Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Biblíusögubókin mín

Saga 79: Daníel í ljónagryfjunni

Saga 79: Daníel í ljónagryfjunni

Æ, NEI! Nú virðist Daníel í mikilli hættu. En ljónin gera honum ekkert mein! Veistu hvers vegna? Hver setti Daníel hingað hjá öllum þessum ljónum? Við skulum komast að því.

Maður að nafni Daríus er konungur í Babýlon núna. Honum fellur mjög vel við Daníel af því að Daníel er bæði góður maður og vitur. Daríus gerir Daníel að einum voldugasta manni ríkisins. Það gerir aðra menn í ríkinu öfundsjúka út í Daníel og þeir leggja á ráðin gegn honum.

Daríus

Þeir fara til Daríusar og segja: 'Við erum, konungur, sammála um að þú ættir að setja lög þess efnis að í 30 daga skuli enginn biðja til annars en þín, konungur, hvorki guða né manna. Ef einhver óhlýðnast þessu skal honum varpað í ljónagryfju.‘ Daríus veit ekki hvers vegna þeir vilja láta setja slík lög. En honum finnst hugmyndin góð og lætur því skrifa lögin. Nú verður lögunum ekki breytt.

Daníel fréttir af þessum lögum og fer heim og biður eins og hann hefur alltaf gert. Vondu mennirnir vissu að Daníel myndi ekki hætta að biðja til Jehóva. Nú eru þeir ánægðir úr því að ráðagerð þeirra til að losna við Daníel virðist ætla að heppnast.

Daríus konungur verður mjög hryggur þegar hann kemst að því hvers vegna mennirnir vildu láta setja þessi lög. En hann getur ekki breytt lögunum og verður því að fyrirskipa að Daníel sé kastað í ljónagryfjuna. Konungurinn segir þó við Daníel: 'Ég vona að Guð þinn, sem þú þjónar, muni bjarga þér.‘

Daríusi er svo órótt í skapi að honum kemur ekki dúr á auga um nóttina. Um morguninn hleypur hann til ljónagryfjunnar. Þú sérð hann þarna uppi. Hann kallar: 'Daníel, þjónn hins lifandi Guðs! Gat Guð þinn, sem þú dýrkar, bjargað þér frá ljónunum?‘

Daníel í ljónagryfjunni

'Guð sendi engil sinn,‘ svarar Daníel, 'og lokaði gini ljónanna svo að þau gerðu mér ekkert mein.‘

Konungurinn er mjög glaður. Hann skipar að Daníel skuli dreginn upp úr gryfjunni. Síðan lætur hann kasta vondu mönnunum, sem reyndu að losna við Daníel, niður til ljónanna. Jafnvel áður en þeir ná til botns í gryfjunni hremma ljónin þá og brjóta í þeim hvert bein.

Síðan skrifar Daríus konungur öllum þegnum sínum: 'Ég gef út þá skipun að allir menn skuli heiðra Guð Daníels. Hann gerir mikil kraftaverk. Hann bjargaði Daníel frá því að vera étinn af ljónunum.‘

Daníel 6:1-28.