„EG FANN fyrir miklum þrýstingi að byrgja tilfinningar mínar inni,“ útskýrir Mike þegar hann minnist dauða föður síns. Í augum Mikes voru það karlmannleg viðbrögð að halda aftur af tilfinningum sínum. Seinna gerði hann sér þó ljóst að hann hefði á röngu að standa. Þegar vinur Mikes missti afa sinn vissi Mike þess vegna hvað hann átti að gera. Hann segir: „Fyrir tveimur árum hefði ég klappað honum á öxlina og sagt: ‚Vertu karlmannlegur.‘ En núna snerti ég hönd hans og sagði: ‚Leyfðu þér hverja þá tilfinningu sem þér finnst þörf á. Það hjálpar þér að takast á við þetta. Ef þú vilt að ég fari skal ég fara. Ef þú vilt að ég sé hér skal ég vera kyrr. En vertu ósmeykur við að finna fyrir tilfinningum.‘“

MaryAnne fann einnig fyrir þrýstingi að byrgja tilfinningar sínar inni þegar eiginmaður hennar dó. „Ég hafði svo miklar áhyggjur af því að sýna ekki gott fordæmi,“ segir hún, „að ég leyfði mér ekki að búa yfir eðlilegum tilfinningum. En ég lærði á endanum að það hjálpaði mér ekki að reyna að vera öðrum máttarstólpi. Ég fór að brjóta stöðu mína til mergjar og sagði: ‚Gráttu ef þú þarft að gráta. Reyndu ekki að vera of sterk. Léttu þessu af þér.‘“

Það sem bæði Mike og MaryAnne mæla með er þetta: Leyfðu þér að syrgja! Og það er rétt hjá þeim. Hvers vegna? Vegna þess að tilfinningarnar fá nauðsynlega útrás ef menn syrgja. Ef tilfinningunum er gefinn laus taumurinn getur það létt á þeim þrýstingi sem maður er undir. Eðlileg tjáning tilfinninga, sé hún samfara skilningi og nákvæmum upplýsingum, lætur mann setja tilfinningar sínar í rétt samhengi.

Að sjálfsögðu láta ekki allir sorg sína í ljós á sama hátt. Einnig geta þættir, eins og hvort dauða ástvinarins bar skyndilega að eða hann kom eftir langvinnan sjúkdóm, haft áhrif á tilfinningaviðbrögð eftirlifenda. En eitt virðist alveg víst: Það getur verið skaðlegt bæði líkamlega og tilfinningalega að bæla niður tilfinningar sínar. Það er miklu heilbrigðara að losa um sorgina. Hvernig? Í Ritningunni er að finna nokkur gagnleg ráð.

Losað um sorgina — hvernig?

Að tala getur losað um sorgina. Eftir að fornaldarættfaðirinn Job hafði orðið fyrir þeim persónulega harmi að missa öll tíu börnin sín, ásamt öðru böli sem dundi yfir, sagði hann: „Mér býður við lífi mínu, ég ætla því að gefa kveinstöfum  mínum lausan tauminn, ætla að tala í sálarkvöl minni.“ (Jobsbók 1:2, 18, 19; 10:1) Job gat ekki lengur haft hemil á kveinstöfum sínum. Hann varð að gefa þeim lausan tauminn; hann varð að „tala“. Á sama hátt skrifaði enska leikritaskáldið Shakespeare í Makbeð: „Lát tregann tala; hljóður harmastingur við hjartað hvískrar þangað til það springur.“

Það getur þess vegna verið nokkur léttir í því að tala um tilfinningar sínar við vin sem hlustar með þolinmæði og samúð. (Orðskviðirnir 17:17) Oftast er auðveldara að skilja og takast á við reynslu sína og tilfinningar ef maður færir þær í orð. Og ef áheyrandinn hefur líka misst ástvin og náð að takast á við missi sinn getur maður ef til vill viðað að sér nokkrum gagnlegum tillögum um hvernig standa megi þetta af sér. Móðir útskýrði hvernig það hjálpaði henni, þegar barn hennar dó, að tala við aðra konu sem orðið hafði fyrir sams konar áfalli: „Að vita að einhver önnur hefði gengið í gegnum það sama, hefði komist heil frá því og að hún væri enn uppistandandi og fyndi einhvers konar reglu aftur í lífi sínu, var mjög styrkjandi fyrir mig.“

Dæmi í Biblíunni sýna að skrifi maður niður tilfinningar sínar getur það hjálpað manni að tjá sig um sorgina.

Hvað nú ef manni finnst óþægilegt að tala um tilfinningar sínar? Eftir dauða Sáls og Jónatans orti Davíð mjög tilfinningaþrungið sorgarljóð þar sem hann úthellti sorg sinni. Þetta harmþrungna verk varð að lokum hluti þeirrar frásagnar sem skráð er í 2. Samúelsbók í Biblíunni. (2. Samúelsbók 1:17-27; 2. Kroníkubók 35:25) Sumum finnst á sama hátt auðveldara að tjá sig í rituðu máli. Ekkja sagði frá því að hún skrifaði niður tilfinningar sínar og læsi síðan mörgum dögum seinna yfir það sem hún hefði skrifað. Það reyndist henni gagnlegt til að létta á sér.

Hvort sem maður tjáir tilfinningar sínar munnlega eða skriflega getur það hjálpað manni að losa um sorgina. Það getur líka stuðlað að því að misskilningur hverfi. Móðir, sem missti barn, útskýrir: „Maðurinn minn og ég fréttum um önnur hjón sem skildu eftir að hafa misst barn og við vildum ekki að það kæmi fyrir okkur. Þess vegna ræddum við út um málin í hvert sinn sem við fundum fyrir reiði eða vildum kenna hvoru öðru um. Ég held að það hafi í rauninni gert okkur nátengdari.“ Að láta aðra vita um tilfinningar sínar getur þannig hjálpað manni að skilja að jafnvel þótt missirinn sé sá sami kunna aðrir að syrgja öðruvísi — sorg þeirra hefur sinn eigin gang og sína eigin leið.

Annað, sem getur auðveldað manni að losa um sorgina, er grátur. „Að gráta hefir sinn tíma,“ segir Biblían. (Prédikarinn 3:1, 4) Slíkur tími kemur sannarlega þegar ástvinur deyr. Að gráta sorgartárum virðist vera nauðsynlegt til að sárin nái að gróa.

Ung kona segir hvernig náinn vinur hjálpaði henni að takast á við málin þegar móðir hennar dó: „Vinkona mín var alltaf til taks. Hún grét með  mér. Hún talaði við mig. Ég gat verið svo hreinskilin um tilfinningar mínar og það var mér mikilvægt. Ég þurfti ekki að fara hjá mér fyrir að gráta.“ (Sjá Rómverjabréfið 12:15) Það er ekki heldur ástæða til að skammast sín fyrir tárin. Við höfum séð að í Biblíunni eru mjög mörg dæmi um trúaða karla og konur — Jesús Kristur þar með talinn — sem felldu sorgartár í augsýn annarra greinilega án þess að fara hjá sér. — 1. Mósebók 50:3; 2. Samúelsbók 1:11, 12; Jóhannes 11:33, 35.

Í öllum menningarsamfélögum kunna syrgjendur að meta hughreystingu.

Um tíma geta tilfinningarnar verið svolítið óútreiknanlegar. Tárin geta farið að streyma næstum fyrirvaralaust. Ekkja komst að raun um að innkaupaferð í stórmarkaðinn (nokkuð sem hún hafði oft gert með manninum sínum) kom henni oft til að tárast, einkum þegar hún teygði sig af gömlun vana eftir vörum sem höfðu verið í uppáhaldi hjá eiginmanni hennar. Maður þarf að sýna sjálfum sér þolinmæði og ekki finnast maður verða að halda aftur af tárunum. Rétt er að muna að tárin eru eðlilegur og nauðsynlegur þáttur sorgarferlisins.

Tekist á við sektarkennd

Eins og þegar hefur verið nefnt finna sumir til sektarkenndar eftir fráfall ástvinar. Það gæti verið skýringin á ákafri sorg hins trúfasta manns Jakobs þegar hann var látinn halda að „óargadýr“ hefði drepið Jósef, son hans. Jakob hafði sjálfur sent Jósef til að kanna hvort bræðrum hans liði vel. Því er líklegt að sektarkennd hafi nagað Jakob með spurningum eins og ‚Hvers vegna sendi ég Jósef einan? Hvers vegna sendi ég hann út á svæði morandi í villidýrum?‘ — 1. Mósebók 37:33-35.

Ef til vill finnst manni að einhver vanræksla af manns eigin hálfu hafi átt þátt í dauða ástvinarins. Það getur í sjálfu sér verið gagnlegt að gera sér ljóst að sektarkennd — af raunverulegum eða ímynduðum orsökum — er eðlileg sorgarviðbrögð. Hér ætti enn sem fyrr ekki endilega að byrgja slíkar tilfinningar inni. Tali maður um sektarkennd sína getur það veitt manni þá útrás sem svo mikil þörf er á.

Gerum okkur þó ljóst að hversu mjög sem við elskum einhvern getum við ekki stjórnað lífi  hans, og ekki getum við heldur hindrað að „tími og tilviljun“ mæti ástvinum okkar. (Prédikarinn 9:11) Auk þess er ekki að efa að hvatirnar voru ekki slæmar. Var það til dæmis ætlunin, með því að leita ekki fyrr til læknis, að láta ástvin sinn veikjast og deyja? Að sjálfsögðu ekki! Er maður þá í raun og veru sekur um að valda dauða hans? Nei.

Móðir lærði að takast á við sektarkenndina eftir að dóttir hennar fórst í bílslysi. Hún útskýrir: „Mér fannst ég sek fyrir að hafa sent hana út. En síðan gerði ég mér ljóst að það væri fáránlegt að finnast það. Það var ekkert rangt við að biðja hana um að fara í sendiferð með föður sínum. Þetta var bara hræðilegt slys.“

‚En það er svo margt sem ég vildi að ég hefði sagt eða gert,‘ segir maður ef til vill. Satt er það, en hver okkar getur sagt að við höfum verið hinn fullkomni faðir, móðir eða barn? „Allir hrösum vér margvíslega,“ minnir Biblían okkur á. „Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn.“ (Jakobsbréfið 3:2; Rómverjabréfið 5:12) Viðurkennum því þá staðreynd að við erum ekki fullkomin. Það breytir engu að hugsa sífellt „ef aðeins“ þetta eða hitt, en það gæti aftur á móti valdið því að við verðum lengur að ná okkur.

Sé einhver gild ástæða til að ætla að sektin sé raunveruleg, ekki ímynduð, ætti maður að hugleiða mikilvægasta þáttinn í því að létta af sér sektarkennd — fyrirgefningu Guðs. Biblían fullvissar okkur: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning.“ (Sálmur 130:3, 4) Það er ekki hægt að fara aftur í tímann og breyta nokkru. Hins vegar er hægt að biðja um fyrirgefningu Guðs vegna fyrri mistaka. Og þá hvað? Ef Guð lofar að hreinsa sakaskrá þína ættir þú þá ekki líka að fyrirgefa sjálfum þér? — Orðskviðirnir 28:13; 1. Jóhannesarbréf 1:9.

Tekist á við reiði

Syrgjandinn kann líka að finna fyrir nokkurri reiði, ef til vill í garð lækna, hjúkrunarfólks, vina eða jafnvel hins látna. Hann þarf að gera sér ljóst að þetta eru líka algeng viðbrögð við ástvinarmissi. Ef til vill er reiðin eðlilegur fylgifiskur sársaukans sem maður finnur fyrir. Bókarhöfundur segir: „Aðeins með því að vita af reiðinni — ekki fylgja henni eftir heldur vita að maður finnur fyrir henni — getur maður verið laus við skaðvænleg áhrif hennar.“

Það getur einnig verið gagnlegt að tjá reiði sína eða deila henni með öðrum. Hvernig? Vissulega ekki með stjórnlausum reiðiköstum. Biblían segir að langvarandi reiði sé hættuleg. (Orðskviðirnir 14:29, 30) En það getur verið huggunarríkt að tala um hana við skilningsríkan vin. Röskleg hreyfing hjálpar sumum að fá útrás þegar þeir eru reiðir — Sjá einnig Efesusbréfið 4:25, 26.

Þó að mikilvægt sé að vera opinskár og heiðarlegur um tilfinningar sínar eru viðvörunarorð við hæfi. Það er mikill munur á því að láta tilfinningar sínar í ljós og að kaffæra aðra í þeim. Það er engin þörf á að kenna öðrum um reiði sína og vonbrigði. Höfum því í huga að tala um tilfinningar okkar, en ekki á óvinveittan hátt. (Orðskviðirnir 18:21) Til er afburðagóð leið til að takast á við sorg og við munum ræða hana núna.

Hjálp frá Guði

Biblían fullvissar okkur: „Drottinn er nálægur þeim er hafa  sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ (Sálmur 34:19) Já, samband við Guð getur hjálpað okkur meira en nokkuð annað að takast á við dauða ástvinar. Hvernig? Allar hinar gagnlegu tillögur, sem komið hefur verið með hingað til, hafa verið byggðar á orði Guðs, Biblíunni, eða eru í samræmi við hana. Ef við förum eftir þeim getur það hjálpað okkur að takast á við þessi mál.

Auk þess skyldum við ekki vanmeta gildi bænarinnar. Biblían hvetur okkur: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálmur 55:23) Ef hjálp er í því að tala um tilfinningar sínar við samúðarfullan vin, hversu miklu gagnlegra er ekki að úthella hjarta sínu fyrir ‚Guði allrar huggunar‘. — 2. Korintubréf 1:3.

Það er ekki það að bænin láti okkur bara líða betur. Sá „sem heyrir bænir“ lofar að gefa heilagan anda þjónum sínum sem biðja um hann í einlægni. (Sálmur 65:3; Lúkas 11:13) Og heilagur andi eða starfskraftur Guðs getur veitt mönnum „ofurmagn kraftarins“ til að komast frá einum degi til annars. (2. Korintubréf 4:7) Munum að Guð hjálpar hinum trúföstu þjónum sínum að þola hvern og einn vanda sem þeir kunna að standa andspænis.

Kona, sem missti barn í dauðann, minnist þess hvernig máttur bænarinnar hjálpaði henni og eiginmanni hennar í gegnum sorg þeirra. „Ef við vorum heima að kvöldi og sorgin varð hreint óbærileg báðum við upphátt saman,“ segir hún. „Þegar við þurftum að gera eitthvað án dóttur okkar í fyrsta sinn — fyrsta safnaðarsamkoman sem við fórum á, fyrsta mótið sem við sóttum — báðum við Guð um styrk. Þegar við vöknuðum á morgnana og það virtist óbærilegt að þetta skyldi allt vera raunveruleiki, báðum við Jehóva að hjálpa okkur. Af einhverri ástæðu var það sálrænt áfall fyrir mig að þurfa að fara ein inn í húsið. Í hvert sinn sem ég kom ein heim bar ég þess vegna fram bæn til Jehóva að hann hjálpaði mér að halda ró minni.“ Þessi trúfasta kona trúir því stöðuglega og með réttu að bænirnar hafi skipt máli. Þrálátar bænir þínar gætu einnig haft þá afleiðingu að ‚friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, muni varðveita hjarta þitt og hugsanir‘. — Filippíbréfið 4:6, 7; Rómverjabréfið 12:12.

Hjálpin, sem Guð lætur í té, skiptir máli. Kristni postulinn Páll talaði um Guð „sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra“. Hjálp frá Guði þurrkar að vísu ekki út sársaukann en hún gerir hann léttbærari. Það þýðir ekki að maður gráti ekki framar eða gleymi ástvini sínum. En maður getur náð sér. Og sá sem hefur gert það hefur öðlast reynslu sem getur gert hann skilningsríkari og samúðarfyllri þegar hann hjálpar öðrum að takast á við sams konar missi. — 2. Korintubréf 1:4.