Æ, Æ! HVAÐ er fólkið nú að gera? Það er að biðja til kálfs! Hvers vegna gerir fólkið þetta?

Þegar Móse hefur dvalið lengi uppi á fjallinu segir fólkið: 'Við vitum ekki hvað er orðið af honum Móse. Þess vegna skulum við búa til guð sem getur leitt okkur út úr þessu landi.‘

Móse fleygir frá sér steintöflunum tveim

'Allt í lagi,‘ segir Aron, bróðir Móse. 'Takið af ykkur gulleyrnahringina og færið mér.‘ Fólkið gerir það og Aron bræðir hringina og býr til gullkálf. Nú segir fólkið: 'Þetta er okkar Guð sem leiddi okkur út úr Egyptalandi!‘ Síðan halda Ísraelsmenn mikla veislu og tilbiðja gullkálfinn.

Jehóva reiðist mjög þegar hann sér þetta. 'Móse,‘ segir hann, 'flýttu þér niður. Fólkið hegðar sér mjög illa. Það hefur gleymt lögum mínum og fellur nú fram fyrir gullkálfi.‘

Fólkið tilbiður gullkálf

Móse flýtir sér ofan af fjallinu. Og þetta er það sem hann sér þegar hann kemur nær. Fólkið syngur og dansar í kringum gullkálfinn! Móse verður svo reiður að hann fleygir frá sér steintöflunum tveim sem lögin eru skrifuð á og þær mölbrotna. Þá tekur hann gullkálfinn og bræðir hann og mylur síðan gullið í duft.

Fólkið hefur hegðað sér mjög illa. Móse segir nokkrum mannanna að sækja sverð sín. 'Það vonda fólk, sem hefur tilbeðið gullkálfinn, verður að deyja,‘ segir Móse. Og mennirnir deyða 3000 manns! Sýnir þetta ekki að við verðum að gæta þess vandlega að tilbiðja aðeins Jehóva og enga falsguði?

2. Mósebók 32:1-35.