Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 50: Tvær hugrakkar konur

Saga 50: Tvær hugrakkar konur

ÞEGAR Ísraelsmennirnir lenda í erfiðleikum ákalla þeir Jehóva. Jehóva svarar þeim með því að gefa þeim hugrakka leiðtoga sem geta hjálpað þeim. Biblían kallar þá dómara. Jósúa var fyrsti dómarinn og á eftir honum komu meðal annarra Otníel, Ehúð og Samgar. En það eru einnig tvær konur sem hjálpa Ísraelsmönnum og þær heita Debóra og Jael.

Debóra talar við Barak

Debóra er spákona. Jehóva gefur henni upplýsingar um framtíðina og hún lætur síðan fólkið vita hvað Jehóva segir. Debóra er einnig dómari. Hún situr undir ákveðnu pálmatré sem er í fjallahéraðinu og fólk leitar hjálpar hjá henni þegar það á í erfiðleikum.

Á þessum tíma er Jabín konungur í Kanaan. Hann á 900 stríðsvagna. Her hans er svo öflugur að margir Ísraelsmenn hafa verið neyddir til að þjóna Jabín. Hershöfðingi Jabíns konungs heitir Sísera.

Dag einn sendir Debóra eftir Barak dómara og segir við hann: 'Jehóva segir: "Taktu 10.000 menn með þér til Taborfjalls. Þangað mun ég leiða Sísera til þín. Ég mun gefa þér sigur yfir honum og her hans.“‘

Barak segir við Debóru: 'Ég mun fara ef þú kemur líka með mér.‘ Debóra fer með honum en hún segir við Barak: 'Þú færð ekki heiðurinn af sigrinum vegna þess að Jehóva mun gefa Sísera í hendur konu.‘ Og það er einmitt það sem gerist.

Barak fer ofan af Taborfjalli til móts við hermenn Sísera. Skyndilega lætur Jehóva vatnsflóð koma og margir af óvinahermönnunum drukkna. En Sísera stekkur af vagni sínum og tekur til fótanna.

Barak, Jael og Sísera

Eftir nokkra stund kemur Sísera að tjaldi Jaelar. Hún býður honum inn og gefur honum mjólk að drekka. Það gerir hann syfjaðan og brátt er hann í fastasvefni. Jael tekur þá tjaldhæl og rekur hann í gegnum höfuð þessa vonda manns. Þegar Barak á síðan leið fram hjá sýnir hún honum Sísera dauðan. Þú sérð að það rættist sem Debóra sagði.

Að lokum er Jabín konungur einnig drepinn og friður kemst aftur á hjá Ísraelsmönnum um tíma.

Dómarabókin 2:14-22; 4:1-24; 5:1-31.