Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 75: Fjórir drengir í Babýlon

Saga 75: Fjórir drengir í Babýlon

NEBÚKADNESAR konungur fer með alla best menntuðu Ísraelsmennina til Babýlonar. Síðan velur konungurinn úr þeim hópi myndarlegustu og greindustu ungu mennina. Hér sérð þú fjóra þeirra. Einn heitir Daníel og hina þrjá kalla Babýloníumenn Sadrak, Mesak og Abed-Negó.

Nebúkadnesar áformar að þjálfa ungu mennina til þjónustu í höll sinni. Eftir þriggja ára þjálfun og fræðslu mun hann velja þá skynsömustu úr sem ráðgjafa sína. Konungurinn vill að drengirnir séu heilbrigðir og sterkir meðan á þjálfun þeirra og uppfræðslu stendur. Þess vegna skipar hann þjónum sínum að gefa þeim öllum sömu kjarngóðu fæðuna og vínið sem konungurinn og fjölskylda hans fær.

Daníel, Sadrak, Mesak og Abed-Negó útskýra afstöðu sína

Líttu á hinn unga Daníel. Veistu hvað hann er að segja við Aspenas, hirðstjóra Nebúkadnesars? Hann segir honum að hann vilji ekki borða fína matinn af borði konungsins. Aspenas er áhyggjufullur. 'Konungurinn hefur ákveðið hvað þið eigið að borða og drekka,‘ segir hann. 'Og ef þið eruð ekki jafnhraustlegir í útliti og hinir ungu mennirnir mun hann kannski drepa mig.‘

Daníel fer þá til umsjónarmannsins sem Aspenas hefur falið að gæta Daníels og vina hans þriggja: 'Gerðu tilraun með okkur í 10 daga,‘ segir hann. 'Gefðu okkur grænmeti að borða og vatn að drekka. Berðu okkur síðan saman við hina ungu mennina sem borða mat konungsins og sjáðu hverjir líta betur út.‘

Umsjónarmaðurinn samþykkir þetta og þegar 10 dagar eru liðnir eru Daníel og vinir hans þrír heilbrigðari útlits en allir hinir ungu mennirnir. Umsjónarmaðurinn leyfir þeim þess vegna að borða áfram grænmeti í staðinn fyrir mat konungsins.

Þegar þrjú ár eru á enda eru allir ungu mennirnir færðir fram fyrir Nebúkadnesar. Konungurinn talar við þá alla og kemst að raun um að Daníel og vinir hans þrír eru skynsamastir. Hann lætur þá því vera áfram í höllinni sem aðstoðarmenn sína. Og í hvert sinn sem konungurinn spyr Daníel, Sadrak, Mesak og Abed-Negó spurninga eða leggur fyrir þá erfiða þraut vita þeir 10 sinnum meira en nokkur af prestum hans eða vitringum.

Daníel 1:1-21.