Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Biblíusögubókin mín

Saga 7: Hugrakkur maður

Saga 7: Hugrakkur maður
Enok

ÞEGAR fólkinu tók að fjölga á jörðinni gerðu flestir það sem illt var eins og Kain. En einn maður var öðruvísi en aðrir. Það er þessi maður sem heitir Enok. Hann var mjög hugrakkur. Fólkið allt í kringum hann aðhafðist margt mjög illt en Enok hélt samt áfram að þjóna Guði.

Veistu hvers vegna fólkið, sem þá lifði, gerði svona margt illt? Hugsaðu nú. Hver fékk Adam og Evu til að óhlýðnast Guði og borða ávöxtinn sem Guð sagði að þau mættu ekki borða? Já, það var vondur engill. Biblían kallar hann Satan. Og hann reynir að fá alla til að vera vondir.

Rán og morð

Dag einn lét Jehóva Guð Enok segja fólkinu eitthvað sem það vildi ekki heyra. Það var þetta: 'Guð ætlar einhvern daginn að eyða öllu vonda fólkinu.‘ Líklega reiddist fólkið mjög mikið þegar það heyrði þetta. Kannski reyndi það jafnvel að deyða Enok. Enok þurfti þess vegna að vera mjög hugrakkur til að segja fólkinu frá því sem Guð ætlaði að gera.

Guð lét Enok ekki lifa lengi á meðal þessa slæma fólks. Enok varð aðeins 365 ára. Hvers vegna segjum við "aðeins 365 ára“? Vegna þess að í þá daga voru menn miklu hraustari en núna og lifðu miklu lengur. Já, Metúsala, sonur Enoks, varð 969 ára gamall!

Fólk gerir það sem er slæmt

Eftir að Enok dó urðu mennirnir sífellt verri og verri. Biblían segir að 'þeir hafi ekki hugsað um annað en það sem illt var alla daga,‘ og að 'jörðin hafi fyllst af ofbeldi og glæpaverkum.‘

Veistu hvers vegna það var svona mikill ófriður og illska á jörðinni á þeim dögum? Ein ástæðan var sú að Satan notaði nýja leið til að fá fólk til að vinna illskuverk. Við munum læra um það næst.

1. Mósebók 5:21-24, 27; 6:5; Hebreabréfið 11:5; Júdasarbréfið 14, 15.