Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 55: Lítill drengur þjónar Guði

Saga 55: Lítill drengur þjónar Guði

ER ÞETTA ekki myndarlegur lítill drengur? Hann heitir Samúel. Maðurinn með höndina á höfði hans er Elí, æðsti presturinn í Ísrael. Það er faðir Samúels, Elkana, og móðir hans, Hanna, sem koma með Samúel til Elí.

Samúel hittir Elí æðsta prest

Samúel er aðeins fjögurra eða fimm ára. Nú á hann að búa hér við samfundatjald Jehóva með Elí og hinum prestunum. Hvers vegna ætli Elkana og Hanna láti Samúel svona ungan frá sér til að þjóna Jehóva við samfundatjald hans? Við skulum nú heyra um það.

Aðeins nokkrum árum áður en þetta gerðist var Hanna mjög sorgmædd. Ástæðan var sú að hún vildi mjög gjarnan eignast barn en gat það ekki. Dag einn, þegar Hanna kom til samfundatjalds Jehóva, bað hún: 'Ó, Jehóva, gleymdu mér ekki! Ef þú gefur mér son lofa ég að gefa þér hann svo að hann geti þjónað þér alla ævi.‘

Jehóva bænheyrði Hönnu og nokkrum mánuðum seinna fæddi hún Samúel. Hanna elskaði litla drenginn sinn og byrjaði að kenna honum um Jehóva þegar hann var enn þá mjög lítill. Hún sagði við manninn sinn: 'Strax og Samúel er orðinn nógu gamall til að hætta á brjósti fer ég með hann til samfundatjaldsins svo að hann geti þjónað Jehóva þar.‘

Það er þetta sem við sjáum Hönnu og Elkana gera á myndinni. Vegna þess hve vel foreldrar Samúels hafa kennt honum gleður það hann núna að geta þjónað Jehóva hér við tjald Jehóva. Á hverju ári koma Hanna og Elkana til þess að tilbiðja Guð við þetta sérstaka tjald og til að heimsækja litla drenginn sinn. Og ár hvert kemur Hanna með nýjan möttul eða ermalausan kyrtil sem hún hefur saumað á Samúel.

Árin líða og Samúel heldur áfram að þjóna við samfundatjald Jehóva og bæði Jehóva og fólkinu líkar vel við hann. En synir Elí, æðsta prests, þeir Hofní og Pínehas, eru vondir menn. Þeir gera margt illt og fá einnig aðra til að óhlýðnast Jehóva. Elí ætti að láta þá hætta að vera presta en hann gerir það ekki.

Hinn ungi Samúel lætur ekkert af því ranga, sem á sér stað við samfundatjaldið, hindra sig í að þjóna Jehóva. En vegna þess hve fáir elska Jehóva í raun og veru er nú langt um liðið síðan Jehóva hefur talað við nokkurn mann. Taktu nú eftir hvað gerist þegar Samúel er orðinn aðeins eldri:

Samúel liggur sofandi í samfundatjaldinu þegar hann vaknar við það að einhver kallar. Hann svarar: 'Hér er ég.‘ Síðan rís hann upp og hleypur til Elí og segir: 'Hér er ég því að þú kallaðir á mig.‘

En Elí svarar: 'Ég kallaði ekki á þig; farðu aftur í rúmið.‘ Samúel fer þá aftur í rúmið.

Þá er kallað í annað sinn: 'Samúel!‘ Samúel stendur upp og hleypur aftur til Elí. 'Hér er ég því að þú kallaðir á mig,‘ segir hann. En Elí svarar: 'Ég kallaði ekki, sonur minn. Farðu bara aftur að sofa.‘ Og Samúel fer aftur í rúmið.

'Samúel!‘ kallar röddin í þriðja sinn. Samúel hleypur til Elí. 'Hér er ég því að þú hlýtur að hafa kallað á mig í þetta skipti,‘ segir hann. En Elí veit núna að það hlýtur að vera Jehóva sem kallar. Hann segir við Samúel: 'Farðu og leggstu í rúmið enn einu sinni og ef hann kallar aftur skaltu segja: "Tala þú, Jehóva, því að þjónn þinn heyrir.“‘

Þetta segir Samúel þegar Jehóva kallar aftur. Jehóva segir þá Samúel að hann ætli að refsa Elí og sonum hans. Nokkru seinna deyja þeir Hofní og Pínehas í orrustu við Filista og þegar Elí fréttir hvað gerst hefur dettur hann aftur á bak úr stólnum, hálsbrotnar og deyr. Þannig rætast orð Jehóva.

Samúel vex upp og verður síðasti dómarinn í Ísrael. Þegar hann er orðinn gamall segir fólkið við hann: 'Veldu konung til að ríkja yfir okkur.‘ Samúel vill ekki gera það vegna þess að í raun og veru er Jehóva konungur Ísraelsmanna. En Jehóva segir honum að gera það sem þeir biðja hann um.

1. Samúelsbók 1:1-28; 2:11-36; 4:16-18; 8:4-9.