Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Biblíusögubókin mín

Saga 65: Ríkinu skipt

Saga 65: Ríkinu skipt

VEISTU hvers vegna þessi maður er að rífa yfirhöfn sína í tætlur? Jehóva sagði honum að gera það. Þetta er Ahía, spámaður Guðs. Veistu hvað spámaður er? Það er maður sem Guð lætur vita hvað muni gerast í framtíðinni.

Ahía og Jeróbóam

Ahía er hér að tala við Jeróbóam. Jeróbóam er maður sem Salómon fól að annast sumar af byggingarframkvæmdum sínum. Ahía gerir dálítið furðulegt þegar hann hittir Jeróbóam hér á veginum. Hann tekur af sér nýju yfirhöfnina og rífur hana í 12 hluta. Hann segir við Jeróbóam: 'Taktu sjálfur 10 hluta.‘ Veistu hvers vegna Ahía gefur Jeróbóam 10 hluta?

Ahía útskýrir að Jehóva ætli að taka konungdóminn frá Salómon. Hann segir að Jehóva ætli að gefa Jeróbóam 10 ættkvíslir. Það þýðir að aðeins verða tvær ættkvíslir eftir sem Rehabeam, sonur Salómons, getur ríkt yfir.

Salómon verður afar reiður þegar hann fréttir hvað Ahía sagði við Jeróbóam. Hann reynir að drepa Jeróbóam. En Jeróbóam flýr til Egyptalands. Að nokkrum tíma liðnum deyr Salómon. Hann hefur verið konungur í 40 ár en núna er Rehabeam, sonur hans, gerður að konungi. Í Egyptalandi fréttir Jeróbóam að Salómon sé dáinn og snýr hann þá aftur til Ísraels.

Rehabeam er ekki góður konungur. Hann er jafnvel enn verri við þjóðina en Salómon faðir hans hafði verið. Jeróbóam fer ásamt nokkrum áhrifamönnum til Rehabeams og biður hann að vera betri við þjóðina. En Rehabeam vill ekki hlusta. Hann verður jafnvel enn grimmari en áður. Þess vegna gerir fólkið Jeróbóam að konungi yfir 10 ættkvíslum en tvær ættkvíslir, Benjamín og Júda, hafa Rehabeam áfram sem konung.

Jeróbóam kærir sig ekki um að þegnar hans fari til Jerúsalem til að tilbiðja við musteri Jehóva. Hann lætur því búa til tvo gullkálfa og fær íbúa tíuættkvíslaríkisins til að tilbiðja þá. Brátt fyllist landið af glæpum og ofbeldi.

Í tveggjaættkvíslaríkinu eru einnig vandræði. Rehabeam hefur ekki ríkt í fimm ár þegar Egyptalandskonungur kemur og herjar á Jerúsalem. Hann tekur á brott með sér mikinn fjársjóð úr musteri Jehóva. Það er því aðeins í stuttan tíma sem musterið fær að vera eins og það var í upphafi.

1. Konungabók 11:26-43; 12:1-33; 14:21-31.