemur þess vegna til hans með fatlaða og blinda og heyrnarlausa og marga fleiri sem sjúkir eru. Og Jesús læknar þá alla.

Meira en þrjú ár eru nú liðin síðan Jóhannes skírði Jesú. Og Jesús segir postulum sínum að bráðlega muni hann fara upp til Jerúsalem þar sem hann muni verða líflátinn og síðan rísa upp frá dauðum. Fram að því heldur Jesús áfram að lækna sjúka.

Jesús læknar veika konu

Dag einn er Jesús að kenna á hvíldardegi. Gyðingarnir höfðu sérstakan hvíldardag. Konan, sem þú sérð hér, hefur verið mjög veik. Í 18 ár hefur hún verið bogin í baki og ekki getað rétt úr sér. Jesús leggur hendurnar á hana og hún réttir úr sér. Hún hefur læknast!

Trúarleiðtogarnir reiðast þegar þeir sjá þetta. 'Sex daga eigum við að vinna,‘ hrópar einn þeirra til mannfjöldans. 'Komið þá daga og látið lækna ykkur, en ekki á hvíldardeginum!‘

En Jesús svarar: 'Þið vondu menn. Sérhver ykkar leysir asna sinn og leiðir hann til vatns á hvíldardegi. Mátti þá þessi vesalings kona, sem verið hefur veik í 18 ár, ekki fá lækningu á hvíldardegi?‘ Svar Jesú fær vondu mennina til að skammast sín.

Seinna eru Jesús og postular hans á leið til Jerúsalem. Þegar þeir eru rétt utan við borgina Jeríkó heyra tveir blindir betlarar að Jesús er að fara fram hjá. Þeir hrópa: 'Jesús, hjálpaðu okkur!‘

Jesús kallar á blindu mennina og spyr: 'Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?‘ Þeir segja: 'Herra, opnaðu augu okkar.‘ Jesús snertir augu þeirra og um leið fá þeir sjónina! Veistu hvers vegna Jesús gerir öll þessi dásamlegu kraftaverk? Hann elskar fólk og vill að það trúi á hann. Við getum því verið viss um að þegar hann ríkir sem konungur muni enginn jarðarbúi vera sjúkur framar.

Matteus 15:30, 31; Lúkas 13:10-17; Matteus 20:29-34.