Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Saga 28: Barninu Móse bjargað

Saga 28: Barninu Móse bjargað

SJÁÐU litla barnið sem heldur grátandi um fingur konunnar. Það er Móse. Veistu hver þessi fína kona er? Hún er egypsk prinsessa, dóttir sjálfs Faraós.

Dóttir Faraós finnur Móse

Móðir Móse faldi nýfædda drenginn sinn þar til hann var þriggja mánaða gamall til þess að Egyptarnir dræpu hann ekki. En hún vissi að Móse gæti fundist. Nú skaltu heyra hvað hún gerði til að bjarga honum.

Hún tók sér körfu og þétti hana svo að ekkert vatn læki inn í hana. Síðan lagði hún Móse í körfuna og kom henni fyrir í sefinu sem óx meðfram ánni Níl. Mirjam, systur Móse, var sagt að standa skammt frá og sjá hvað myndi gerast.

Innan skamms kom dóttir Faraós niður að ánni til að baða sig. Allt í einu sá hún körfuna í háu sefinu. 'Náðu í þessa körfu fyrir mig,‘ sagði hún við eina af þjónustustúlkum sínum. Og þegar prinsessan opnaði körfuna sá hún þar fallegt smábarn! Móse litli grét og prinsessan vorkenndi honum. Hún vildi ekki að hann yrði deyddur.

Þá kom Mirjam þangað. Þú sérð hana á myndinni. 'Á ég að fara og finna ísraelska konu sem getur haft barnið á brjósti fyrir þig?‘ spurði Mirjam dóttur Faraós.

'Já, gerðu það,‘ svaraði prinsessan.

Mirjam hljóp á harðaspretti og sótti móður sína. Móðir Móse kom til prinsessunnar sem sagði: 'Taktu þetta barn og hafðu það á brjósti fyrir mig og ég skal launa þér fyrir.‘

Og þannig annaðist móðir Móse sitt eigið barn. Þegar Móse var orðinn nógu gamall fór hún með hann til dóttur Faraós sem tók hann að sér sem sinn eigin son. Þannig bar það til að Móse ólst upp í húsi Faraós.

2. Mósebók 2:1-10.